Mánudagur 11.05.2015 - 16:50 - FB ummæli ()

Til hamingju sjálfstæðismenn

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kyrjar nú þann söng að horfa eigi til Norðurlandanna við úrlausn kjaradeilna  og undir það taka minni spámenn flokksins. Fyllilega er hægt að taka undir kúvendingu Sjálfstæðisflokksins og á þá málshátturinn „batnandi mönnum er best að lifa“ vel við.  Flokkurinn hlýtur  þá að meina að við tökum upp norrænu leiðina á fleiri sviðum sem snúa að kjörum vinnandi fólks þessa lands, eða hvað?

Það hljóta að liggja undir þættir sem snúa að vaxtakjörum almennings, afnámi verðtryggingar og afnámi fákeppni.  Er Sjálfstæðisflokkurinn loksins tilbúinn til að fara leið Norðmanna,  sem búa við álíka verðmætar náttúruauðlindir og við Íslendingar, og láta almenning njóta þeirra, í stað þess að útdeila auðlindum til nokkurra fjölskyldna?  Norðmenn útdeildu ekki megninu af olíunni á nokkrar fjölskyldur  líkt og Sjálfstæðisflokkurinn vill gera með makrílinn og aðra fiskistofna við Ísland.

Ólíkt því sem gerist á Íslandi þá eru á Norðurlöndunum gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta og skólakerfin vel fjármögnuð. Og jú launin – þau eru allt að tvöfalt  hærri þar líka!

Það er því ekki hægt annað en að samgleðjast sjálfstæðisfólki með algeran viðsnúning á hugsanahætti.  Það er afar ólíklegt að launþegar landsins séu ekki til í að semja um kaup og kjör ef þetta er leiðin sem Bjarni,  og fleiri góðir og gegnir sjálfstæðismenn, vilja fara.  Það munu án vafa margir vilja fara þessa leið með þeim.  Til hamingju með viðsnúninginn kæru sjálfstæðismenn.

Ekki er nokkur leið að trúa því að fjármálaráherra sé einungis að biðja fólk um að sætta sig við mjög léleg laun, eða hvað?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur