Mánudagur 16.12.2013 - 11:43 - FB ummæli ()

Áður ærðust Framsóknarmenn!

Nú liggur það fyrir í breytingartillögu við fjárlög næsta árs að ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks ætlar að leggja niður Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki og færa starfsemina inn í stofnun á Akureyri. Í breytingartillögunni kemur fram að ekki er ætluð ein króna til reksturs Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki  og að ný sameinuð stofnun, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, fær lítið brot eða 100 milljón krónur af öllum þeim milljörðum sem ætlað er að auka við fjárveitingar til heilbrigðisþjónustunnar. Augljóst er að smánarleg aukning fjárframlaga er alls ekki nægjanleg til að vega upp á móti fyrirliggjandi halla sameinaðra stofnana sem lagðar verða inn í nýja Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Frekari niðurskurður á starfsemi blasir því við á Norðurlandi.

Á fundi sem sveitarstjórnarfulltrúar Skagafjarðar áttu nýlega með Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra kom skýrt fram að aðförin að Heilbrigðisstofnuninni væri í algjörri andstöðu við íbúa. Ráðherra og þinglið Framsóknarflokksins sem beitir sér nú fyrir því að leggja niður heilbrigðisstofnanirnar gera greinilega ekki neitt með skýrar ályktanir flokksmanna. Merkilegt er að fylgjast með hve lítið fer fyrir framámönnum Framsóknarflokksins á þingi og í sveitarstjórn Skagafjarðar, á borð við Gunnar Braga Sveinsson, þegar verið er að leggja niður Heilbrigðisstofnunarina á Sauðárkróki, og fyrirséð er að draga á enn frekar úr starfseminni á Króknum – en áður nánast ærðust þeir þegar svipaðar hugmyndir voru upp á teningnum.

Áætlanir ríkisstjórnarinnar um sameiningu heilbrigðisstofnana eru mjög vondar fyrir íbúa og starfsfólk enda skapa þær mikla óvissu um  kjölfestu í samfélögunum. Einnig eru þær afar slæmar fyrir skattgreiðendur. Ríkisendurskoðun hefur skrifað þónokkrar skýrslur um hvernig skuli standa að sameiningu ríkisstofnana og er kristaltært að öllum þeim skýrslum og sjónarmiðum sem þar hafa komið fram hefur verið vikið til hliðar.

Í lokin ætla ég í fyrsta sinn að gera orð Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra að mínum en hann hafði þau uppi í grein þar sem hann gagnrýndi síðustu ríkisstjórn fyrir nánast sömu aðgerðir og ríkisstjórn Framsóknarflokksins er að fara í:

„Aðför stjórnvalda að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni er til skammar enda engin rök verið sett fram er styðja framferði stjórnvalda.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur