Fimmtudagur 19.11.2015 - 23:20 - FB ummæli ()

Þegar mínus verður plús

Nú fer fram Sjávarútvegsráðstefnan, en það væri meira lýsandi að kalla samkomuna – málþing til heiðurs kvótakerfinu. Kirfilega er tryggt að engum gagnrýnisröddum sé hleypt að á samkomunni heldur einungis sungið halelúja, dýrð sé blessuðum kvótanum.  Helsti vitnisburðurinn um kraftaverk kerfisins, var línurit um gífurlega aukningu á útflutningsverðmætum fiskafurða frá hruni í krónum talið. Hvaða jólasveinn sem er, sem vinnur við fréttir á að sjá það í hendi sér að línuritið segir miklu meira um fall íslensku krónunnar frá hruni, en raunverulega verðmætaaukningu. Engu að síður þá birtist það athugasemdalaust á RÚV! Sama á við um ýkjur um ríkisstyrki erlendis til útgerða. Það sem talið er gjarnan til ríkisstyrkja erlendis er m.a. rekstur; rannsóknastofnanna á borð við Hafró, Fiskistofu og landhelgisgæslu.

Á ráðstefnunni verður örugglega ekki minnst á að fiskur er alla jafna ekki verðlagður á frjálsum markaði heldur af opinberri verðlagsnefnd.  Fyrirkomulagið á sér helst fyrirmynd í Ráðstjórnarríkjunum sálugu, enda kemur það í veg fyrir heiðarlega samkeppni.  Varla verður heldur minnst á þá staðreynd að þorskaflinn hefur minnkað en ekki aukist frá því að kerfið var tekið upp. Hann er nú helmingurinn af því sem var lofað að hann yrði fljótlega eftir að kerfið væri sett á.

Það fór vel á því að forsætisráðherra Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson opnaði ráðstefnuna. Hann notaði tækifærið eins og stundum áður að kvarta undan umræðunni í samfélaginu.

Hann vill greinilega ekki heyra gagnrýna umræðu kvótakerfið og undi því hag sínum vel á málþinginu til dýrðar kvótakerfinu, sem segir að mínus sé plús. Það er skiljanlegt þar sem Framsóknarflokkurinn á von á vænum styrk eins og áður frá  í kosningasjóð flokksins, frá stóru einokunarfyrirtækjunum í sjávarútvegi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur