Á sinn hefðbundna hátt fjallaði RÚV á 5 mínútum um eyðileggingu enn einnar sjávarbyggðarinnar af völdum kvótakerfisins. Í dag var það Þorlákshöfn sem fékk sínar 5 mínútur. Á skjánum birtist sveitarstjórinn sem sagði söluna á atvinnuréttinum úr byggðinni vera reiðarslag sem verulega kæmi á óvart. Eflaust eiga fleiri eftir að kyrja þennan sorgaróð; á borð við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og þingmenn kjördæmisins.
Auðvitað koma þessar fréttir engum á óvart. Fjöldi byggðarlaga hringinn í kringum landið hafa orðið kerfinu að bráð. Sveitarfélög á borð við Djúpavog, Flateyri, Bíldudal, Húsavík, Seyðisfjörð o.s.frv. hafa farið illa út úr kerfinu – þó misilla. Það má örugglega bóka það að fleiri byggðarlög muni fara nákvæmlega sömu leið og Þorlákshöfn fór í dag s.s Ólafsvík, Siglufjörður, Eskifjörður og Vestmanneyjar.
Farmanna- og fiskimannasambandið, með Guðjón Arnar Kristjánsson sem forseta, benti nákvæmlega á hvert stefndi árið 1991, en samt virðist sem afleiðingar kerfisins séu enn að koma á óvart. Fyrir utan þann hvata sem innbyggður er í kerfið, þá njóta forréttindaútgerðirnar sérstakrar fyrirgreiðslu í fjármálakerfinu á meðan þrengt er að þeim minni á borð við Hafnarnes-Ver í Þorlákshöfn.
Fólk sem vill breytingar á illræmdu kerfi verður að kjósa þá sem raunverulega eru líklegir til umbóta. Það verður að læra að vara sig á flokkum á borð við Vg og Samfylkingu. Vg og Samfylkingin þóttust ætla að breyta kerfinu á síðasta kjörtímabili en sviku. Verstu svikin voru þegar flokkarnir færðu nýja fisktegund í landhelgi Íslands, makrílinn, á silfurfati til forréttindaútgerðanna. Sama á við um Viðreisn, en innsti koppur þar í búri er Daði Már Kristófersson „hagfræðingur“ sem hefur hingað til lagst gegn því að fiskur sé verðlagður á frjálsum opnum fiskmarkaði.
Það er löngu orðið tímabært að breyta kerfinu og viðurkenna þá staðreynd að það hefur alls ekki þjónað upphaflegum markmiðum sínum um aukinn afla, trausta atvinnu, byggðafestu. Staðreyndirnar tala sínu máli þoskaflinn nú er helmingurinn af því sem hann var fyrir daga kerfisins.