Miðvikudagur 20.01.2016 - 23:42 - FB ummæli ()

Segir þinginu til!

Bankastjóri Landsbankans er nokkuð góður með sig þessa dagana enda nýbúinn að fá ríflega launhækkun vegna mikillar ábyrgðar.  Ekki er á allra vitorði hvað hann leggur hart að sér í vinnunni, en upp komst þó  að hann hafi þurft að selja kortafyrirtækið Borgun að næturþeli. sem var í eigu almennings.

Í næturvinnunni þá sparaði bankastjórinn ríkinu allan óþarfa auglýsingakostnað á fyrirtækinu og sömuleiðis bjargaði hann því að það væru ekki einhverjir að bjóða í fyrirtækið sem hefðu ekkert með það að gera.  Hann fann sjálfur ábyrga og rétt tengda fjárfesta sem höfðu að vísu verið „óheppnir“ í aðdraganda hrunsins til þess að yfirtaka fyrirtækið.

Mér finnst að bankastjóri Landsbankans ætti að gæta sín á því að færast samt ekki of mikið í fang, þó svo vinnugleðin sé mikil.  Það er heldur of langt seilst þegar hann er kominn í þau verk að segja alþingismönnum til eins og hann gerði í kvöldfréttum RÚV, hvað þeir eigi að gera og hvað þeir eigi ekki að gera, eins og þegar hann bannaði Árna Páli Árnasyni að óska eftir rannsókn á myrkrasölu bankastjórans.

Mögulega er krafa bankastjórans um bann á rannsókn sett fram af samfélagslegri ábyrgð, þ.e. ef það kemst upp á yfirborðið hve hart hann hefur lagt að sér, þá gæti það endað með því að hann þyrfti að þiggja enn hærri laun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur