Framtíð fiskvinnslu á Húsavík, Þingeyri og Djúpavogi er í mikilli óvissu vegna áætlana Visis hf. um að leggja alla starfsemi niður á framangreindum stöðum. Bæjarráð Norðurþings hefur samþykkt að óska eftir viðræðum við Visi hf. um að festa kaup á starfsemi fyrirtækisins á Húsavík. Það kemur verulega á óvart í ljósi erfiðrar skuldastöðu Norðurþings að ekki skuli vera nefndar aðrar leiðir til lausnar en að setja á stofn nýja bæjarútgerð á Húsavík. Sveitarfélagið Norðurþing skuldar liðlega tvöfaldar árlegar tekjur sínar og eru skuldirnar því vel umfram lögbundið skuldaþak sveitarfélaga.
Miklu nærtækara væri að sveitarfélagið krefðist gagngerra breytinga á stjórn fiskveiða og að fiskur verði verðlagður á opnum fiskmarkaði. Með því síðarnefnda væri ekki verið að taka eitt né neitt frá neinum útgerðum heldur að tryggja þeim hæsta verð sem er í boði hverju sinni. Fiskvinnslur í sjávarbyggðunum væru þá ekki ofurseldar aflaheimildum einstaka útgerða heldur gætu þær sótt hráefni til vinnslu á jafnræðisgrunni á opnum fiskmarkaði. Sömuleiðis stendur það fórnarlömbum kerfisins nærri að krefjast gagngerra breytinga og gagnrýnar umræðu á algert árangursleysi kvótakerfisins. Þorskveiðin í ár er 100 þúsund tonnum minni en hún var árið 1924 og ef farið verður áfram í blindni eftir ráðgjöf reiknisfiskifræðinnar, þá stefnir í verulegan niðurskurð á næsta ári.
Annars er það tímanna tákn um óháða blaðamennsku á Íslandi að í stjórn Visis hf. skulu sitja tveir stjórnarmenn sem eru nátengdir útgáfu Morgunblaðsins – annar er reyndar útgefandi blaðsins og situr beinlínis á vegum útgáfufélags Morgunblaðsins í stjórninni og hinn á vegum eins af stærstu eigendum blaðsins. Skipan stjórnar útgerðarfélagsins Visis hf. ætti örugglega að vera íhugunarefni fyrir marga af lesendum blaðsins á Húsavík, Þingeyri og Djúpavogi og sérstaklega þá sem útgerðarfélagið hyggst flytja hálfgerðum nauðungarflutningum til Grindavíkur.