Í morgun fór formaður Samfylkingarinnar mikinn í útvarpsþættinum Sprengisandi í lýsingum á því að ríkisstjórnin hefði nær ekkert gert og það sem þó hefði verið gert, hefði betur verið ógert. Ég var að mörgu leyti sammála Árna Páli um að gjörðir ríkisstjórnarinnar lofi alls ekki góðu og séu ekki í neinu í samræmi við stóryrt kosningaloforð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Svarið við óstjórninni taldi formaður Samfylkingarinnar vera burðugan jafnaðarmannaflokk!
Í framhaldinu vaknaði spurningin: Hverju kom ríkisstjórn burðugs flokks „jafnaðarmanna“ í verk á einu og hálfu kjörtímabili? Ekki breytti hún kvótakerfinu, verðtryggingunni eða bætti stjórnskipan landsins og ýmislegt af því sem hún þó gerði hefði betur verið látið ógert s.s. setning Árna-Pálslaganna og endurreisn nær algerlega óbreytts fjármálakerfis.
Sex ára bitur reynsla þjóðarinnar af ríkisstjórnarsetu Samfylkingarinnar, sem einkenndist af sviknum loforðum, er aðalástæða þess að Framsókn er komin á ný að kjötkötlunum en ekki stórkostleg kosningaloforð Framsóknar.