Föstudagur 11.12.2015 - 00:39 - FB ummæli ()

Húsnæðismálaráðherra auðlegðarfólksins

Lengi vel vakti félags- og húsnæðismálaráðherra ríkisstjórnarinnar mikla aðdáun fyrir falleg loforð um hvernig hún ætlaði að koma á félagslegu húsnæðiskerfi og styðja við leigjendur og þá sem stæðu höllum fæti á húsnæðismarkaðnum. Þegar líða fór á kjörtímabil ríkisstjórnarinnar, þá fóru ýmsir að átta sig á því að ráðherrann hefði ekkert gert og væri ekkert að gera!  Harðasta gagnrýnin á verkleysið kom innan úr Framsóknarflokknum sjálfum og var Eygló sögð vera ömurlegur ráðherra af trúnaðarmanni flokksins, enda setja ýmsir hjartahreinir samvinnumenn spurningamerki við framgöngu ráðherrans.

Þó svo að ráðherrann hafi nánast ekki framkvæmt neitt það sem hún másar mest um þá hefur hún stutt rækilega við auðlegðarfólkið okkar á kjörtímabilinu. Hún lagði sitt af mörkum til þess að leggja af auðlegðarskattinn, sem hafði verið sérstakur þyrnir í augum Guðrúnar Lárusdóttur útgerðarkonu í Hafnafirði. Svo mjög taldi Guðrún á sér brotið að hún fór í mál við ríkið á þeim forsendum að skatturinn bryti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Húsnæðisráðherra ákvað að nota ekki þær eignir sem Íbúðarlánasjóður hafði eignast í hruninu til að byggja upp félagsleg íbúðafélög sem leigðu almenningi á sanngjörnu verði.  Nei þegar til kastanna kom þá voru auðmenn settir í sérstakan forgang til þess að komast yfir eignirnar á sérstöku heildsöluverði!

Það er síðan eftir öðru að fremst í röð auðmannanna er útgerðarkonan í Hafnafirði sem hafði auðgast hve mest á því að selja sameign íslensku þjóðarinnar og setja í eigin vasa!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur