Það átti ekki að koma á óvart að Vg hafi látið steyta á breytingum á fiskveiðikerfinu í stjórnarmyndunarumræðum með Pírötum, BF, Viðreisn og Samfylkingu.
Í kjölfar hrunsins mynduðu Vg og Samfylkingin hreina og tæra vinstristjórn, fyrst minnihlutastjórn í boði Sigmundar Davíðs sem breyttist síðan í meirihlutastjórn. Í aðdraganda kosninganna árið 2009, lofuðu flokkarnir að koma á grundvallarbreytingum á stjórn fiskveiða m.a. auknu frelsi og innköllun veiðiheimilda. Reyndin varð allt önnur, en í stað frumvarps um raunverulegar breytingar þá kom fram tillaga þegar farið var að líða verulega á kjörtímabilið, um að festa kerfið óbreytt í sessi, til nokkurra áratuga.
Í upphafi ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Vg skrifuðu Steingrímur J. og Jóhanna Sigurðardóttir upp á í svokallaðan stöðugleikasáttmála við atvinnulífið og ASÍ ofl., um að ekki yrði ráðist í neinar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, nema að það yrði gert í sátt við LÍÚ inn í sáttanefnd. Í stuttu máli sagt þá voru boðaðar breytingar flokkanna svæfðar inn í nefndinni og þær tillögur sem komu á endanum fram, voru svo þvældar eins og að ofan greinir, að búið var að hafa endaskipti á hlutunum þ.e. festa átti kerfið í sessi.
Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra reyndi á kjörtímabilinu að koma á ýmsum breytingum á alvondu kvótakerfi m.a. að koma skötuselnum úr kvóta og leyfði frjálsar veiðar á rækju. Skötuselurinn var þá farinn að veiðast í auknum mæli fyrir vestan og norðan land. Sjómenn fyrir vestan höfðu ekki kvóta í skötusel og rækjuveiðum var þá að mestu hætt og rækjukvótinn notaður í brask. Steingrímur J. barðist gegn öllum þessum breytingum og naut liðsinnis helmings þingflokks Samfylkingarinnar auk ASÍ SA, LÍÚ ofl. Í varðstöðu um sérhagsmuni og engar breytingar á kvótakerfinu var stöðugleikasamningnum haldið á lofti. Skötuselsmálið snérist fyrst og fremst um að ráðherra vildi í koma í veg fyrir að grásleppukarlar sem fengu skötusel í veiðarfærin í auknum mæli yrðu ekki gerðir að leiguliðum örfárra útgerða á Suðurlandi, sem réðu yfir öllum aflaheimildum á skötusel.
Á síðasta kjörtímabili undir forystu Sigurðar Inga formanns Framsóknarflokksins, voru þær ágætu breytingar sem Jón Bjarnason hafði komið á þ.e. aukið frelsi til veiða á rækju og skötusel afturkallaðar. Umhugsunarvert er að allir þingmenn Vg greiddu atkvæði með breytingum sem miðuðu að því að koma í veg fyrir jafnræði og frelsi í fiskveiðum.
Atkvæðagreiðslan um frumvarpið sem afturkallaði með ómálefnalegum hætti jafnræði og frelsi til veiða á rækju og skötusel, auk þess sem það veikti grundvöll strandveiða, afhjúpaði endanlega afstöðu þingmanna Vg og S til réttlátra breytinga á stjórn fiskveiða. Mikil samstaða var á þinginu um frumvarpið vonda. Eflaust hafa einhverjir þingmenn ekki áttað sig á hvað þeir voru að samþykkja en það á þó ólíklega við reynda þingmenn á borð við Lilju Rafney Magnúsdóttur og Steingrím J. Sigfússon.
Sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna í ósköpum flokkur sem gerir tilkall til þess að vera lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum skuli halda sérstakri verndarhendi yfir kerfi sem tryggir örfáum aðilum gríðarlegan auð og völd.
Það er eitthvað svo lítið vinstri við stefnu Vg sjávarútvegsmálum og svo lítið að það minnir helst á umhverfisstefnu flokksins sem birtist í ríkisstyrktu stóriðjunni að Bakka.