Staða Hönnu Birnu í stóli dómsmálaráðherra er ótrygg vegna leka á upplýsingum um persónu hælisleitanda. Nær útilokað er að ætla annað en að málið upplýsist og hið sanna komi í ljós enda eru embættisfærslur ráðherra undir smásjá umboðsmanns Alþingis, lögreglunnar og ríkissaksóknara. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlýtur að hafa sett málið í forgang sem æðsti yfirmaður stjórnsýslunnar enda óþolandi að málið rýri trúverðugleika stjórnvalda.
Minna hefur farið fyrir rannsókn á stóra lekanum á þorski út úr reiknilíkönum Hafró. Engin rannsókn fer fram þó að þorskaflinn nú sé 100 þúsund tonnum minni en árið 1924 og helmingi minni en fyrir daga kvótakerfisins. Nánast eina umræðan um stóra lekann sem fram fer í fjölmiðlum fer fram á Útvarpi Sögu. Fyrir nokkru kom forstjóri Hafró í viðtal hjá Ólafi Arnarsyni, dagskrárgerðarmanni á Útvarpi Sögu, og varði þá stefnu að veiða minna til að geta veitt meira seinna — þrátt fyrir að stefnan hafi aldrei gengið upp. Staðan er sú nú að stofnvísitala þorsks er að lækka annað árið í röð þrátt fyrir að stefnunni hafi verið fylgt út í ystu æsar síðustu árin. Forstjóri Hafró var þess fullviss að rétt væri að fylgja óbreyttri stefnu og voru rökin þau að þorskurinn væri ótrúleg skepna sem þyldi sult betur en aðrar lífverur og þyngdist síðan óhemju mikið loksins þegar fæða væri á boðstólnum. Glefsur úr viðtalinu og viðtalið sjálft má finna hér. Ekki hef ég hugmynd um hvað er verið að fara í viðtalinu en mögulega ætlar forstjórinn að allt önnur efnahvörf fari fram í þorskinum en öðrum skepnum jarðarinnar. Ef svo ólíklega væri væru allar líkur á að veiðiráðgjöf Hafró hefði gengið upp en væri ekki samfelld sorgarsaga. Ástæðan er auðvitað sú að efnaskipti þorsksins eru ekki eitthvert einstakt viðundur í náttúrunni heldur gædd sömu lögmálum og annarra dýra.
Vonandi verða fjölmiðlar og rannsakendur reiðubúnir að snúa sér að stóra lekamálinu þegar menn komast til botns í lekandanum í dómsmálaráðuneytinu.