Afar jákvætt var að hlýða á málflutning landlæknis í viðtali á RÚV í dag. Allt bendir til þess að hann hafi farið rækilega með gagnrýnum hætti í gegnum íslenska heilbrigðiskerfið, á því rúma ári sem hann hefur verið í starfi.
Það kvað við nýjan gagnsemistón, en umræðan hefur lengi verið þjökuð af upphrópunum um einkavæðingu og hálfgerðu sameiningarblæti. Allt átti að lagast og batna við það eitt að sameina sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um landið. Sjaldnast eða jafnvel aldrei var farið eftir leiðbeiningum frá Ríkisendurskoðun um hvernig ætti að ná fram árangursríkri sameiningu. Tregðan við að fara eftir leiðsögn Ríkisendurskoðunar hefur verið mér illskiljanleg, þar sem skilaboðin voru bæði einföld og rökrétt. Þau fólu m.a. í sér að undirbúningur væri góður, sett væru mælanleg markmið og skýr framtíðarsýn. Vegna ónógs undirbúnings, þá varð niðurstaðan jafnan minni afköst og meiri útgjöld, hvort sem það var við sameining sjúkrahúsa í Reykjavík eða heilbrigðisstofnanna á Austurlandi.
Niðurgreidd einkarekin heilbrigðisþjónusta fyrir alla, hefur verið ofureinfalt lausnarorð við öllum vandamálum heilbrigðiskerfisins hjá sumum. Í sjálfu sér hentar slíkt fyrirkomulag þeim sem veita og þiggja þjónustuna en öllu verra getur það orðið fyrir þann sem niðurgreiðir hana þ.e ríkissjóð.
Landlæknir virðist nálgast heilbrigðiskerfið af verkhyggni – vegur og metur hvar skynsamlegt sé að beita ríkisrekstri og hvar megi notast við einkarekstur. Hann tekur undir þau sjónarmið sveitarstjórnarmanna vítt og breitt um landið að meiri skynsemi sé í því að nokkrir sérfræðingar leggi land undir fót í stað þess að stefna miklum fjölda af sjúku fólki héðan og þaðan af landinu öllu til Reykjavíkur.
Það er mikilvægt að svara því áður en varið er meira fé í heilbrigðiskerfið, hvort að ekki sé hægt að fá meira fyrir þann pening sem nú fer i kerfið.