Fimmtudagur 18.06.2015 - 20:57 - FB ummæli ()

Skemmdarverk í skjóli Alþingis

Fyrir ári síðan voru samþykkt lög á Alþingi um að kvótasetja úthafsrækju. Jón Bjarnason fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hafði á árinu 2010 gefið veiðarnar frjálsar í kjölfar þess að handhafar kvótans voru nánast hættir að stunda veiðar, þar sem meira var upp úr því að hafa að braska með veiðiheimildirnar en að veiða. Eftir að veiðarnar voru gefnar frjálsar hófust rækjuveiðar og -vinnsla af fullum krafti á ný og sömuleiðis raunveruleg verðmætasköpun.  Þetta fór mjög fyrir brjóstið á sterkustu klíkunni í landinu þ.e. LÍÚ.  Beitti hún  sína þingmenn í fjórflokknum og Bjartri framtíð þrýstingi til þess að setja rækjuna á ný í kvóta. Yfirvarp kvótasetningarinnar var að hún myndi auka þjóðahagslega hagkvæmni greinarinnar og bæta afkomu veiðanna. Undir þau sjónarmið tóku gervivísindamennirnir Daði Már Kristófersson og Helgi Áss Grétarson, í Háskóla Íslands. Frumvarpið rann í gegnum Alþingi, þrátt fyrir vel rökstudd andmæli stærstu rækjuverksmiðju landsins, Dögunar á Sauðárkróki. Bentu forsvarsmenn fyrirtækisins  ítrekað á að kvótasetningin væri í raun skemmdarverk gagnvart rækjuiðnaðinum, þar sem hún leiddi til afturhvarfs til  pappírskvóta sem yrði skiptimynt í braski sem tengdist alls ekki raunverulegri verðmætasköpun í landinu.

Í umsögn Dögunar til Alþingis 2. desember 2013 segir: Ef úthafsrækja verður kvótasett á ný, mun örugglega leita aftur í fyrra horf vannýttar auðlindar, sérstaklega ef úthlutað verður til gömlu kvótahafanna að verulegu leyti. Hluti kvótans mun læsast inni í kerfinu. 

 

Nú í lok fyrsta fiskveiðiárs eftir að rækjan var kvótasett á ný, er rétt að fara yfir  áhrif kvótasetningarinnar .  Staðan nú er sú samkvæmt vef fiskistofu að það er einungis búið að veiða innan við helminginn af útgefnum rækjukvóta, þrátt fyrir góð aflabrögð!  Niðurstaðan ætti því að vera augljós hverju mannsbarni; gervivísindamennirnir í Háskóla Íslands höfðu rangt fyrir sér en forsvarsmenn rækjuverksmiðjunnar Dögunar og þeir sem gagnrýndu kvótasetninguna höfðu rétt fyrir sér.   Það er umhugsunarvert að það var einungis þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson sem greiddi ekki atkvæði með kvótasetningu á rækjunni sem hefur reynst eins og spáð var fyrir um dýrkeypt skemmdarverk. Aðrir virðast hafa kokgleypt gervivísindin og þungan áróður fámennra sérhagsmunasamtaka.

Kvótasetning sjávarútvegsráðherra í dag á makrílnum snýst heldur ekki nokkurn skapaðan hlut um fiskvernd eða aukna hagkvæmni eins og látið er í veðri vaka heldur er um að ræða afhendingu á auðlind til ákveðinna aðila með ómálefnalegum hætti. Kvótasetningin á makrílnum mun örugglega hafa svipuð áhrif og í rækjunni þ.e. torvelda nýtingu og minnka verðmætasköpun.

Nú er að sjá hvort að Alþingismenn geti dregið lærdóm af nýfenginni og biturri reynslu af kvótasetningu rækjunnar?

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur