Sunnudagur 17.12.2017 - 18:22 - FB ummæli ()

Doktor að blekkja

Greinin birtist í síðustu viku í Morgunblaðinu:

Dr. Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur SFS,  skrifar grein, sem birtist 200 mílum Morgunblaðsins, þar sem hann segir að það hafi náðst afar góður árangur við að stjórna þorskveiðum frá árinu 1992. Á grein Kristjáns má skilja að þorskstofninn sé að gefa meiri afla og að stækkun hrygningarstofnsins hafi gefið góða raun.

Ef skoðað er tímabilið frá árinu 1992 og fram til dagsins í dag og borið saman við jafn langt tímabil til baka, þá ætti að vera augljóst hverju mannsbarni að „stjórnunin“ hefur valdið gríðarlegu tjóni.  Meðaltals ársaflinn á seinna tímabilinu er aðeins 57% af því sem hann var á fyrra tímabilinu, Nýliðun seinna tímabilsins er aðeins 73% af því sem hún var fyrra á tímabilinu, sem Kristján vill meina að óstjórn hafi ríkt á.  Vel að merkja að fækkun nýliðunar verður þrátt fyrir markvissa stækkun hrygningarstofns og friðunar á smáfiski!

Í greininni er fullyrt að Íslendingar hafi verið leiðandi í því að búa til aflareglu á tíunda áratugnum, sem segði til um hve veiða ætti stóran hluta af fiskistofni, til þess að tryggja langtíma hagkvæma nýtingu.  Hann sleppir því hins vegar að nefna þá staðreynd að sú aflaregla var endurskoðuð upp úr síðustu aldamótum vegna þess að hún reyndist afar illa.  Þorskstofninn fór í sína náttúrulega niðursveiflu um aldamótin, þrátt fyrir að dregið hafi verið gríðarleg úr veiðum frá árinu 1992.

Gefin var út skýrsla, nefndar um langtíma nýtingu fiskistofna árið 2004, með „endurskoðaðri“ aflareglu, án þess að farið væri með gagnrýnum hætti yfir líffræðilegar forsendur hennar. „Endurskoðunin“ var framkvæmd af höfundum upphaflegu reglunnar og var niðurstaða skýrslunnar í stuttu máli að stofnmatið sjálft væri ónákvæmt og því nauðsynlegt að leggja til að enn lægra hlutfalls veiðistofns yrði veiddur en áður hafði verið gert.  Með því að fara með veiðina niður í 20% af veiðistofni, þá væri gulltryggt að mögulegt ofmat á veiðistofni hefði neikvæð áhrif á afrakstur þorskstofnsins.

Afli síðustu ára er langt frá því að ná því að vera í námunda við þau fyrirheit sem gefin voru þegar aflaregla var tekin upp og sömuleiðis þegar hún var endurskoðuð.  Með öðrum orðum þá hefur hún fallið á eigin forsendum.

Í lokinn er rétt að útgerðarmenn og landsmenn allir spyrji – Hvers vegna er Dr. Kristján Þórarinsson að beita blekkingum og halda því fram að það hafi náðst árangur þegar reynslan sýnir augljóslega annað?

nefndaralit2004_lokaeint (2)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur