Fimmtudagur 09.01.2014 - 23:52 - FB ummæli ()

Í vöggunni er verðtryggingin inngróin

 það má vel fullyrða að Skagafjörður geti talist vagga Framsóknarflokksins og jafnvel sömuleiðis vagga verðtryggingarinnar en lög um verðtryggingu fjárskuldbindinga eru gjarnan kennd við Fljótamanninn Ólaf Jóhannesson og því nefnd Ólafslög.  Í morgun var borin upp sú tillaga af forystumönnum Framsóknarflokksins í byggðaráði Skagafjarðar að halda áfram að binda verðhækkanir á leigu á íbúðarhúsnæði sveitarfélagsins, sem einkum er leigt til skjólstæðinga félagsþjónustunnar, við neysluverðsvísitölu.  Tillagan  kom mér óþægilega á óvart en hún bendir eindregið til þess að  engin trú virðist vera hjá forystumönnum Framsóknarflokksins á að leggja af verðtrygginguna eða a.m.k. minnka vægi hennar.  Ef einhvers staðar væri tilefni til þess að draga úr vægi hennar þá væri það einmitt gagnvart skjólstæðingum félagsþjónustu sveitarfélaga í landinu.  Ég reyndi hvað ég gat til þess að telja framsóknarmennina ofan af því að rígbinda hækkanir á húsnæði við neysluverðsvísitölu sem hefur tekið nokkur há- eða réttara sagt heljarstökk á síðustu árum. Þegar það gekk ekki þá lagði ég fram eftirfarandi bókun:

Óneitanlega skýtur það skökku við að Framsóknarmenn í Skagafirði skulu leggja hér til áframhaldandi verðtryggingu, sem mun leiða af sér sjálfvirka hækkun á húsaleigu fyrir þá íbúa sem leigja félagslegar íbúðir sveitarfélagsins, á sama tíma og ríkisstjórn undir forystu Framsóknarflokksins vinnur að því að afnema verðtryggingu! Eðlilegra væri að draga úr vægi verðtryggingarinnar og aftengja sjálfvirkar hækkanir í gjaldskrám sveitarfélagsins.

Málið sýnir óneitanlega hvað verðtryggingin er inngróin í Framsóknarflokkinn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur