Í kjölfar hrunsins var það vel þekkt iðja útrásarvíkinga að hóta málsókn þeim fréttamönnum sem leyfðu sér að fjalla um fjárglæfra þeirra sem bitnuðu harkalega á þorra almennings. Tilgangurinn var að þagga niður alla opinbera umfjöllun um myrkraverkin sem ekki þoldu dagsljósið.
Nú berast fréttir af því að starfsmaður Háskóla Íslands Helgi Áss Grétarsson hafi komið fram á Bylgjunni og hótað hverjum þeim málsókn sem bendir á tengsl Lagastofnunar og Helga Áss við LÍÚ í gegnum tíðina. Með hótun um málsókn virðist eiga að koma í veg fyrir gagnrýna umræðu um fádæma lélega álitsgerð Lagstofnunar þar sem fullyrt var að Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hefði brotið lög þegar hann gaf rækjuveiðar frjálsar árið 2010.
Þegar rækjuveiðar voru gefnar frjálsar voru hagsmunir þjóðarinnar settir í öndvegi á kostnað afar þröngra sérhagsmuna. Þeir sem réðu yfir heimildum til rækjuveiða höfðu ekki nytjað stofninn um árabil en í stað þess fénýttu þeir rækjukvóta í tegundatilfærslu og brask.
Miklu nær væri að Háskóli Íslands stæði í þeim sporum að standa vörð um gagnrýna umræðu og almannahag og tekið væri tillit til þeirrar gagnrýni sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á kostnaði fræðistarfa í aðdraganda hrunsins. Í 8. bindi segir á bls. 213:
Fyrr á tímum herjuðu einkum pólitísk og trúarleg öfl á vísindamenn og reyndu að hafa áhrif á viðfangsefni fræðimanna og niðurstöður þeirra. Í nútímanum hafa tengsl efnahagslífs og háskólastarfs orðið meira áhyggjuefni, meðal annars vegna þess að mun erfiðara er að henda reiður á áhrifum á fræðimenn, ekki síst í andrúmslofti þar sem mikil viðskiptavild er ríkjandi.
Það fer yfirleitt ekki á milli mála þegar valdið kemur að ofan, en það getur auðveldlega farið framhjá manni þegar það smýgur inn í formi styrkja eða kostunar og einstaklingar laga hegðun sína ósjálfrátt að því án þess að þurfa nokkurn tíma að lúta valdboði.