Fimmtudagur 19.12.2013 - 00:10 - FB ummæli ()

Mjög fá mál eru til umfjöllunar

Í merkilegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir Hrunsins koma ábendingar um hverju þurfi nauðsynlega að breyta í íslensku samfélagi. Ábendingar á borð við að draga þurfi skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála, að leita þurfi leiða til þess að styrkja siðferðisvitund stjórnmálamanna og auka virðingu þeirra fyrir góðum stjórnsiðum.

Mér komu framangreindar ábendingar í hug þegar ég fékk þau skilaboð frá leiðtogum Framsóknarflokksins í Skagafirði að fyrirhugaður fundur Byggðaráðs þann 19. desember félli niður vegna þess að fá brýn mál væru til umfjöllunar.  Staðreyndin er óvart sú að það liggja fyrir fjölmörg mál,  sem brenna mjög á íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar á borð við: framtíð Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki, fjárframlög til Háskólans á Hólum, niðurstöður PISA könnunarinnar, stöðuna í kjaramálum kennara og skipan nýs Sýslumanns á Sauðárkróki.

Kjörnir fulltrúar í sveitarfélaginu eiga að mótmæla harðlega allir sem einn þeirri óvissu sem ríkisstjórnin, undir forystu Framsóknarflokksins elur á, en óþolandi er að ríkisstjórnin haldi áfram umsátursástandi um Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki fram á næsta haust. Það er algerlega óþolanadi gagnvart bæði starfsfólki og Skagfirðingum.

Mögulega hentar það ekki þröngum flokkshagsmunum Framsóknarflokksins til skamms tíma litið að ræða framangreind mál í þeim lýðræðislega kjörnu nefndum og ráðum sem eru til þess bærar og halda frekar „leyndó fundi“ með sérvöldum aðilum.

Ég er aftur á móti viss um að opin lýðræðisleg umræða henti almenningi betur og jú einnig Framsóknarflokknum til lengri tíma litið.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur