Sunnudagur 10.10.2010 - 16:41 - FB ummæli ()

Brotajárn Egils

Ég horfði með áhuga á Silfur Egils áðan og það fyrsta sem kom upp í hugann var að það hefði gleymst að bjóða Hreyfingunni.  Þátturinn var hins vegar ekki lengi að breytast í einhvers konar gamalkunnugt  brotajárn þar sem að strax á fyrstu mínútunum hið hefðbundna Fjórflokkakarp tók yfirhöndina.  Þau höfðu skófluna og notuðu hana, illa en mikið.  Að vísu má þar undanskilja að miklu leiti Mörð Árnason sem greinilega veit að það þarf að ræða hlutina í öðru samhengi, en þátturinn var engu að síður skýr vitnisburður um að þingmenn Fjórflokksins virðast að stórum hluta búa í öðrum veruleika en almenningur í landinu.  Mörður fór hins vegar rækilega út af sporinu varðandi Icesave vegna þess að sá samningur sem hann vitnaði til (Svavarssamningurinn) og sem stjórnarmeirihlutinn vildi ná í gegn hefði orðið landinu óbærileg byrði.  Nýjustu fréttir af Icesave eru þær að eftir ýmsar formlegar og óformlegar þreifingar hefur dregið mikið saman með aðilum og niðurstaðan er svo langt frá upprunalegum samningi að nota mætti mælikvarðan „stjarnfræðilega langt“.  Mörður og aðrir áhugamenn um málið mega einfaldlega vera þakklátir fyrir að nokkrir þingmanna VG höfðu kjark til að andæfa.  Það er einfaldlega orðið ansi tuggin staðhæfing að stöðvun Icesave I og II hafi valdið tjóni og það er löngu kominn tími til fyrir þingmenn Samfylkingarinnar að hætta því tuði.  Brotajárns tilvísunin í yfirskrift greinarinnar er því til komin vegna gesta þáttarins, ekki þáttarins sjálfs.  Í þeim ólgusjó sem stjórnmálin hafa verið í síðastliðna viku virðast þó alla vega tveir þingmanna Samfylkingarinnar, þau Mörður Árnason og Valgerður Bjarnadóttir skynja hvað þarf að gera og vonandi hlusta samþingmenn þeirra betur á þau á morgun.

Það kemur sennilega ögurstund í stjórnmálunum snemma í vikunni þegar þar skýrist hvort ríkisstjórninni sé alvara með að fara út í raunhæfar aðgerðir í skuldavanda heimilanna.  Það er vitað hvað þarf að gera og hvernig, hverja þarf að ná samkomulagi við og hvernig má ná því samkomulagi.  Það þarf því ekki að bíða eftir að halda marga fundi með ótal hagsmunaaðilum fram eftir allri vikunni eins og Ögmundur hefur nefnt.  Það þarf að koma yfirlýsing frá stjórnvöldum hvort þau ætla að fara þessa leið eða ekki.  Fundir með hagsmunaaðilum fylgja svo í kjölfarið.  Fulltrúar Hreyfingarinnar og Framsóknarflokksins munu hitta „fimm-ráðherra hópinn“ á mánudagsmorgun þar sem við væntum einhvers konar tímasettrar aðgerðaráætlunar til lausnar vanda heimilanna.  Hagsmunasamtök heimilanna munu hitta þingflokka Samfylkingarinnar og Framsóknarflokks eftir hádegið á mánudag en þá er þingflokksfundadagur.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa þá fundað með öllum flokkum/hreyfingum á þingi, en þau hafa bent á mjög skýrar og færar leiðir til úrlausnar á þessum gríðarlega vanda.  Síðan verður ríkisstjórnarfundur á þriðjudagsmorguninn og í kjölfar hans verður að koma endanlegt svar.

Okkar afstaða er að þegar gerð hefur verið tímasett aðgerðaráætlun og henni hrint í framkvæmt eigi að halda kosningar sem fyrst, að undangenginni athugun á áhuga fyrir tímabundinni utanþingsstjórn.  Það Alþingi sem nú situr þarf að víkja og það brotajárn stjórnmálaflokka sem sýndi sig í Silfri Egils í dag staðfesti það að Fjórflokkurinn er að stórum hluta til einhvers konar brotajárnshaugur.  Það hefur ekki farið fram nein endurnýjun á hugsun innan flokkana eftir hrunið nema að hluta til hjá Framsóknarflokknum, heldur hefur einungis verið skipt um kennitölur á sömu gömlu þingdraugunum og voru fyrir hrun.  Hvað svo sem segja má um æskilegan pólitískan stöðugleika þá verður almenningur að fá tækifæri til að þvo af þann smánarblett sem féll á Alþingi, af völdum þingmanna, þegar stór hluti þingmanna greiddi atkvæði úr algerlega vanhæfri stöðu í atkvæðagreiðslunni um ráðherraábyrgðina þann 28. september.  Þingmenn munu nefnilega ekki gera, né geta það sjálfir og allt tal um samtöðu, þjóðstjórnir og breytt verklag verður ekki skilið nema sem hvert annað yfirskin fyrir áframhaldandi völd.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.10.2010 - 15:10 - FB ummæli ()

Skuldavandi heimilanna

Sjaldan, og sennilega aldrei, hefur íslenskt samfélag staðið frammi fyrir eins alvarlegu efnahags- og samfélagslegu vandamáli og því sem skuldir heimilanna vegna hrunsins er orðið að.  Samkvæmt spám er gert ráð fyrir að með sama áframahaldi verði 73.000 heimili orðin eignalaus hvað varðar eigið húsnæði árið 2011 eða um 62% allra heimila í landinu.  Það er vitað og var vitað frá upphafi, að hrunið væri af slíkri stærðargráðu að það væri óvinnandi vegur að leysa úr vanda heimilana með sértækum aðgerðum fyrir hvert heimili og að almennar aðgerðir þyrftu að koma til.  Aðferðir ríkisstjórnarinnar hafa ekki dugað og öllum tillögum annarra flokka á þingi hefur verið hafnað.

Hreyfingin ásamt öðrum hefur lagt áherslu á forsendubrestinn sem varð á öllum lánasamningum við hrunið og að vísitöluhækkanir íbúðalána yrðu færðar aftur til ársbyrjunar 2008 og að gengistryggðum lánum yrði breytt í verðtryggð íslensk lán og það sama gert við þau.  Við höfum einnig stutt s.k. „Lyklafrumvarp“ Lilju Mósesdóttur (sjá hér) sem takmarkar aðför lánveitenda við þá eign sem veðið er tekið í og frumvarp um að kröfuréttindi fyrnist á fjórum árum þannig að ekki sé hægt að elta skuldara ævilangt með enduruppvakningu krafna (sjá hér).  Við höfum krafist stöðvunar á nauðungaruppboðum þar til fyrir liggi tímasett aðgerðaráætlun um lausn á þessum skuldavanda og við höfum krafist afnáms verðtryggingar, en núverandi skuldavandi heimila er annað tilvikið á 25 árum þar sem þúsundir fjölskyldna tapa öllu sínu vegna verðtryggingarinnar.

Nokkrir stjórnarnþingmenn Vinstri-Grænna (Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson) og einn þingmaður Samfylkingarinnar (Helgi Hjörvar) hafa verið að stórum hluta sama sinnis, þ.e. að það þurfi að koma til ofangreindra aðgerða ef á að takast að leysa málið.  Þessi sjónarmið hafa hins vegar ekki komist til framkvæmda vegna andstöðu Samfylkingarinnar og formanns Vinstri-Grænna.  Þau virðast bara ekki skilja vandamálið og þessi vanhæfni stjórnvalda til að taka á vandanum er að leiða samfélagið fram af bjargbrúninni.  Almenningur krefst hins vegar aðgerða og hefur lýst yfir vanþóknun sinni á sitjandi stjórnvöldum, bæði við þingsetninguna þann 1. október og svo með rækilegum hætti með „Tunnumótmælunum“ við Alþingishúsið þegar forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína s.l. mánudag.  Þetta voru stærstu og jafnframt alvarlegustu mótmæli í sögu landsins, en þrátt fyrir það töluðu Jóhanna og Steingrímur eins og þau væru í einhverju allt öðrum veruleika.

