Laugardagur 03.09.2016 - 17:15 - FB ummæli ()

Hitt fólkið

Ég lagði leið mína óvænt í Norræna húsið á „Fund fólksins“. Tilefnið var m.a. mjög áhugaverður og fræðandi fundur með Ragnari Þór Ingólfssyni og Ástu Dís Guðjónsdóttur frambjóðendum Dögunar um lífeyrisjóðakerfið.

Á „Fundi fólksins“ varð ég þess fljótt áskynja að Dögun og fleiri flokkar sem hyggjast bjóða fram í næstu Alþingiskosningum voru ekki einungis útilokaðir frá því að taka þátt í sameiginlegum viðræðum formanna stjórnmálaflokkanna, heldur einnig að fá að kynna stefnumál sín á sviði. Á sviðinu fengu aðrir flokkar að kynna sín stefnumál á hálftíma fresti allan liðlangan daginn og var umræðan send út af RÚV í beinni.

Í skýringum stjórnanda samkomunnar kom fram að þessi mismunun væri gerð að kröfu fjölmiðla og þá væntanlega RÚV!  Ég á bágt með að trúa þessum skýringum þar sem það er eitt af hlutverkum fjölmiðilsins að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum. Fyrir vettvang sem kallar sig „Fund fólksins“ þá finnst mér það vera öfugsnúið að skipta þátttakendum upp í fólkið og síðan hitt fólkið eða jafnvel hyskið sem sett er til hliðar.

Það væri fróðlegt að fá nánari skýringar á þessari mismunun og hvort eitthvað sé til í því að hún sé gerð að kröfu fjölmiðlanna eða þá styrktaraðila samkomunnar, sem eru; SA, Reykjavíkurborg og Ríkisstjórnin?

Eitt er víst er að málflutningur okkar frambjóðenda Dögunar er ekki galnari en svo að ég var kallaður í viðtal í Færeyska ríkistúvarpinu eftir framlag mitt á fundi um skipan úthutunar veiðiheimilda í Rúnavik í Færeyjum á fimmtudagin var.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur