Leiðtogi Framsóknarmanna og reyndar okkar allra flutti ákaflega einkennilega ræðu á ársþingi SA í dag. Rauði þráðurinn í ræðunni var að hægt væri að tala upp efnahagslífið með bjartsýni og auka þar með samkeppnishæfni og hag þjóðarinnar.
Það sem kom óneitanlega á óvart var að Sigmundur valdi að boða bjartsýnina og jákvæðni með því að úthella í ræðunni blóðugum skömmum yfir alla þá sem sjá ekki sól forsætisráðherra.
Hér eru nokkrar tilvitnanir frá boðbera bjartsýninnar:
Það er tímabært að segja skilið við hugarfar afturhalds, neikvæðni og niðurrifs. Flest bendir enda til að svartnættinu sé að slota og trú á eigin getu að eflast. Það er einna helst í innstu myrkviðum netsins og í ræðustól Alþingis að hagsmunaverðir svartnættisins halda vöku sinni.
og
Enn er sterk sú umræða að við eigum varla rétt á að berjast fyrir okkar eigin hagsmunum. Það sé jafnvel fullreynt að við getum staðið á eigin fótum og því sé betra að ákvarðanir í mikilvægum hagsmunamálum okkar, svo sem peningamálum, séu teknar af öðrum en okkur sjálfum. Síðasta ríkisstjórn á stóran þátt í þessari orðræðu um dugleysi þjóðarinnar.
Til er fólk sem leit á hátt á efnahagslegar ófarir Íslands sem sinn stærsta sigur, sem réttlætingu á eigin skoðunum. Loksins var komin sönnun þess að Ísland og Íslendingar væru ekkert svo merkilegir og jafnvel hálf-glataðir aular.
Það er skrýtin efnahagsáætlun að ætla að berja þjóðinni bjartsýni í brjóst með því að ausa úr skálum reiði sinnar!