Mánudagur 02.01.2017 - 00:14 - FB ummæli ()

Ljósmóðirin Katrín Jakobsdóttir

Umræðan sem fram fór í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag markaðist af því að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar auk viðhengisins BF, er í burðarliðnum. Formaður Vg á veigamikinn þátt í  fæðingu nýrrar stjórnar, þar sem Vg sleit viðræðum um myndun 5 flokka ríkisstjórnar í tvígang. Það sem steytti á í viðræðum flokkanna 5, var fyrst og fremst að Vg vildi ekki breyta kvótakerfinu í sjávarútvegi. Í sjálfu sér er það æði undarlegt að flokkur sem segist vera til vinstri skuli halda verndarhendi yfir kerfi sem þjónar fyrst og fremst örfáum auðmönnum. Kerfið hefur leitt til mikillar samþjöppunar, þannig að sá 300 milljarða hagnaður greinarinnar frá árinu 2009, hefur runnið með hverju árinu sem líður  í færri og færri vasa. Mikið vill meira –  þannig að stórútgerðin hefur sótt fast að kjörum sjómanna, sem hafa neyðst til þess að fara í verkfall.

Í Kryddsíldinni  geislaði formaður Vg af ánægju yfir stöðunni í landsmálum og gerði enga athugasemd við að ný ríkisstjórn undir forystu Panamráðherra, væri í þann mund að sjá dagsins ljós. Í stað þess að mæta málflutningi Bjarna Benediktssonar af festu, sem reyndi að gera lítið úr þeirri sorglegu staðreynd að æðstu ráðmenn Íslands hefðu verið staðnir að því að fela fé fyrir skattayfirvöldum á Tortóla og Lúxembúrg, þá tók formaður Vg þátt í að drepa umræðunni á dreif með einhverju tali um kerfið.

Það væri áhugaverð tilraun að texta þá kósíumræðu sem fram fór í þættinum og fá útlendinga sem ekki þekktu til íslenskra stjórnmála til að horfa þáttinn.  Það kæmi mér ekki á óvart ef helsta niðurstaðan úr slíkri tilraun vera þá, að Bjarni væri formaður í stjórnarflokki og Katrín Jakobsdóttir væri hans helsti bandamaður. Mikil almenn ánægja var hjá fulltrúum allra flokka um að koma fjárlagafrumvarpi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks nánast óbreyttu á hraðferð í gegnum þingið. Hraðferðin á fjárlagfrumvarpinu og fleirir mál á borð við frumvarpið um skerðingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna, var jafnvel talin gefa fyrirheit um aukna virðingu Alþingis og gilti þá einu megn óánægja opinberra starfsmanna með málsmeðferðina.

Á Íslandi eru fjölmörg verk að vinna fyrir framsýna stjórnmálamenn m.a. á svið húsnæðismála sem tengist mjög afkomu ungs fólks og framfærslu lífeyrisþega. Það sker í eyru að heyra fullrúa stjórnmálaflokka halda því fram að núverandi biðstaða við stjórn landsins sé einhver óskastaða. Sömuleiðis hlýtur það að vera áhyggjuefni þegar formaður stærsta stórnmálaflokks landsins skuli úthrópa réttmæta og þarfa þjóðfélagslega gagnrýni  m.a.  aukna á misskiptingu auðs eða óstjórn í heilbrigðiskerfinu sem einhverja geðveiki.

Ólíkt Bjarna Benediktssyni þá hef ég ekki áhyggjur af aukinni geðveiki á Íslandi heldur miklu frekar aukinni meðvirkni.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur