Laugardagur 20.08.2016 - 00:32 - FB ummæli ()

Hvenær á ráðherra að segja af sér?

Ég hef nokkuð furðað mig á þeirri kröfu Sjálfstæðismanna að félagsmálaráðherra eigi að segja af sér.  Krafan virðist eiga sér nokkurn hljómgrunn innan Framsóknarflokksins, þar sem hvorki formaður né forsætisráðherra hafa komið ráðherra sínum til varna.  Ekki er málið að mér þyki mikið til verka félagsmálaráðherrans koma, en hún hefur verið drjúg við að færa auðlegðarfólki íbúðir Íbúðarlánasjóðs á silfurfati m.a. leigufélagið Klett. Eins og við mátti búast þá hafa þessar aðgerðir hennar frekar orðið til þess að þrengja hag þeirra sem standa höllum fæti en hitt. Að vísu hefur hún sýnt vilja til að minnka kostnað við byggingar íbúða, með mjög framsæknum prósentureikningum.

Að mati þingmanna Sjálfstæðismanna þá telst það algerlega óboðlegt fyrir ráðherra að sitja hjá við afgreiðslu þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun næsta kjörtímabils!

Þessi viðkvæmni kemur á óvart í ljósi þess að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins efaðist um trúverðugleika eða hæfi ráðherra sem studdi velgjörðarmann og fyrrverandi atvinnuveitanda sinn í viðskiptaerindum í Kína. Sama á við um viðbrögð þingmanna flokksins við þeirri staðreynd að tveir af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins áttu félög á aflandseyjum, til þess að komast hjá skilum á skattgreiðslum á Íslandi.

Engu máli skipti þó svo að ráðherra hefði sagt ósatt þegar hann var spurður sérstaklega út í það hvort hann ætti félag í skattaskjóli.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur