Þriðjudagur 21.11.2017 - 23:21 - FB ummæli ()

Þegar ég sótti um starf fiskistofustjóra

Nú fer hátt í einn milljarður króna í eftirlit með sjómönnum og mér er til efs að nokkur íslensk stétt manna sé undir jafn miklu eftirliti ef frá eru taldir íslenskir fangar.  Rekstur Fiskistofu slagar upp í að vera um 2/3 af rekstrarkostnaði fangelsanna.

Fyrir nokkrum árum þá sótti ég um starf fiskistofustjóra og var meira að segja boðaður í atvinnuviðtal í sjávarútvegsráðuneytinu.  Sú heimsókn var um margt minnisstæð m.a. fyrir þá sök að í ráðuneytinu var þá á ferð framkvæmdastjóri LÍÚ sem gek valdsamlega um svæðið rétt eins  og hann ætti það með hurðum og gluggum á meðan ágætur sjávarútvegsráðherra skaust laumulega um á milli herbergja.

Viðtalið sjálft byrjaði frekar vandærðalega. Ég þóttist finna í viðtalinu að mér sem þekktum baráttumanni gegn ónýtu og óréttlátu kvótakerfi og auknu frelsi til veiða, væri mætt af ákveðni tortryggni af yfirstjórn ráðuneytisins.

þegar ég var spurður út í mína sýn á starfið og svaraði því á þá leið að nauðsynlegt væri að nálgast verkefnið með öðrum hætti en gert væri.  Ég taldi nauðsynlegt að taka sem flesta hvata í burtu úr kerfinu til brottkasts.  Ein leið væri að fara í sóknarkerfi líkt og gert er í Færeyjum en þar er brottkast nær óþekkt. Ef ætlunin væri hins vegar að halda sig við kvótakerfi þá þyrfti að fara í ákveðnar breytingar m.a. að minni og verðminni fiskur drægist hlutfallslega minna frá  kvóta en stærri og verðmætari fiskur.  Ef svo væri þá hyrfi allur hvati til brottkasts á smáfiski. Sömuleiðis taldi ég rétt að tryggja að kvótaleiga yrði aldrei hærri en svo að sjómenn hefðu alltaf hag af því að landa öllum afla. Ef leigan er hærri en fæst fyrir aflann á markaði er lítil von til þess að fiskur skili sér í land.  Enginn þarf að velkjast í vafa um að sjómönnum mislíkar að þurfa að taka þátt í brottkasti og það ætti að vera auðvelt að ná miklum árangri með því að setja réttu hvatana inn í kerfið.

Gott ef ég benti ekki einni á í viðtalinu  að rétt væri að huga að nýtingaprósentu frystitogara og að eðlilega væri rétt að setja stórt spurningamerki við að stóru fyrirtækin í greininni vigtuðu sjálf aflann inn í sínar vinnslur.

Viðtalið endað síðan kurteislega en „sérfræðingur“ ráðuneytisins benti mér kurteislega á undir rós að ég væri ekki á réttum stað í atvinnuleit.  Ég er ekki frá því að fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV í kvöld, hafi staðfest að svo hafi alls ekki verið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur