Ég er nýkominn af tveggja daga fundi framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitssvæða, sem rekin eru af sveitarfélögum landsins auk þess sóttu fundinn fulltrúar Umhverfisstofnun, Matvælastofnunar og ráðuneyta umhverfismála og atvinnu- og nýsköpunar. Fundurinn var haldinn á Hótel Geysi í Haukadal. Ekki er hægt að láta hjá líða að minnast á þau frábæru veisluföng sem hótelið bauð upp á og ég reikna með að koma með nokkur hundruð grömm með mér norður í Skagafjörðinn úr Haukadalnum.
Ýmislegt bar til tíðinda á fundinum, m.a. skinu í gegn þau skilaboð frá miðlægum ríkisstofnunum að sveitarfélögunum í landinu væri ekki treystandi til að sinna eftirliti í héraði og gefið var í skyn að það fengist betra eftirlit með ríkisvæðingu. Skilaboðin ganga þvert á stefnu stjórnvalda, sem hefur verið að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga en ekki í hina áttina. Nefnt var af talsmanni Stjórnarráðsins að einkum ríkti vantraust í garð staðbundinna stjórna heilbrigðisnefnda í dreifbýlinu, án þess þó að hann gæti fært fyrir því einhver dæmi eða rök. Þessi vantrú frá frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu á að ákvarðanataka sé í höndum þeirra sem þekkja vel til staðbundinna aðstæðna og tröllatrú á algerri miðstýringu kemur verulega á óvart og fróðlegt verður að fylgjast með hvort að nýr ráðherra muni taka undir þá sýn.
Verkefni heilbrigðiseftirlitsins eru mjög fjölbreytt og geta sum hver verið flókin, en sjaldnast bjóða þau upp á gríðarlega hagsmunaárekstra, s.s. að ráða fram úr lyktarmengun, líta til með hreinlæti í sjoppum og matsölustöðum, sótthreinsun sundlaugarvatns, myglu í húsnæði, merkingu úðabrúsa, vatnsbólum, öryggi rennibrauta á leikskólum, frárennslisrörum, hvort olíutankar séu vökvaheldir og drasli á víðavangi svo einhver dæmi séu nefnd.
Ef að sérfræðingum og kjörnum fulltrúm sveitarfélaga, einkum þeim sem staðsettir eru langt frá höfuðborginni, er ekki treyst af embættismönnum úr Stjórnarráðinu til þess að ráða fram úr framangreindum verkefnum sökum áhrifa þeirrar nándar og vináttu sem ku einkenna dreifbýlið, þá er vafasamt að ætla að þau geti ráðið fram úr nokkru einasta verkefni, sem þeim er ætlað að sinna.
Á meðan ráðuneytismaðurinn hélt tölu sína um meinta vinavæðingu í dreifbýlinu kom upp í huga mér sú spurning hvort að ráðuneytismenn ættu enga vini og hvort að vinátta almennt sé einungis bundin við dreifbýlið. Upp í huga mér kom Rannsóknarskýrsla Alþingis. Í ljósi hennar ætti Stjórnarráðið að líta sér örlítið nær áður en það reynir að koma fingraförum sínum á framangreinda málaflokka, sem eru almennt í þokkalegu lagi.
Ein besta leiðin til þess að ná árangri við framfylgd laga og reglna er einmitt að auka skilning almennings á gildi þess að fara að reglum samfélagsins og á það ekki síst við um að virkja sem flesta í að taka þátt í að efla umhverfisgæði og hollustuhætti. Ýmsar aðrar leiðir eru til s.s. að beita beinum ströngum viðurlögum og þvingunarúrræðum líkt og í Singapore, þar sem ströng viðurlög eru við því að pissa í lyftum og henda rusli á víðavangi. Ég er ekki talsmaður sektaþjóðfélags heldur þess að reynt sé að höfða til ábyrgðarkenndar og skynsemi borgaranna. Sömuleiðis hlýtur það að vera skynsamlegt að gefa heimafólki ákveðinn sveigjanleika við að framfylgja reglum innan ákveðinna marka þannig að verið sé að taka á hlutum sem skipta máli á viðkomandi stað. Þekking á staðháttum verður einnig til þess að fjármunir og áherslur nýtast frekar í þau verkefni sem brenna á íbúum.