Mánudagur 15.08.2016 - 17:35 - FB ummæli ()

Plástur á áframhaldandi vaxtaokur

Vaxtaokrið sem viðgengst á Íslandi er megin vandi almennings, sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Í stað þess að taka á meininu, þá boðuðu oddvitar ríkisstjórnarinnar í dag sértæka plástra á eina af  birtingarmyndum meinsins.  Augljóst er að aðgerðirnar snerta aðeins lítinn hluta fólks sem á í vanda á húsnæðismarkaðnum og með mjög takmörkuðum hætti. Það er að þeim, sem eru að festa kaup á sinni fyrstu íbúð og eru svo stöndugir að komast í gegnum greiðslumatið.  Það  jákvæða við tillögurnar er að  þær bera með sér þau skilaboð til ungs fólks að það spari og sýni ráðdeild áður en lagt er í að festa kaup á íbúð.

Sorglegast við tillögurnar fyrir utan  auðvitað að ekki eigi að taka á vaxtaokrinu, er að ekki er heldur litið til þess hóps sem hefur misst allt sitt í hruninu.   Fólk er orðið ýmsu vant í röksemdafærslu s.s. réttlætingu fyrir skattaskjólum svo sem að flókið geti verið að eiga peninga á Íslandi, en það er ekki síður  firra að halda því fram líkt og ráðherrarnir gera nú, að hækkun á lífeyrissjóðsgjaldi í 15,5%, bæti sérstaklega kjör ungs launafólks.  Það að lífeyrissjóðirnir taki æ stærri hluta af launum  leiðir ekki til  góðs, sérstaklega ef horft er til þess að þeir treysta helst á að ávaxta fjármagnið með áframhaldandi háu vaxtastigi á almenning og að standa sömuleiðis í vegi fyrir afnámi verðtryggingar.

Tillögurnar eru í ætt við aðrar framsóknarlegar tillögur Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs, þar sem tekið er úr einum vasa skattgreiðandans og sett í annann – Ekki er snert við ofsagróða fjármálafyrirtækjanna sem maka krókinn en gróði bankanna á síðasta ári var á annað hundrað milljarða króna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur