Í vor lá það fyrir að Hafró mældi í hinu árlega togararalli að þorskstofninn færi minnkandi annað árið í röð. Það lá því ljóst fyrir að ekkert útlit væri fyrir að veiðiheimildir yrðu auknar. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að hífa ráðgjöfina upp með því að taka inn í útreikninga gamlar rannsóknir frá því í fyrra, þá er ráðlögð þorskveiði Hafró fyrir komandi ár nánast sú sama og í ár. Sú spurning hlýtur að vakna hvort Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar Alþingis hafi vísvitandi verið að blekkja þingheim þegar hann fullyrti að raunlækkun á veiðigjaldi væri mun minna en prósentulækkun veiðigjaldsins gæfi til kynna. Jón Gunnarsson sagði að nýjar upplýsingar um horfur í veiði, sem ekki voru ljósar þegar frumvarpið var samið, gæfu til kynna að þorskveiði yrði aukin um 30 þúsund tonn.
Stóra frétt dagsins er ekki spurningin um hvort þingið hafi verið platað til að lækka veiðigjaldið á fölskum forsendum heldur sú að Hafró viðurkennir að nánast engar líkur eru til þess að það verði aukning á þorksafla á þessum áratug þ.e. ef ráðgjöfinni verður fylgt í blindni. Í glænýrri ráðgjöf Hafró segir:
Framreikningar benda til þess að ef aflareglu er fylgt muni stofninn haldast nokkuð svipaður og hann er í dag (mynd 2.1.9). Óvissan er hins vegar töluverð og því einhverjar líkur á að stofninn og aflinn minnki frá því sem nú er.
Í skýrslu Hafró kemur fram að stærri hrygningarstofn hefur ekki enn skilað meiri nýliðun – Einhverra hluta vegna virðist það alltaf koma reiknisfiskifræðingum jafnmikið á óvart að nýliðunin bregðist. Aldrei er það viðurkennt að þessi aðferð að veiða minna til að geta veitt meira seinna hefur aldrei gengið upp enda getur hún ekki gengið upp þar sem að hún gengur í raun í berhögg við viðtekna vistfræði.
Nú er kominn fram nýr sökudólgur í nátturunni, þ.e. makríllinn, sem kemur i veg fyrir að reiknilíkön Hafró gangi upp. Það ætti að vera umhugsunarefni að á umliðnum árum hefur verið veitt gríðarlega umfram alla reiknisfiskifræðilega ráðgjöf af sökudólgnum og hann ætti þess vegna að vera hruninn . Það rekst því hvað á annars horn í svokallaðri vísindalegri ráðgjöf og tímabært að fara málefnalega yfir gagnrýni á hana.