Margt bendir til þess að ríkisstjórnin stefni beinlínis að því að setja lög á kjaradeilur.
Í fyrsta lagi þá eiga sér engar alvöru viðræður sér stað á milli deiluaðila.
Í öðru lagi þá tekur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þátt í þeim ljóta leik að ýkja kröfur launafólks. Ég held að í þessu sambandi sé rétt að hugleiða að krafan um 300 þúsund króna lágmarkslaun þýðir að launamaður fái í sinn vasa árið 2018, samkvæmt mínum útreikningum um 215.200 krónur, þegar búið er að taka af skatta og gjöld í lífeyrissjóði. (laun 300 þús. plús orlof 330.510 – félagsgjöld og lífeyrissjóður 16.525 og skattur 68.000 og orlof 30.510 = útborgað 215 þúsund krónur). Það er þreytandi fyrir launafólk að það sé verið að flagga einhverjum heildarlaunum á borð við 300 þúsund krónur sem er langt frá því að vera sú upphæð sem fólk fær í vasann.
Í þriðja lagi þá er það harla ólíklegt að forsíðuviðtalið við Pétur Blöndal í Mogganum þar sem hann ræðst gegn verkfallsréttinum, sé einhver tilviljun. Formaður fjárlaganefndar Alþingis og fleiri áhrifamenn ríkisstjórnarflokkanna gera síðan góðan róm að tillögum Péturs og er það eflaust gert til þess að búa til réttu stemninguna fyrir lagasetningu.
Auðvitað er það stórmerkilegt að á meðan ráðamenn halda því blákalt fram að allt fari hér á hliðina við að lægstu útborguð laun verði árið 2018, rúmlega 215 þúsund krónur, sé verið á sama tíma að færa ríkasta fólkinu makrílkvóta sem meta má á tugi milljarða króna!