Sunnudagur 04.02.2018 - 23:22 - FB ummæli ()

Braskið og ASÍ

Forysta ASÍ hefur í félagi við áhrifamenn innan Samtaka atvinnulífsins verið leiðandi í íslensku fjármálakerfi.  Þetta einkennilega samstarf ASÍ og SA á sér stað í gegnum stjórnir í lífeyrissjóðanna sem ráðstafa drjúgum hluta af launaveltu landsmanna. Fjármálavafstur forystu ASÍ hefur leitt af sér að óskýra hagsmunavörslu þar sem greinilegt er að hagsmunir almenns launafólks eru komnir neðarlega á blaðið en í öndvegi er að tryggja óbreytt kerfi og völd. Þetta samkrull ASÍ og fjáramálakerfisins hefur staðið um áratugaskeið, en ekki þótti  það tiltökumál á sínum tíma þegar fyrrum forseti ASÍ réð sig í framkvæmdastjórastól Íslandsbanka í beinu framhaldi af setu á forsetastóli ASÍ.  Það kæmi í sjálfu sér alls ekki á óvart ef að núverandi forseti ASÍ færi sömu leið á næstunni.

Afleiðingarnar af fjármálabraski forystu ASÍ eru meðal annars þær að forystan hefur þegar á reynir staðið fast með þröngum hagsmunum stórfyrirtækja þrátt fyrir að augljóst sé að það sé á kostnað þorra launafólks.  Forysta ASÍ hefur staðið með verðtryggingunni, kvótakerfinu í sjávarútvegi, endurreisn óbreytts fjármálakerfis og braskara á borð við Bakkavararbræðra.  Að vísu stóð forysta ASÍ með almenningi í furðulegum endurútreikningum Seðlabankans á ólöglegum gengistryggðum lánum.

Þessi einkennilega mynd er að framkallast með skýrari hætti hugum landsmanna í ýmsum málum m.a. í fjárfestingum og að því virðist samstarfi lífeyrissjóðanna við Gamma.  Fjárfestingarfélagið Gamma virðist hafa ótæmandi aðgang að fjármunum lífeyrissjóðanna til kaupa á  húsnæði sem síðan er leigt út dýrum dómi til launafólks.  Skyldusparnaður launafólks er með þessu hætti notaður til þess að spenna upp verð á fasteignum og koma á okurleigu. Launþegar vilja frekar fara þá leið sem formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson boðar þ.e. að bjóða húsnæði á sanngjörnu verði og stöðva græðgisvæðingunar á húsnæðismarkaði einkum á höfuðborgarsvæðinu.

Allt tal forseta ASÍ um samstöðu snýst þegar öllu á botninn er hvolft um áframhaldandi brask og völd nokkurra forystumanna launþega á kostnað almennings.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur