Þriðjudagur 19.07.2016 - 17:28 - FB ummæli ()

Fjármálráðherra segir öruggt að þjóðin sigli inn í fjármálakreppu!

Í þættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun var langt viðtal við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra.  Viðtalið vakti athygli mína einkum fyrir tvennt;

Í fyrsta lagi þá vill Bjarni Benediktsson halda áfram að gramsa í eigum almennings, í gegnum nýstofnað einkahlutfélag í eigu ríkisins! Það verða þá trúnaðarmenn hans sem munu úthluta eignum ríkisins.  Þjóðin má því eiga von á nýjum Borgunar- og Matorkumálum. Tap þjóðarinnar og gróði aðila nátengdum fjármálaráðherra á Borgunarmálinu nemur  hærri upphæð, en gríðarlegum kostnaðarsömum framkvæmdum við Landeyjahöfn.  Það eru engin rök fyrir því að fara með sölu eigna ríkis í gegnum einkahlutafélag, enda er eina hlutverk slíkra félaga að takmarka ábyrgð eigenda og mynda skattahagræði fyrir eigendurna – Hvers vegna ættir ríkið að gera það?  Ég efast stórlega um að það séu til dæmi annars staðar frá í heiminum um að ríki hafi stofnað til einkahlutfélaga til að sjá um einkavæðingu – Ekki einu sinni í Panama.

Í öðru lagi þá lagði á fjármálaráðherra mikla áherslu á að selja bankana án þess að tryggja aukna samkeppni eða bætt vaxtakjör til almennings og fyrirtækja.  Hann hafði engan sérstakan áhuga á að koma á einhverri skipulagsbreytingu á fjármálamarkaði, en áður hefur hann lýst yfir algerri andstöðu við samfélagsbanka.   Mér fannst hann tala með léttvægum hætti um það rán sem fram fór á mettíma í íslensku bönkunum, í aðdraganda hrunsins. Ránið olli nokkrum af stærstu gjaldþrotum í viðskiptasögu heimsins!  Eflaust hefur fjármálaráðherra  sloppið vel sjálfur í hruninu, þrátt fyrir að hafa stýrt fyrirtækjum í tugmilljarða gjaldþrot. Í viðtalinu lýsti hann því að minnsta kosti berum orðum, að öruggt væri að þjóðin muni sigla inn í nýja fjármálakreppu og virtist vera sem að ekki væri um neitt tiltökumál að ræða.

Gamlir kjósendur Sjálfstæðisflokksins ættu að hlusta á viðtalið en í því þá staðfestir Bjarni að hann er fyrst og fremst að gæta hagsmuna 1% þjóðarinnar og á kostnað 99% Íslendinga.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur