Föstudagur 20.12.2013 - 16:12 - FB ummæli ()

Guðni Már og Þorsteinn Már

Af einhverri furðulegri ástæðu sem enginn áttar sig á hefur Sjálfstæðisflokkurinn sem á tyllidögum kennir sig við frjálsan markað tekið ástfóstri við eitt einokunarkerfi í sjávarútvegi.

Ég hlustaði á Illuga Gunnarsson á Útvarpi Sögu í gær reyna að rökstyðja að það þyrfti að breyta nánast og endurskipuleggja flest annað en kvótakerfið í sjávarútvegi. Hann ætti þó að þekkja áhrif kvótakerfisins á byggðina sem fóstraði hann upp á Flateyri. Illugi og aðrir forystumenn í Sjálfstæðisflokknum vilja halda upp óvissu í rekstri opinberra stofnana og algjöru umsátursástandi um rekstur heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Á sama tíma mega þeir ekki heyra á það minnst að hnika einu eða neinu í fiskveiðistjórnunarkerfi landsmanna. Ekki má skerða hár á höfði Þorsteins Más en Illuga Gunnarssyni þykir í lagi að hausinn á Guðna Má fjúki í heilu lagi.

Rökin hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir því að ekki megi breyta neinu eru að það komi í veg fyrir fjárfestingar í sjávarútveginum. Staðreyndin er hins vegar sú að því meiri vissa sem hefur verið um að ónýtu kvótakerfi sé viðhaldið, þeim mun hæfari til veðtöku hafa aflaheimildirnar þótt og skuldir hafa safnast upp hjá greininni meðan búnaðurinn hefur elst.

Grundvallarpurningunni er sjaldan varpað fram: Hvað hafa menn að gera við auknar fjárfestingar ef þorskveiðin verður svipuð og hún var á þriðja áratug síðustu aldar?

Ef menn vilja fá meira líf og meiri fjárfestingu og nýliðun í sjávarútveginn liggur beinast við að láta markaðslögmál gilda um verðlagningu á fiski til vinnslu og sömuleiðis að leita allra leiða til að endurskoða ráðgjöf til að auka veiðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur