Sunnudagur 21.01.2018 - 21:47 - FB ummæli ()

Er Vg fyrst og fremst flokkur ríka fólksins?

Það er ákaflega erfitt að greina það með nokkrum hætti á stjórn landsins, að hún sé undir forystu róttæks vinstriflokks. Vg hefur löngum boðað að taka ætti á misskiptingunni og koma á réttlæti og sjálfbærni við nýtingu á auðlindum þjóðarinnar.

Nú þegar flokkurinn er kominn í stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn þá hafa forystumenn flokksins þagnað um þessi baráttumál og umræðunni beint í allt aðrar áttir m.a. #Ég líka mál stjórnmálakvenna.  Ástæðan fyrir þögninni er alls ekki sú að ástand mála hafi farið batnandi hvað varðar misskiptinguna eða hvað þá auðlindanýtingu.  Nýlegar fréttir báru með sér að um að 1.000 auðugustu Íslendingarnir ættu nær allt eigið fé í íslensku atvinnulífi. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur beindi sjónum að því að stjórnvöld settu kíkinn fyrir blinda augað þegar komið var að svindli og sóun stærri aðila í kvótakerfinu, í sjávarútvegi.

Eitt af því ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur áformar, er að teknir verði út úr bönkunum fjármunir, til þess að fara í ákveðin samfélagsverkefni m.a. vegagerð og niðurgreiðslu skulda ríkisins.  Umræddir fjármunir í bönkunum eru tilkomnir vegna okurvaxta og afarkjara sem íslenskur almenningur býr við.  Á árunum 2015 og 2016 var gróði viðskiptabankanna samanlagt um 165 milljarðar kr. Ef gróðanum væri skipt á milli landsmanna, þá kæmi um 2 milljónir í hlut hverrar 4 manna fjölskyldu í landinu. Það gefur auga leið að gjöld bankanna leggjast mjög misþungt á landsmenn og ætla má að ungt fólk sem er að fjárfesta í húsnæði beri þyngstu byrðarnar á meðan bankarnir létta undir með ríka fólkinu.

Það er merkilegur fjandi ef Vg ætlar að nota áhrif sín við stjórn landsins með þeim hætti að steravaxnir bankar verði reknir áfram í algerlega óbreyttri mynd, í stað þess að koma á samfélagsbanka sem byði almenningi sanngjörn kjör.

Ef bankarnir verða reknir í óbreyttri mynd og fjármunum tappað af þeim í ríkissjóð, þá mun það vera til mikillar hagsbóta fyrir auðmenn og leiða til enn frekari misskiptingar.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur