Miðvikudagur 29.04.2015 - 18:24 - FB ummæli ()

Vindahani í Eyjum

Frjálshyggjumaðurinn Elliði Vignisson var um árabil  harðasti talsmaður algerlega frjáls framsals á veiðiheimildum. Bæjarstjórinn í Eyjum gekk þá hart fram og sagði þá, sem efuðust um dásemd þess að svipta heilu landshlutana veiðiheimildum, vera kommúnista. Fyrir nokkrum árum gerðist það sem var fyrirséð, þ.e. bæjarstjórinn fékk að bragða á eigin meðali þegar aflaheimildir fóru að týnast frá Eyjum. Í kjölfarið snéri Elliði við blaðinu og áréttaði nauðsyn þess að tryggja öryggi og rétt sjávarbyggðanna til aflaheimilda!

Bloggskrif Elliða í dag þar sem hann vitnar í umdeilt álit Umboðsmanns Alþingis um að Jón Bjarnason hafi ekki staðið rétt að skiptingu makrílkvótans, bera það með sér að hann hafi enn og aftur skipt um skoðun. Í skrifunum rukkar hann sjávarútvegsráðherra um makrílfrumvarpið sem gerir kvótann söluvænan og opnar á þann möguleika að hann verði allur seldur frá Eyjum einn góðan veðurdag.  Ekki nóg með það, heldur er farið fram á að strandveiðiflotinn í byggðunum hringinn í kringum landið fái ekki heimild til þess að nýta auðlindina.

En hvað með álit Umboðsmanns  Alþingis? Það er ljóst að eftir að Jón Bjarnason var hrakinn úr sjávarútvegsráðuneytinu af Steingrími J. Sigfússyni hefur ekki verið neinn vilji hjá stjórnvöldum til þess að verja sjónarmið önnur en þau sem þjóna ýtrustu kröfum örfárra stórútgerða.  Það er einfaldlega svo að það er auðvelt að vinna mál þar sem enginn tekur til varna.

Það er löngu orðið tímabært að Elliði staldri við og hugleiði hvaða sýn hann hefur á stjórn fiskveiða.  Hann segist vera „hægrimaður“, en er samt sem áður á móti því að fiskur verði verðlagður á frjálsum markaði.  Í gegnum tilviljanakennda röksemdafærslu, þar sem ýmist er gripið til byggðasjónarmiða eða óhefts framsals veiðiheimilda landshorna á milli, virðist markmiðið ekki vera að ganga erinda sjómanna í Eyjum, heldur einungis að gæta hagsmuna eins eða tveggja útgerðarmanna í plássinu.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur