Þriðjudagur 05.05.2015 - 23:48 - FB ummæli ()

Auðjöfrar með sérþarfir

Eftir að hafa fylgst með fjölmörgum viðtölum við sjávarútvegsráðherra, þá hefur megin stef þeirra verið að það þurfi að tryggja auðmönnum í útgerð sérstakan stuðning og fyrirsjáanleika.

Sérstakir stuðningsfulltrúar auðmanna í ríkisstjórn silfurskeiðabandalagsins virðast vita að skjólstæðingar þeirra geta ekki rekið fyrirtæki í eðlilegum samkeppnisrekstri.  Þeir þurfa því „fyrirsjáanleika“ og vernd sem er algerlega óþekktur innan annarra atvinnugreina.  Flugfélög þurfa að fara í gríðarlegar fjárfestingar, þó er ekki eitt flugfélag í heiminum sem hefur 6 ára „fyrirsjáanleika“.  Þeir sem malbika vegi svo dæmi sé tekið þurfa að kaupa malbikunarvélar og ýmis tæki.  Ekkert slíkt fyrirtæki fær úthlutað verkefnum án útboðs til sex ára, sem framlengist síðan sjálfkrafa um önnur sex ár ef samningi er ekki sagt upp. Ríkisstjórnin vill engu að síður gefa auðmönnum í útgerð kost á að koma sér út úr vernduðu umhverfi  og aðlagast, með því að heimila þeim að selja eigur almennings, án sérstakrar skattlagningar.  Allt er það gert svo  þeir geti skapað sér skilyrði til að aðlagast eðlilegu lífi og tekið virkan þátt í samfélaginu.

Það er svo sem skiljanlegt að auðjöfrar í sjávarútvegi hræðist samkeppnina, hún hefur ekki reynst þeim vel.  Hvort sem það var pizzusala, bankarekstur eða bílainnflutningur, þá fór það á hausinn svo annað eins hefur varla sést á byggðu bóli.  Þar vantaði sex ára fyrirsjáanleika.  Kannski eru þetta ekki eins
góðir bisnessmenn og af er látið?  Amk virðast allar aðrar atvinnugreinar fjáfesta og reka sig án slíkrar einokunar. Sé þessi „fyrirsjáanleiki“ nauðsynlegur í Makrílveiðum þá hlýtur hann að vera nákvæmlega jafn nauðsynlegur í öðrum veiðum og öðru því sem þeir kunna að taka sér fyrir hendur.  Það kostar líka að sækja aðrar fisktegundir.  Varla kemur þessi lagasetning í veg fyrir duttlunga náttúrunnar?

Nei skilningsríkt stuðningsnet auðmannanna í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs mun örugglega  sjá að það þurfi tryggja þeim enn frekari vernd og færa þeim því allar  aðrar fisktegundir  á Íslandsmiðum til einkaafnota þannig að þorskur, ýsa, humar, rækja, síld og loðna verði í þeim til stuðnings en ekki þjóðinni.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur