Fimmtudagur 9.1.2014 - 23:52 - FB ummæli ()

Í vöggunni er verðtryggingin inngróin

 það má vel fullyrða að Skagafjörður geti talist vagga Framsóknarflokksins og jafnvel sömuleiðis vagga verðtryggingarinnar en lög um verðtryggingu fjárskuldbindinga eru gjarnan kennd við Fljótamanninn Ólaf Jóhannesson og því nefnd Ólafslög.  Í morgun var borin upp sú tillaga af forystumönnum Framsóknarflokksins í byggðaráði Skagafjarðar að halda áfram að binda verðhækkanir á leigu á íbúðarhúsnæði sveitarfélagsins, sem einkum er leigt til skjólstæðinga félagsþjónustunnar, við neysluverðsvísitölu.  Tillagan  kom mér óþægilega á óvart en hún bendir eindregið til þess að  engin trú virðist vera hjá forystumönnum Framsóknarflokksins á að leggja af verðtrygginguna eða a.m.k. minnka vægi hennar.  Ef einhvers staðar væri tilefni til þess að draga úr vægi hennar þá væri það einmitt gagnvart skjólstæðingum félagsþjónustu sveitarfélaga í landinu.  Ég reyndi hvað ég gat til þess að telja framsóknarmennina ofan af því að rígbinda hækkanir á húsnæði við neysluverðsvísitölu sem hefur tekið nokkur há- eða réttara sagt heljarstökk á síðustu árum. Þegar það gekk ekki þá lagði ég fram eftirfarandi bókun:

Óneitanlega skýtur það skökku við að Framsóknarmenn í Skagafirði skulu leggja hér til áframhaldandi verðtryggingu, sem mun leiða af sér sjálfvirka hækkun á húsaleigu fyrir þá íbúa sem leigja félagslegar íbúðir sveitarfélagsins, á sama tíma og ríkisstjórn undir forystu Framsóknarflokksins vinnur að því að afnema verðtryggingu! Eðlilegra væri að draga úr vægi verðtryggingarinnar og aftengja sjálfvirkar hækkanir í gjaldskrám sveitarfélagsins.

Málið sýnir óneitanlega hvað verðtryggingin er inngróin í Framsóknarflokkinn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.1.2014 - 00:19 - FB ummæli ()

Ráðherrar koma af fjöllum

Um helgina komu bæði heilbrigðisráðherra og velferðarráðherra fram í viðtölum á Rúv og virtust steinhissa á þeirri staðreynd, sem Félagsvísindastofnun dró fram í nýrri skýrslu, að stór hluti tekjulágra landsmanna hefði neitað sér um nauðsynlega læknisþjónustu.  Eiginlega var ég mest hissa á að þetta væru nýjar fréttir fyrir ráðherra í ríkisstjórninni. Er ég þá ekki einungis að vitna til fjölmargra skýrslna sem birst hafa á síðustu misserum um stöðu fólks með lágar tekjur eða þunga skuldabyrði, heldur einnig fyrir þá staðreynd að aðgerðarhópurinn Bót mótmælti síðsumars bágri stöðu þeirra hópa sem standa hvað hallast í samfélaginu.

Mögulega hafa allar skýrslurnar og mótmælin farið algerlega framhjá ríkisstjórninni og getur verið að þar sé komin skýringin á því að láta þann tíunda hluta þjóðarinnar, sem hefur lægstu tekjurnar, fara á mis við skattalækkanir og láta þær frekar renna til þeirra 10% launamanna sem hæstar hafa tekjurnar.

Getur hugsanlega verið að hér sé komin fram skýringin á því að ríkisstjórninni lá svo mikið á að fella niður skatta á auðugustu Íslendingana og leiðrétta laun forstöðumanna stofnanna aftur í tímann?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.1.2014 - 15:09 - FB ummæli ()

Veifa röngu tré

Talsmenn LÍÚ hafa gefið þá skýringu á stórfelldum uppsögnum sjómanna á frystitogurum, að þær megi rekja beint til lækkunar á afurðaverði sjófrystra afurða. Sveinn Hjörtur Hjartarson hagfræðingur LÍÚ hefur bent á að gögn Hagstofunnar staðfesti þá fullyrðingu.  Sú skýring LÍÚ gengur einfaldlega alls ekki upp, en samkvæmt talnaefni sem sýnir verðvísitölur sjávarafurða, þá kemur skýrt fram að frá árinu 2008 hefur verð á sjófrystum afurðum hækkað mun meira en almennt á ferskum afurðum. Fráleitt er sömuleiðis að kenna veiðigjaldinu um en það er það sama hvort sem fiskurinn er veiddur af frystitogara eða öðrum skipum.

Augljósasta ástæðan fyrir fjöldauppsögnunum er að laun sjómannanna eru miklu mun hærri en laun fiskverkafólks, á ASÍ töxtunum og með uppsögnunum er verið að draga úr launakostnaði í greininni.  Einnig er verið að aftengja launagreiðslur sjómanna við raunverulega verðmætasköpun í greininni og þar með vega að grunnforsendum hlutaskiptakerfisins.  Öruggt má telja að launakostnaður muni lækka við breytingarnar, þar sem þær fela í sér að gert verður upp á málamyndverði sem Verðlagsstofa skiptaverðs ákveður, sem er langt frá eðlilegu markaðsverði.

Óneitanlega er það öfugsnúið að þeir sem báru sig afar illa fyrir framan alþjóð og vildu meina að fyrri ríkissjórn hafi alið á óvissu um framtíðarrekstrarumhverfi sjávarútvegsins, skulu nú setja framfærslu hundruð fjölskyldna  í uppnám!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.1.2014 - 18:39 - FB ummæli ()

Hægri menn og sjávarútvegur

Stefna Sjálfstæðisflokksins er  á stundum vægast sagt svolítið fyndin eða réttara sagt skrýtin.  Það er mjög skrýtið að sá flokkur, sem kennir sig við frjáls viðskipti virðist hata og fyrirlíta allt sem heitir frjáls viðskipti þegar kemur að sjávarútvegi!

 Alls ekki má heyra á það minnst að fiskverð ráðist á frjálsum uppboðsmarkaði.  Ef sömu lögmál væru látin gilda á húsnæðismarkaði og gilda nú í sjávarútvegi,  væri verð á íbúðum ákveðið með sömu aðferðum.  Röksemdafærslan yrði væntanlega að ómögulegt væri að verð á húsnæði ráðist á óábyrgum markaði, sveiflur yrðu þar með væntanlega miklar og miklu betri stýring væri á verðlagningu á húsnæði ef það yrði ákveðið af sérstakri ríkisstofnun „Verðlagsstofu fasteignaverðs“ sambærilegri við Verðlagsstofu skiptaverðs.  Nú eða ef menn héldu því fram að fjárfestinganna vegna væri ómögulegt að láta verð á veiðiheimildum úr sameign þjóðarinnar, ráðast á markaði .  Vegavinnu fylgir mikil fjárfesting, menn þurfa að kaupa malbikunarvélar, valtara, gröfur og vörubíla.  Með sömu rökum og beitt er í sjávarútvegi  þá náttúrulega fjárfestir enginn í vegavinnuvélum nema mannsaldurstrygging sé á verkefnum?

Eru þetta ekki sömu rök og notuð eru til verndar sjávarútvegi? Einhverntímann var þessi stefna, miðstýring og ríkisforsjá, kölluð kommúnismi.

Það er því bæði skrýtið og svolítið fyndið að hægri menn séu að verja kommúníska stefnu í aðalatvinnuvegi þjóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.12.2013 - 16:12 - FB ummæli ()

Guðni Már og Þorsteinn Már

Af einhverri furðulegri ástæðu sem enginn áttar sig á hefur Sjálfstæðisflokkurinn sem á tyllidögum kennir sig við frjálsan markað tekið ástfóstri við eitt einokunarkerfi í sjávarútvegi.

Ég hlustaði á Illuga Gunnarsson á Útvarpi Sögu í gær reyna að rökstyðja að það þyrfti að breyta nánast og endurskipuleggja flest annað en kvótakerfið í sjávarútvegi. Hann ætti þó að þekkja áhrif kvótakerfisins á byggðina sem fóstraði hann upp á Flateyri. Illugi og aðrir forystumenn í Sjálfstæðisflokknum vilja halda upp óvissu í rekstri opinberra stofnana og algjöru umsátursástandi um rekstur heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Á sama tíma mega þeir ekki heyra á það minnst að hnika einu eða neinu í fiskveiðistjórnunarkerfi landsmanna. Ekki má skerða hár á höfði Þorsteins Más en Illuga Gunnarssyni þykir í lagi að hausinn á Guðna Má fjúki í heilu lagi.

Rökin hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir því að ekki megi breyta neinu eru að það komi í veg fyrir fjárfestingar í sjávarútveginum. Staðreyndin er hins vegar sú að því meiri vissa sem hefur verið um að ónýtu kvótakerfi sé viðhaldið, þeim mun hæfari til veðtöku hafa aflaheimildirnar þótt og skuldir hafa safnast upp hjá greininni meðan búnaðurinn hefur elst.

Grundvallarpurningunni er sjaldan varpað fram: Hvað hafa menn að gera við auknar fjárfestingar ef þorskveiðin verður svipuð og hún var á þriðja áratug síðustu aldar?

Ef menn vilja fá meira líf og meiri fjárfestingu og nýliðun í sjávarútveginn liggur beinast við að láta markaðslögmál gilda um verðlagningu á fiski til vinnslu og sömuleiðis að leita allra leiða til að endurskoða ráðgjöf til að auka veiðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 19.12.2013 - 00:10 - FB ummæli ()

Mjög fá mál eru til umfjöllunar

Í merkilegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir Hrunsins koma ábendingar um hverju þurfi nauðsynlega að breyta í íslensku samfélagi. Ábendingar á borð við að draga þurfi skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála, að leita þurfi leiða til þess að styrkja siðferðisvitund stjórnmálamanna og auka virðingu þeirra fyrir góðum stjórnsiðum.

Mér komu framangreindar ábendingar í hug þegar ég fékk þau skilaboð frá leiðtogum Framsóknarflokksins í Skagafirði að fyrirhugaður fundur Byggðaráðs þann 19. desember félli niður vegna þess að fá brýn mál væru til umfjöllunar.  Staðreyndin er óvart sú að það liggja fyrir fjölmörg mál,  sem brenna mjög á íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar á borð við: framtíð Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki, fjárframlög til Háskólans á Hólum, niðurstöður PISA könnunarinnar, stöðuna í kjaramálum kennara og skipan nýs Sýslumanns á Sauðárkróki.

Kjörnir fulltrúar í sveitarfélaginu eiga að mótmæla harðlega allir sem einn þeirri óvissu sem ríkisstjórnin, undir forystu Framsóknarflokksins elur á, en óþolandi er að ríkisstjórnin haldi áfram umsátursástandi um Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki fram á næsta haust. Það er algerlega óþolanadi gagnvart bæði starfsfólki og Skagfirðingum.

Mögulega hentar það ekki þröngum flokkshagsmunum Framsóknarflokksins til skamms tíma litið að ræða framangreind mál í þeim lýðræðislega kjörnu nefndum og ráðum sem eru til þess bærar og halda frekar „leyndó fundi“ með sérvöldum aðilum.

Ég er aftur á móti viss um að opin lýðræðisleg umræða henti almenningi betur og jú einnig Framsóknarflokknum til lengri tíma litið.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.12.2013 - 11:43 - FB ummæli ()

Áður ærðust Framsóknarmenn!

Nú liggur það fyrir í breytingartillögu við fjárlög næsta árs að ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks ætlar að leggja niður Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki og færa starfsemina inn í stofnun á Akureyri. Í breytingartillögunni kemur fram að ekki er ætluð ein króna til reksturs Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki  og að ný sameinuð stofnun, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, fær lítið brot eða 100 milljón krónur af öllum þeim milljörðum sem ætlað er að auka við fjárveitingar til heilbrigðisþjónustunnar. Augljóst er að smánarleg aukning fjárframlaga er alls ekki nægjanleg til að vega upp á móti fyrirliggjandi halla sameinaðra stofnana sem lagðar verða inn í nýja Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Frekari niðurskurður á starfsemi blasir því við á Norðurlandi.

Á fundi sem sveitarstjórnarfulltrúar Skagafjarðar áttu nýlega með Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra kom skýrt fram að aðförin að Heilbrigðisstofnuninni væri í algjörri andstöðu við íbúa. Ráðherra og þinglið Framsóknarflokksins sem beitir sér nú fyrir því að leggja niður heilbrigðisstofnanirnar gera greinilega ekki neitt með skýrar ályktanir flokksmanna. Merkilegt er að fylgjast með hve lítið fer fyrir framámönnum Framsóknarflokksins á þingi og í sveitarstjórn Skagafjarðar, á borð við Gunnar Braga Sveinsson, þegar verið er að leggja niður Heilbrigðisstofnunarina á Sauðárkróki, og fyrirséð er að draga á enn frekar úr starfseminni á Króknum – en áður nánast ærðust þeir þegar svipaðar hugmyndir voru upp á teningnum.

Áætlanir ríkisstjórnarinnar um sameiningu heilbrigðisstofnana eru mjög vondar fyrir íbúa og starfsfólk enda skapa þær mikla óvissu um  kjölfestu í samfélögunum. Einnig eru þær afar slæmar fyrir skattgreiðendur. Ríkisendurskoðun hefur skrifað þónokkrar skýrslur um hvernig skuli standa að sameiningu ríkisstofnana og er kristaltært að öllum þeim skýrslum og sjónarmiðum sem þar hafa komið fram hefur verið vikið til hliðar.

Í lokin ætla ég í fyrsta sinn að gera orð Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra að mínum en hann hafði þau uppi í grein þar sem hann gagnrýndi síðustu ríkisstjórn fyrir nánast sömu aðgerðir og ríkisstjórn Framsóknarflokksins er að fara í:

„Aðför stjórnvalda að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni er til skammar enda engin rök verið sett fram er styðja framferði stjórnvalda.“

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.12.2013 - 23:35 - FB ummæli ()

Óþolandi ESB?

Yfirlýsing þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns Vestnorræna ráðsins um að helstu viðskiptalönd Íslands væru óþolandi kom í sjálfu sér alls ekki á óvart, svo undarlegt sem það nú er. Stjórnarflokkarnir hafa nefnilega farið þá leið að magna upp einhverja óbeit á Evrópusambandinu í stað þess að rökstyðja það af yfirvegun að Íslandi sé betur borgið utan sambandsins en innan.

Það sem er meira en lítið öfugsnúið við yfirlýsingu þingmannsins sem sett var fram til að mótmæla aðgerðum ESB til að þvinga  Færeyinga til að draga úr síldveiðum í eigin lögsögu var að íslensk stjórnvöld hafa hingað til staðið þétt við bakið á málstað ESB og gegn málatilbúnaði Færeyinga. Steingrímur J. Sigfússon skrifaði færeyska starfsbróður sínum harðort bréf  í mars sl. þar sem að hann lýsti yfir þungum áhyggjum af því að Færeyingar hefðu ákveðið einhliða að auka veiðar sínar á síldinni.  Ég hélt satt að segja, eftir digurbarkalegar yfirlýsingar ráðamanna um að ESB væri óþolandi, að íslensk stjórnvöld hefðu snúið við blaðinu og tekið að styðja málstað Færeyinga.

Svo er hins vegar alls ekki, heldur standa íslensk stjórnvöld enn með málstað ESB og gegn Færeyingum.

Það hefði verið hægur leikur og meiri mannsbragur fyrir íslensk stjórnvöld að sýna sjónarmiðum Færeyinga meiri skilning í síldveiðimálinu þar sem rök Færeyinga eru nánast þau sömu og íslensk stjórnvöld beita gegn löglausri ásælni ESB til að koma í veg fyrir makrílveiðar Íslendinga í eigin efnahagslögsögu.

Færeyingar benda réttilega á að síldin sem glímir nú við fæðuskort dvelur í auknum mæli í lögsögu eyjanna en á þeim tíma sem kvótanum var skipt  upp á milli veiðiþjóða. Síld er gjarnan meðafli með makrílnum og forsenda stóraukinnar makrílveiði var óhjákvæmilega að auka síldveiðar – eða þá að fara í óréttlætanlegt brottkast.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 8.12.2013 - 16:14 - FB ummæli ()

Í ójafnvægi

Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks virðast ekki vera í neinu  jafnvægi í samskiptum sínum við Evrópusambandið. Í stað þess að reyna afmarka umræðu um einstaka ágreiningsefni við deiluefnið sjálft er ítrekað farin sú leið að grípa til stóryrða og tengja ágreiningsefnin öðrum samskiptum Íslands við Evrópusambandið. Aðferðin er stórfurðuleg í ljósi þess að í þeim málum sem brýtur á, á borð við makrílinn og IPA-styrki, hefur Ísland yfirleitt góðan málstað að verja.

Utanríkisráðherra á reglulega góða spretti  í yfirlýsingum um hve forkastanlegt Evrópusambandið sé. Málflutningurinn nálgast það óðfluga að vera á pari við yfirlýsingar kollega hans í Norður-Kóreu um Vesturlönd. Leiðsögn utanríkisráðherra er síðan fylgt fast eftir af þingmönnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og jafnvel reynt að yfirtrompa ráðherrann.

Að mínu viti er þessi vegferð ríkisstjórnarinnar vægast sagt óskynsamleg út frá viðskiptahagsmunum þjóðarinnar en samkvæmt vef Hagstofu Íslands voru 78,3%  af vöruútflutningi þjóðarinnar til hinna „óþolandi“ EES-landa á árinu 2012. Engu líkara er af ybbingi ráðamanna en að þeir hafi enga hugmynd um hver séu helstu viðskiptalönd Íslendinga og jafnvel má ráða að þeir hafi ekki heyrt af ágætum vef Hagstofunnar. Á vefnum kemur ennfremur fram að næst á eftir EES eru önnur Evrópulönd næststærstu kaupendur íslensks varnings en síðan koma BNA með um 4,5% og þáJapan með um 2%.  Stórveldið Kína sem öllu á að redda hér á landi ef marka má tal forystu Framsóknar kemst ekki á blað sem eitt af helstu viðskiptalöndum þjóðarinnar.

Eins og fyrr segir er miklu viturlegra að einangra ágreininginn við Evrópusambandið við þau ágreiningsefni sem deilt er um vegna ágæts málstaðar landsins og ekki síður vegna þeirrar staðreyndar að Ísland er ekki að uppfylla saminginn um Evrópska efnahgassvæðið sem felur í sér frjálst flæði vinnuafls, varnings, þjónustu og fjármagns. Frá hruni hafa fjármagnsflutningar ekki verið frjálsir og verða það ekki fyrirsjáanlega á næstu árum. Evrópusambandið hefur því ærna ástæðu til að taka upp samninginn um EES hvenær sem sambandinu dettur það í hug.

Mögulega er það markmið ríkisstjórnarinnar að rifta EES-samningnum og koma á tvíhliða samningi við Evrópusambandið en þá hefði ég talið að vænlegra að gera það í jákvæðara andrúmslofti en ríkisstjórnin er að magna upp.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.11.2013 - 18:40 - FB ummæli ()

Sprengingarnar og Vg

Afar ólíklegt er að Ríkislögreglustjóra takist að fæla síldina út úr Kolgrafarfirði og í gegnum það nálarauga sem opnast út í Breiðafjörð.

Aðgerðin er örvæntingafull og óþörf – miklu nær væri að veiða síldina í firðinum þar sem hún er innikróuð.  Ein helsta ástæðan fyrir því að veiða ekki, er sú að þá fer síldin ekki í „réttar“ hendur núverandi kvótahafa.  Ekki er sturluð sérhagsmunagæsla bundin við núverandi ríkisstjórn því ekki var sú síðasta heldur upp á marga fiska.

Eflaust er  þjónkun forystu Vg við sérhagsmuni LÍÚ, orsökin fyrir því að hvorki heyrist hósti né stuna frá flokknum græna vegna sprenginga í náttúru Íslands.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur