Einn af vondum fylgifiskum kvótakerfis í fiskveiðum er hvati brottkasts og rangrar upplýsingagjafar um landaðan afla, eins og skýrt kom fram í Kveik, fréttaskýringaþætti RÚV. Viðbrögð ráðamanna og hagsmunasamtaka útgerða við þættinum, hafa einkennst af því að halda því fram að vandamálið sé hverfandi og það heyri að mestu fortíðinni til.
Hér er skýrsla Hafró frá í fyrra sem sýnir fram á að liðlega 2.138 tonn af þorski hafi verið hent í sjóinn á árinu 2015 og inn í þeirri tölu eru ekki öll veiðarfæri. Niðurstaða skýrslunnar er að reiknað brottkast hafi aukist en ekki minnkað eins og sjávarútvegsráðherra hefur haldið fram í kjölfar fréttflutnings RÚV!
Í stað þess að reglur um fiskveiðar séu; réttlátar, sveigjanlegar og þannig úr garði gerðar að taka í burtu hvata til brottkasts, þá er of oft farin þveröfug leið. Sorglega gott dæmi um slíkt er reglugerð sem sett var árið 2011 um lúðuveiðar sem skyldaði sjómenn til þess að sleppa allri lífvænlegri lúðu í sjóinn. Þeirri lúðu sem ekki væri hugað líf átti að landa á markað og verðmæti aflans að gera upptæk í ríkissjóð. Þegar reglugerðin var sett, þá voru engar beinar lúðuveiðar stundaðar og öll sú lúða sem veiddist var meðafli á öðrum veiðum. Aðeins lítill hluti lúðu sem er veidd, er lífvænleg, þannig að þeir sem settu reglugerðina hafa eflaust búist við að eitthvað lítið myndi draga úr að lúðu væri landað á markað. Ég benti hins vegar á það að reglugerðin myndi strax leiða til þess að lúðan yrði seld á svörtum markaði. Samkvæmt reglugerðinni fengu sjómenn ekkert fyrir vinnu sína og útgerð ekkert upp í kostnað við veiðar og löndun á aflanum. Afleiðingarnar af þessu regluverki létu ekki á sér standa – skráður landaður lúðuafli var strax árið eftir gildistöku reglugerðarinnar, innan við 7 % af því sem hann var ári áður. Þar sem lúðan er að mestu meðafli þá er ljóst að raunveruleg veiði var miklu mun meiri en löndunartölur gefa til kynna. Reglum um lúðuveiðar var síðan breytt í lok árs 2012, þannig að útgerðir og sjómenn fá í sinn hlut 20% af virði landaðs lúðafla. Við þá breytingu jókst skráður lúðuafli upp í um 20% af því sem aflinn var áður en reglugerðin var sett.
Mér finnst tímabært að ráðamenn hætti þessu tali um BESTA sjálfbæra fiskveiðistjórnunarkerfið í heimi og fari að sníða augljóst misrétti og ágalla af kerfinu.