Umfjöllun fréttastofu RÚV, í kvöldfréttum sjónvarpsins um umdeilda aðgerð gegn offitu var einkar vönduð. Andstæð sjónarmið fengu að vegast þar á. Rætt var bæði við talsmenn aðgerðanna og sömuleiðis fengu að heyrast efasemdaraddir um ágæti offituaðgerðanna. Gekk fréttastofan svo langt að benda lækninum á að hann hefði persónulegra hagsmuna að gæta!
Þessi gagnrýna fréttamennska RÚV kom ánægjulega á óvart þar sem skömmu áður í fréttatímanum var fullyrt að uppboðsleið Færeyinga á fiskveiðiheimildum kæmi ekki til greina – Síðan var rætt við eina dyggustu talsmenn kvóta til sjávar og sveita frá landnámi, eða við þá félagana Gunnar Braga Sveinsson og Jón Gunnarsson. Einhverra hluta vegna gleymdi fréttamaðurinn að minna þingmennina á augljós hagsmunatengsl flokka þeirra við núverandi kvótaþega.
Ég var farinn að halda að Jón Gunnarsson væri orðinn blendinn í trú sinni á kvótann vegna yfirlýsinga sinna síðustu vikna. Með framgöngu sinni í fréttatímanum í kvöld, þá staðfestir hann að efinn sem hann hefur lýst yfir á trú sína á úthlutun veiðiheimilda, sé helst tilkomin vegna skjálfta í aðdraganda kosninga.