Sunnudagur 14.05.2017 - 14:00 - FB ummæli ()

Varaformaður Vg gerist talsmaður útgerðarauðvalds Íslands

Mikill þungi er kominn í umræðu um nauðsyn þess að breyta illræmdu kvótakerfi í sjávarútvegi. Kerfið er óréttlátt en það veitir örfáum aðilum einokunarrétt til að nýta sameiginlega auðlind landsmanna. Sömuleiðis tryggir það örfáum vald til þess að ákveða hvort að atvinna og byggð leggist af í heilu byggðalögunum. Það er ljóst að ef því verður ekki breytt, þá mun byggð í núverandi mynd í Vestmanneyjum fleiri sjávarbyggðum, heyra sögunni til.  Fyrir utan hrópandi óréttlætið, þá er staðreyndin sú að það hvetur til brottkasts og skilar miklu mun minni afla á land, en upphaflegar áætlanir gerður ráð fyrir.  Þorskaflinn nú er rétt um helmingur af því sem hann var fyrir daga kerfisins. Kerfið er því ekki neitt sem þjóðin getur verið stolt af, heldur þarf að taka það til róttækrar endurskoðunar.

Fyrirfram hefði mátt telja að flokkur á borð við Vg sem segist vera til vinstri myndi leggjast á árar með þeim sem vildu breytingar, þannig að arður af greininni skilaði sér í vasa fleiri Íslendinga. Bóka hefði mátt andstöðu flokks sem kennir sig við alþýðuna í ljósi þess að kerfið hefur skert samningsstöðu sjómanna og gert fjölda þeirra að leiguliðum.

Raunin er allt önnur, en Vg virðist styðja kerfið algerlega óbreytt, ef marka má ritröð greina sem varaformaður, Vg Björn Valur Gíslason, hefur skrifað á heimasíðu sínna www.bvg.is. Engu líkara er en að varaformaður Vg hafi fengið hland fyrir hjartað, þegar hann heyrði máli hallað á kvótakerfið  og það hafi hleypt af stað ritræpu þar sem kerfið og greifar þess eru mærðir.

Í ritröðinni kennir ýmissa grasa og seilist varaformaður Vg mjög langt til þess að verja hagsmuni 0.1% Íslendinga á kostnað okkar hinna, 99,9% landsmanna. Ef marka má málflutning Björns Vals, þá virðist sem Vg telji að kvótakerfið sé eitt stærsta skref í umhverfismálum sem þjóðin hefur stigið og hann þakkar kerfinu smátt sem stórt m.a. að hætt var að henda veiðarfærum í sjóinn.  Það gerir hann þrátt fyrir að kvótakerfið hvetji til brottkasts og hafi nákvæsmlega ekkert með úrgangsmál að gera!  Sú skoðun kemur fram hjá varaformanninum, að þeir flokkar sem gerast svo róttækir að boða einhverjar breytingar á óréttlátri og úreltri skipan atvinnugreina, bíði hræðileg örlög og skiptir þá engu máli hvort að flokkarnir heita Frjálslyndi flokkurinn, Viðreisn eða Samfylkingin.  Leiðtogi Vinstri grænna er með glýjuna í augunum yfir framgangi Samherja og ákveður að minnast ekki einu orði á að fyrirtækið hefur notið sérgæsku og einokunaraðstöðu til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Fyrirtækið hefur nýtt sér skattaskjól á Kýpur og eigendur voru í Panamaskjölunum auk þess að bera þeir með beinum hætti á óábyrgum rekstri fjármálafyrirtækja í aðdraganda hrunsins.

Aumast af öllu aumu í þjónku varaformanns Vg við stórútgerðarauðvaldið, er þó þegar hann ákveður að bera sérstaklega blak af stjórnendum Granda, þegar þeir sögðu upp 86 fiskvinnslukonum á Akranesi sem unnu láglaunastörf. Inntak greinarinnar er á þá leið að ekki megi breyta kerfinu í einu né neinu og ef það hefði átt að koma í veg fyrir uppsagnirnar á Akranesi, þá hefði þurft að gera ráðstafanir í upphafi þegar framsalið var sett á á sínum tíma – nú er ekkert hægt að gera að mati varaformanns Vg. Það fer vel á því að vitna beint í skrif Björns Vals

Þeir sem nú lýsa óánægju sinni með stöðuna á Akranesi ættu að beina henni til þeirra (stjórnmálamanna) en ekki HB-Granda.

Íslensk alþýða þarf ekki óvini með svona vini.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur