Laugardagur 21.02.2015 - 18:15 - FB ummæli ()

Er búið að ÍNN-væða RÚV?

Eitt af hlutverkum RÚV er að gæta  óhlutdrægni í frásögn og túlkun  og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem varða almenning.

Ríkisstjórnin hafði áform um að leggja fram nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða sem fól að sögn kunnugra minnst um hvernig stjórna ætti veiðum úr villtum dýrastofnum.  Frumvarpið fjallaði  nefnilega að nær öllu leyti um að gefa örfáum einokunarrétt til áratuga á að nýta fiskimiðin og sömuleiðis heimildir til veðsetningar og sölu á sameigninni. Frumvarpið snérist því augljóslega ekki um stjórn veiða heldur fyrst og fremst  um afhendingu á almannaeign til örfárra og síðan kvótabrask.

RÚV  hefur  alls ekki haft í heiðri framangreint lögbundið hlutverk sitt í umfjöllun um málið, heldur hefur verið vettvangur einhliða áróðurs þröngra hagsmunasamtaka. RÚV  hefur ítrekað opnað fyrir krana áróðurs og hæpinna fullyrðinga SFS (áður LÍÚ) um ágæti núverandi einokunarkerfis og nauðsyn þess  að festa það í sessi til eilífðar.  RÚV hefur ekki spurt einnar gagnrýninnar spurningar um ágæti kerfis sem skilar helmingi minni þorskafla en fyrir daga þess, – engrar spurningar um hvers vegna íslenskur fiskur hefur farið halloka á erlendum mörkuðum, – engrar spurningar um  tvöfalda verðlagningu á fiski og ekki heldur um samfélagsleg áhrif kerfisins.

Í Vikulokunum í  morgun hélt hrein og tær kranablaðamennska RÚV áfram. Fréttamaðurinn,  sem óvart er dóttir fyrrverandi ráðherra sem var einn helsti áhrifamaður þess að frjálsu framsali veiðiheimilda var komið á,  fékk framkvæmdastjóra SFS (LÍÚ)  til að dásama í rólegheitunum einokunarkerfi sem kemur algerlega í veg fyrir alla nýliðun. Málflutningur framkvæmdastjóra SFS (LÍÚ)  var mjög ósvífinn – Hvað á það að þýða hjá framkvæmdastjóranum að  gefa það í skyn að auðlindagjaldið sé helsta orsök þess að byggð vítt og breitt um landið  s.s. í Grímsey sé að leggjast af? Auðvitað er það sjálft kerfið sem veldur því og  við svona dellumálflutning á blaðamaður sem vill standa undir nafni að gera athugasemd.

Ég hef það á tilfinningunni að ástandið á RÚV hafi versnað frá því að Magnús Geir Þórðarson tók við sem útvarpsstjóri. Umræðuþættir hafa annað hvort verið teknir af dagskrá eða þá að  þeir eru orðnir líkari þeim sem er að finna á sjónvarpsstöðinni ÍNN, þar sem Já-hirð Sjálfstæðisflokksins hittist og mærir LÍÚ og Sjálfstæðisflokkinn, í tíma og ótíma. Ef að RÚV væri að standa sig, þá væri beinlínis verið að leita eftir vel rökstuddum andstæðum sjónarmiðum um stjórn fiskveiða, í stað þess að útvarpa eingöngu billegum áróðri fjársterkra einokunarfyrirtækja.

Það kæmi mér ekki á óvart ef að norska ríkisútvarpið verður á undan RÚV með umfjöllun um íslenska kvótakerfið með hlutlægum hætti.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur