Í kvöld birtist nýja ríkisstjórn Sigurðar Inga varaformanns og var boðskapur foystumanna hennar einfaldur; þ.e. að ætla að gera nákvæmlega það sama og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs formanns gerði. Líklega eiga ýmsir eftir að klóra sér í hausnum yfir skipan stjórnarinnar. Ekki yfir að nýtt andlit skuli birtast í starfskynningu í einhverju ráðuneytinu í stuttan tíma, heldur miklu frekar að enn skulu tveir ráðherrar vera í stjórninni sem hafa orðið uppvísir af því að fela fé í skattaskjólum og segja ósatt um málavöxtu.
Það fór ágætlega á því að Bjarni Benediktsson hefði orð fyrir nýrri ríkisstjórn Sigurðar Inga. Flutti Bjarni ábúðamikla tölu þar sem hann hældi sjálfum sér og öðrum í ríkisstjórninni fyrir eigin afrek. Endurtekin sjálfsupphafning sem Sigurður Ingi endurómaði, varð til þess fréttamannafundurinn minnti orðið á síendurtekin hvítþvott Ásmundar Einars á Sigmundi Davíð í umtöluðum útvarpsþætti á Rúv.
Ég gat ekki annað en brosað út í annað á orðavali Bjarna þegar hann lýsti atburðarás síðustu daga og vikna sem urðu til þess að Sigmundur Davíð hrökklaðist tilneyddur úr stjórnarráðinu. Framsetning Bjarna var á þá leið að Sigmundur Davíð hefði af riddaramennsku og göfuglyndi stigið stórt skref til hliðar, til þess að bregðast við ástandinu í þjóðfélaginu!
Ég óska nýrri stjórn velfarnaðar, en ég er sannast sagna efins um að hún njóti nægjanlegs traust í samfélaginu til þess að skapa frið – Til þess hefðu fleiri þurft að segja af sér. Það blasir við að myndun hennar snýst fyrst og fremst um að stjórnarflokkarnir fái lengri frest, til þess að freista þess að koma sér úr vondri stöðu. Flest bendir til þess hins vegar að framlenging á kjánaganginum, með skattaskjólsráðherra í lykilembættum, verði þjóðinni dýrkeypt.