Þriðjudagur 01.10.2013 - 20:06 - FB ummæli ()

Að berast á öldufaldi frægðarinnar

Glæný úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sýnir að enginn landshluti hefur farið jafn illa út úr niðurskurði síðustu ríkisstjórnar og Norðurland vestra. Í kjölfar síðustu kosninga er helmingur þingmanna Norðvesturkjördæmisins Framsóknarmenn og sömuleiðis er einn valdamesti ráðherrann Króksari. Því hefði mátt búast við að fjárlagafrumvarpið bæri með sér tíðindi af bættum hag Skagfirðinga eftir mörg mögur ár.

Margir skagfirskir Framsóknarmenn bundu miklar vonir við breytta tíð í nýju fjárlagafrumvarpi. Ekki voru þeir að bíða eftir fréttum af róttækustu skuldaleiðréttingu veraldar, enda veit alþjóð að þær koma ekki til framkvæmda fyrr en í nóvember og þeir eins og aðrir landsmenn bíða þolinmóðir þangað til.

Fjárlagafrumvarpið ber engan veginn með sér framsóknarþingmennirnir í kjördæminu hafi gert tilraun til að beita áhrifum sínum. Skorið er rækilega niður í Háskólanum á Hólum og hugmyndin er að leggja niður Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki og sameina hana inn í eina stofnun á Akureyri. Sú hugmynd hefur áður komið fram, en þá var hæstvirtur Utanríkisráðherra formaður Byggðaráðs Skagafjarðar og ærðist þegar hann heyrði af hugmyndinni. Í dag gerir sá hinn sami lokasókn í atlögu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs að stofnuninni. Áherslur hans eru orðnar aðrar, til dæmis eru lagðar til á annað hundrað milljóna króna hækkanir á fjárframlögum til aðalskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, en búast hefði mátt við að þau framlög myndu lækka eftir að aðildarviðræðurnar voru settar á ís.

Ég veit fyrir víst að Gunnar Bragi Sveinsson er mikill baráttumaður og harður í horn að taka. Nú er greinilegt að baráttumálin hafa breyst, enda berst hann víða um á öldufaldi frægðarinnar frá Evrópu og Ameríku til heimahaganna í Skagafirði eins og heimssaungvarinn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur