Föstudagur 26.06.2015 - 01:17 - FB ummæli ()

Verður Jón Þór Ólafsson næsti forseti?

Mikil óvissa ríkir enn um hverjir munu bjóða sig fram til forseta Íslands. Fjölda manna hefur borið á góma sem líklega frambjóðendur, en enginn hefur staðfest enn sem komið er áhuga á framboði, fyrir utan baráttumanninn Sturlu Jónsson.

Mikil pólitísk gerjun  á sér stað meðal almennings, sem birtist meðal annars í því að Píratar mælast síendurtekið í skoðanakönnunum, sem stærsti flokkur landsins.  Kjósendur vilja breytingar og sjá augljóslega á framgöngu silfurdrengjanna í hverju málinu á fætur öðru s.s. í makrílmálinu, Matorku og ráðstöfuninni á kreditkortafyrirtækinu Borgun, að ríkisstjórnin er fyrst og fremst að þjóna eigin hagsmunum og sterkustu klíku landsins. Hagur almennings er algert aukaatriði hjá stjórninni og það er einfaldlega of stutt liði frá; Icesave og  Árna-Páls-lögunum, til að fólk sé tilbúið að veðja á aðra anga fjórflokksins.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur breytt eðli forsetaembættisins og virkjað með áhrifamiklum hætti völd þess, þjóðinni til heilla. Það er kristaltært að með pírata í embætti forseta Íslands, þá myndu umdeild mál á borð við: söluna á Landsvirkjun eða gjöf á fiskistofnum í efnahagslögsögunni til örfárra, rata nær sjálfkrafa í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þingmaðurinn Jón Þór Ólafsson hefur gefið það út að hann ætli að hætta á þinginu næsta haust og liggur það því beint við að hann skoði þann möguleika að nýta þann mikla meðbyr sem píratar hafa til að vinna að hugsjónum sínum á öðrum vettvangi.

Ég gæti trúað því að það sé almennur vilji sé fyrir breytingum á forsetaembættinu í samræmi við tíðarandann, án þess að farið sé í trúðskælingar eða fíflagang.  Umræða á borð við þá sem forsætisráðherra endurtekur í sífellu um að allt sé hér á landi  það allra besta í heimi, þrátt fyrir að hann dvelji sjálfur langdvölum erlendis, er orðið vægast sagt þreytt.  Það gæti því orðið greið leið að Bessastöðum fyrir jarðbundinn einstakling sem minnkaði málskrúðið og beindi máli sínu að brýnum úrlausnarefnum sem brenna á almenningi s.s. húsnæðis- og velferðarmálum

Það myndu fylgja Jóni Þór ferskleiki á Bessastaði og víst væri að þjóðin fengi þá sjálf að leiða umdeild mál til lykta. Ég skora því á Jón Þór Ólafsson að íhuga framboð til forseta Íslands.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur