Í sjónvarpsþættinum Vikan með Gísla Marteini afhjúpaðist algerlega hve ákærur lögreglunnar á hendur Péturs Gunnlaugssonar á Útvarpi Sögu, fyrir hatursorðræðu eru fráleitar. Meint hatursorðræða var ekki hættulegri en svo að henni var sjónvarpað sem skemmtiefni á besta áhorfstíma RÚV. Um var að ræða upptöku á símatíma Útvarps Sögu, þar sem öldruð 8 barna móðir, lýsti yfir áhyggjum sínum vegna mögulegrar sýnikennslu á kynlífi lesbía. Ótti konunnar voru tilkomnar vegna misskilnings sem kom upp vegna hinsegin fræðslu í barnaskólum í Hafnafirði árið 2015. | ||
Nú er það svo að ég tel mig þekkja ágætlega til innhringjandans. Ég er handviss um að viðhorf gömlu konunnar til samkynhneigðar sem skinu í gegnum samtalið, stafa alls ekki af hatri, heldur miklu frekar litast þau af viðhorfi liðinnar tíðar. Ég held að það ættu allir að sjá fáránleikann í því að kæra konuna fyrir að breiða út hatur eða hvað þá Pétur fyrir að taka á móti samtalinu.
Það er tímabært að velta því upp hvers vegna í ósköpunum sé komin upp sú ótrúlega staða að ríkisvaldið leggur fram hatursákæru vegna samtals sem jafnframt er notað sem skemmtiefni á ríkisjónvarpinu! Ástæðuna tel ég vera þá, að ákveðinn hópur manna sem hefur átt mjög greiða leið að fjölmiðlum hefur hvatt mjög til þess að 233 gr. hegningarlaganna, sé misnotuð til þöggunar. Þeir sem hafa hvatt mest til þöggunar, eru einkum þeir sem vilja koma í veg fyrir gagnrýna umræðu um ný útlendingalög, fjölgun hælisleitenda og neikvæðar hliðar íslam. Á Útvarpi Sögu hefur farið fram opin umræða um framangreinda þætti sem heyrir til algerra undantekninga á öðrum fjölmiðlum. |