Miðvikudagur 05.08.2015 - 23:45 - FB ummæli ()

Framsóknarflokkurinn setur olnbogann í Rússland!

Það er stórfurðulegt  að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra skuli vera forsprakkinn í því að stórskaða hagsmuni Íslands með því að setja viðskiptabann á Rússa. Óskiljanlegt er hvers vegna ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, sem segist vera vera á móti aðild að Evrópusambandinu, skuli vera taglhnýtingur sambandsins.  Nú lítur út fyrir að Rússnesk stjórnvöld munu loksins svara þeim íslensku í sömu mynt, en Rússar hafa lengi setið á sér. Sjávarútvegsráðherra segist vera alveg pollrólegur yfir málinu og telur að best sé að gera sem allra minnst og halda ró sinni!  Mér þykja það afar sérkennileg viðbrögð við því að þjóðarbúið sé að verða af tekjum af sölu fiskafurða sem svarar til tugmilljarða gjaldeyristekjum og það algerlega að nauðsynjalausu.

Liðlega 300 þúsund manna þjóð sem býr í eyju í norðurhöfum, ætti að sneiða hjá því eins og nokkur kostur er, að taka þátt í valdabrölti stórveldanna.  Hlutverk utanríkisþjónustunnar ætti fyrst og fremst að vera að halda uppi kurteisum og jákvæðum samskiptum við sem flestar þjóðir.  Mér vitanlega eru Íslendingar ekki með viðskiptabann á aðrar þjóðir en Rússa – Ekki einu sinni mannréttindaþrjótana í Sádí Arabíu sem kynda undir ófriði í nágrannaríkjum.

Ég var nýlega staddur í matarboði hér á Sauðárkróki, þar sem  húsráðendur og gestir sem voru eldra sveitafólk af Suðurlandi ræddu landsins gagn og nauðsynjar.  Öllum bar saman um að miður væri hvernig komið  í væri í samskiptunum við Rússland. Sveitafólkinu var enn í fersku minni góð viðskipti Íslands við Sovétríkin, á meðan Breta reyndu að einangra landið.  Í framhaldinu barst talið að yfirbyggðum rússajeppum sem þóttu einfaldir en nýttust vel og lengi í sveitinni.

Það væri betur ef ráðherrar Framsóknarflokksins  kynnu jafnvel að meta  þá hjáparhönd sem  kom að austan frá Rússlandi og gamla sveitafólkið sem hingað til hefur stutt flokkinn í gegnum þykkt og þunnt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur