Þriðjudagur 15.07.2014 - 00:01 - FB ummæli ()

Bara ef það hentar Elliða

Bæjarstjórinn í Eyjum tekst reglulega á loft í fjölmiðlum og tjáir sig þá gjarnan um sjávarútvegsmál. Elliði var um árabil einn harðasti talsmaður algerlega frjáls framsals á veiðiheimildum sem rústað hefur búsetu í heilu landshlutunum. Hann sneri síðan við blaðinu þegar hann heimtaði að stjórnvöld tryggðu sérstaklega  öryggi og rétt sjávarbyggða þegar hin meintu hagræðingarspjót frjálsrar sölu veiðiheimilda stóðu á Vestmannaeyjum.

Nú virðist sem bæjarstjórinn hafi enn og aftur snúið við blaðinu og mælir hart gegn því að stjórnvöld taki mið af öðrum sjónarmiðum við skiptingu á veiðiheimildum á makríl en þeim sem stjórnast af þröngum hagsmunum örfárra stórútgerða. Veifað er furðulegu áliti umboðsmanns Alþingis um að stjórnvöld eigi einungis að taka mið af veiðireynslu við úthlutun á  makrílkvóta. Í viðtölum hefur bæjarstjórinn lýst angistarfullur yfir reiði vegna misréttisins sem Vestmannaeyjar og jafnvel sveitarfélögin í landinu urðu fyrir, við að ekki væri eingöngu horft til veiðireynslu við úthlutun á makrílkvóta.  Bæjarstjórinn hljóp yfir þá staðreynd að umræddar veiðar sem mynduðu reynsluna voru í meira lagi umdeildar. Stórútgerðir kepptust nefnilega við að veiða sem mest og skeyttu í engu um hvort verið væri að vinna sem mest verðmæti úr aflanum, þar sem aflanum var landað í miklum mæli í bræðslu.  Allt miðaði að því að komast yfir sem mestan afla sem myndað gæti grunn að kvótaúthlutun.

Einhverra hluta vegna hentar það hagsmunum Elliða að draga taum einstaka stórútgerða en til lengri tíma litið þjónar það hvorki byggðinni né hagsmunum sjómanna í Eyjum.  Hagsmunir sjávarbyggðanna og sjómanna snúast fyrst og fremst um að það ríki jafnræði við skynsamlegri nýtingu á fiskimiðunum og að frjálst markaðsverð fáist fyrir aflann.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur