Í tilefni 50 ára afmælis Hafró fór forstjóri stofnunarinnar mikinn í sjálfshóli. Í sjálfu sér er gott að vera ánægður með sig og sína, sérstaklega þegar einhver innstæða er fyrir því. Það er því vert að fara yfir árangurinn þ.e. veiðina á Íslandsmiðum nú og síðan fyrir hálfri öld:
Árið 1965 var þorskveiðin á 394 þúsund tonn, en nú árið 2015, er þorskveiðin 222 þúsund tonn.
Árið 1965 var ýsuveiðin 99 þúsund tonn, en nú árið 2015, er ýsuveiðin 38 þúsund tonn.
Árið 1965 var ufsaveiðin 60 þúsund tonn, en nú árið 2015, er ufsaveiðin 52 þúsund tonn.
Árið 1965 var lúðuveiðin 4 þúsund tonn, en nú árið 2015 er lúðuveiðn örfá tonn!
Hvernig sem litið er á ofangreindar tölur þá á hvaða mannsbarn að sjá að hér er alls ekki um neinn árangur að ræða heldur beinlínis tjón. Annað sem er áhugavert við töflur um afla á Íslandsmiðum, er að hann fór hratt minnkandi eftir því sem farið var meira að fylgja veiðiráðgjöf Hafró, sem fól í sér að veiða minna til að fá meira seinna. Einhverjir kunna að telja að það hafi verið stunduð mikil ofveiði á þorski árið 1965, en það er útlokað þar sem þorskstofninn stækkaði og veiðin jókst og minnkaði ekki verulega fyrr en Hafró fór að stjórna. Fullyrðing stofnunarinnar var í upphafi, að ef að hún fengi að ráða ferðinni, þá fengist varanlegur jafnstöðuafli upp á 500 þúsund tonn af þorski – það hefur heldur betur ekki gengið eftir.
Digurbarkalegar yfirlýsingar forstjóra Hafró eru kjánalegar í ljósi ofangreindra staðreynda.