Fimmtudagur 21.05.2015 - 12:29 - FB ummæli ()

Vorfiðringur í Hannesi Hólmsteini

Það er gaman að sjá á skrifum Hannesar Hólmsteins í Mogganum í dag að það er kominn á ný gamalkunnur vorfiðringur í einn skemmtilegasta prófessor landsins. Í aðdraganda hrunsins boðaði hann glaður í bragði, að landsmenn, en þó aðallega Sjálfstæðismenn, ættu og væru að græða á daginn og grilla á kvöldin.

Í dag boðar prófessorinn að þjóðin verði að standa vörð um kvótakerfið, sem hann segir það hagkvæmasta í heimi, og jafnar uppgötvun þess við afrek Leifs heppna! Helstu rök prófessorsins eru að vitna stuttlega í spekingana Karl Marx og John Locke, en fyrst og fremst styðst hann þó við liðlega 60 ára gamalt, einfalt og barnalegt línurit. Reynslan af íslenska kvótakerfinu sýnir einfaldlega, svo að ekki verður um villst, að kerfið og forsendur þess ganga alls ekki upp.  Þorskaflinn er um helmingurinn af því sem hann var fyrir daga kerfisins, enda ljóst að vöxtur og viðgangur fiskistofna á risastóru hafsvæði fylgir alls ekki fyrirframgefnum forsendum, með ágiskuðum föstum stuðlum um vöxt og afföll. Óvissan, sem felst í því að aflaheimildir geta horfið frá byggðarlögum eins og hendi sé veifað, dregur síðan sjálfkrafa máttinn úr sjávarbyggðunum og má sjá glögg merki þess  á stöðum sem hafa eins og er yfir miklum veiðiheimildum að ráða, eins og t.d. Vestmannaeyjar

Í allri gleðinni yfir íslenska kvótakerfinu dregur Hannes upp skuggalega mynd af fiskveiðum í heiminum og segir þær á öðrum stöðum en á Íslandi vera reknar með stórkostlegu tapi! Hér ber grillkappið skynsemina ofurliði – það er miklu frekar hægt að sjá samhengi hlutanna í því að með auknu frelsi í sjávarútvegi, líkt og í Noregi, blómgast greinin, en hnignar með ofstjórn og höftum líkt og hér á landi og í Evrópusambandinu.

Eitthvað las Hannes Hólmsteinn í hungrinu eftir grillsumrinu vitlaust í allan gróðann rétt fyrir hrun, en hann reyndist, eins og við flest vitum, fyrst og fremst byggjast á skuldasöfnun og óráðsíu.  Sama virðist vera uppi á teningnum með einlæga hrifningu hans á kvótakerfinu.

Það færi svo sannarlega betur á því að einlægir frjálshyggjumenn beittu sér fyrir að hætt verði að gefa út ríkisverð á fiski og hráefnið verði þess stað verðlagt á frjálsum markaði. Frjálshyggjumenn ættu sömuleiðis að vinda ofan af flóknu regluverki í sjávarútvegi og vera í fylkingarbrjósti baráttu fyrir frjálsum handfæraveiðum smábáta, en ekki nokkur lifandi leið er að ofveiða fiskistofna með krókum.

Það fer ekki frjálshyggjumanninum Hannesi Hólmsteini að berjast fyrir atvinnuhöftum – miklu nær væri að sjá hann í baráttu fyrir því að sjómenn,  hringinn í kringum landið, væru frjálsari við að róa á daginn og grilla á kvöldin.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur