Á Íslandi eru það viðtekin rök í stjórnmálaumræðu að hægt sé að gera kerfið eða ástand betra eða verra en það er bara með því einu að tala hlutina upp eða niður. Þetta á til dæmis við um gjaldmiðilinn, efnahagsástandið, stöðu fjármálafyrirtækja, lífeyriskerfið, stöðu efnahagsmála og svo mætti lengi telja.
Þeir sem benda á augljósa galla á þessum kerfum fá sjaldan málefnaleg svör, heldur er þeim sagt að þeir séu að tala málefnið niður. Ég var á fundi Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga þar sem nokkrir útvaldir talsmenn kvótakerfisins töluðu það upp og mæltu mjög á móti því að það væri verið að tala íslenskan sjávarútveg niður.
Í máli „virts“ fyrirlesara kom það fram að stjórn fiskveiða á Íslandi væri ein mesta uppgötvun síðari tíma. Einnig kom það fram að íslenskur sjávarútvegur væri markaðsdrifin hátæknigrein, sem leitt hafi til mikillar framþróunar og verðmætasköpunar og að kerfið væri ólíkt betra heldur en það norska, sem sagt var veiðidrifið vegna þess að Norðmenn veiða enn mikð magn á vertíð. Ég benti fundargestum á að þótt að farið hefði verið nákvæmlega eftir ráðgjöfinni síðustu 20 árin, með hræðilegum árangri en þorskaflinn nú er 30% minni en í byrjun tíunda áratugarins þegar byrjað var að fylgja ráðgjöf Hafró nákvæmlega eftir, samt er talað um árangur. Hátækniiðnaðurinn er að mestu mannaður fólki sem hefur ekki mikla framhaldsmenntun eða sérmenntun á sviði vinnslu matvæla. Skipin eru orðin fjörgömul og jafnmargir sjómenn um borð á þeim og áður.
Morgunblaðið greindi frá því nýlega að íslenskur fiskur hefði enga sérstöðu á mörkuðum. Sjálfur hef ég lítið orðið var við að kynnt sé sérstaklega að fiskur komi frá Íslandi, en mjög oft hef ég rekið augun í norsk vörumerki og auglýsingar á norskum fiski.
Það, að telja það ljóð á, að Norðmenn skuli veiða fisk á vertíð, er æði undarlegt þar sem að veiði og nýting náttúruauðlinda er oftar en ekki háð árstíðasveiflum. Hérlendis er haustið tími kartöfluuppskeru, berjatínslu og sláturgerðar. Það væri eftir öðru að einhverjum hagfræðingnum myndi detta í hug að leggja það til að taka upp kartöflur allt árið og tína ber fram á vetur til þess að jafna flæði afurða inn á markaðinn.
Á fundinum var framangreindum röksemdum var ekki svarað frekar en því að ég teldi eðlilegt að hætt væri með tvöfalda verðlagningu í viðskiptum með fisk, sem kemur með beinum hætti niður á afkomu sjómanna og sveitarfélaga. Menn sögðust einfaldlega ósammála án þess að leggja til nokkur haldbær rök í púkkið. Enda var þetta mögulega flokkað sem tal niður á við gegn besta fiskveiðistjórnunarkerfi í víðri veröld.
Mín skoðun er sú að ef að það á að nást áþreifanlegur árangur við stjórn landsins þá þarf að gera fleira en að tala upp stórgölluð séríslensk kerfi – það þarf að breyta þeim til betri vegar.