Framámenn Framsóknarflokksins fara mikinn í að boða miklar skipulagsbreytingar í húsnæðismálum. Breytingarnar sem sagðar eru til langrar framtíðar eru lagðar fram algerlega óútfærðar og á allra síðustu stundu! Það er ekki einu sinni búið að meta kostnað við nýju frumvörpin sem komin eru fram. Sérkennilegt er að ráðherrann sem ber ábyrgð á málflokknum, Eygló Harðardóttir og töfunum sem hafa orðið á málinu, virðist ekki skynja alvarleika málsins, heldur hefur það í flimtingum. Hún sendi starfsfólki fjármálaráðuneytisins orkustangir til að flýta fyrir einhverjum útreikningum. Ekki er þetta stórmannlegt hjá ráðherranum að reyna varpa pólitískri ábyrgð sinni yfir á óbreytt starfsfólk í ráðuneytum.
Allt blaðrið um að koma á nýju kerfi er vægast sagt ótrúverðugt og virðist vera leið ríkisstjórnarinnar að komast hjá umræðu um kjarna málsins. Hann er að stjórnin hefur lítið sem ekkert gert í húsnæðismálum þeirra sem illa stóðu þegar stjórnin tók við völdum – Staða þeirra hefur versnað á kjörtímabilinu. Margvíslegar leiðir eru til þess að bæta hag stöðu þessa hóps innan núverandi kerfis ef einhver vilji er hjá Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum. Fyrst ber að telja að lækka raunvexti, afnema verðtryggingu, hækka framlög til húsaleigubóta og breyta tekjuviðmiðum þannig að húsaleigubætur nái til millitekjufólks.
Hvað varð um slagorðið: Engar nefndir – bara efndir? Breyttist það í bara bull og bið?