Síðan þá hefur ríkisstjórnin eitthvað verið að rakna úr rotinu og óskaði eftir fundi á þriðjudeginum eftir mótmælin með fulltrúum stjórnarandstöðunnar.  Á þeim fund kom ekkert fram um að þau væru tilbúin til að grípa til aðgerða heldur boðuðu þau stofnun stýrihópa og vinnuhópa og fleiri funda um málið.  Þrátt fyrir að gengið væri ákveðið að þeim um hvort þau væri tilbúin að gera eitthvað afgerandi í málinu fengust engin svör og voru vegna þess engin tilefni til frekari funda.  Eftir fund með Hagsmunasamtökum heimilana á þriðjudag virtist sem ríkisstjórninni væri aðeins að snúast hugur og því sótti ég s.k. „fimm-ráðherra fund“ í gærmorgun ásamt fulltrúa Framsóknarflokksins.  Sá fundur var frekar rýr og þó að Ögmundur Jónasson væri greinilega að reyna að snúa skipinu var greinilegt á hinum ráðherrunum að þau réru ekki í sömu átt.  Við fórum því af fundinum og vorum sammála um að mæta aftur næsta mánudag með því fororði að á þeim fundi yrði að liggja fyrir einhvers konar timasett verkáætlun um lausn á þessu gríðarlega vandamáli, að öðrum kosti væri betra heima setið.

Í umræðum í þinginu  síðar um daginn kom fram að Ögmundur mun reyna að stöðva nauðungarsölur, alla vega að einhverju marki.  Ég tók þátt í þeirri umræðu og fór yfir málið og minnti á hvað þarf að gera (sjá hér).  Við munum svo hitta Hagsmunasamtök heimilanna síðar í dag og reyna að halda áfram að koma vitrænum sjónarmiðum á framfæri á fundi með „fimm-ráðherra hópnum“ á mánudagsmorgun.  Ef hins vegar ekki liggur fyrir þá hvernig og hvenær ríksistjórnin ætlar að taka á málinu þá lít ég svo á að þetta útspil sé bara enn eitt sviðsett leikritið.  Ég vona svo sannarlega að svo sé ekki en sporin hræða og bílasöluræður/yfirlýsingar ráðherra hingað til (utan Ögmundar) gefa ekki mikla von um stefnubreytingu.

Við höfum rætt það í Hreyfingunni að í framhaldi af verkáætlun í skuldavanda heimilana þyrfti að boða til kosninga og fá fólk með nýtt umboð inn á þing vegna þess algera vantrausts sem ríkir í garð Alþingis.  Ég tel það heppilega leið en það kemur í ljós nú um eða eftir helgina hvort við krefjumst hennar.  Ef hins vegar ekki verður tekið með afgerandi hætti á skuldavandanum og ekki verður boðað til kosninga þá held ég að það sé tímabært að dusta rykið af hugmynd fyrrverandi forsætisráðherra Geirs Haarde og biðja Íslandi guðs blessunar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.10.2010 - 02:21 - FB ummæli ()

Stefnuræða í miðri byltingu.

Þetta var skrýtinn dagur á Alþingi í kvöld.  Þúsundir manna, átta til tíu þúsund segir lögreglan, mótmæltu í stærstu og hávaðasömustu mótmælum Íslandssögunnar, börðu 200 lítra olíutunnur og köstuðu drasli í Alþingishúsið.  Mótmæli sem skákuðu jafnvel 20. janúar 2009, upphafi hins svo kallaða „sex daga stríðs“ þar sem reiptog mótmælenda, lögreglu og stjórnmálamanna leiddi til afsagnar ríksstjórnar Geirs Haarde eftir sex daga læti.

Undir hávaðanum og inni í víggirtu þinghúsinu var gerð tilraun til að halda þingfund um stefnuræðu forsætisráðherra.  Tilraun segi ég því ræður flestra voru slíkt kall út í tómið að grátlegt var að heyra og stefnuræðan var innantóm.  Þó var ljóst að utan þingmanna Hreyfingarinnar voru þrír aðrir sem gerðu sér grein fyrir ástandinu og merkilegt nokk tveir af þeim voru stjórnarþingmenn en þau Valgerður Bjarnadóttir og Ólafur Gunnarsson töluðu á skynsamari nótum en ég hef heyrt þingmenn gera lengi.   Einnig var Sigmundur Davíð með á nótunum.  Það er því ekki öll von úti enn að stjórnarflokkarnir slíti samstarfinu áður en allt fer í bál og brand.  Það var hins vegar grátlegt að hlusta á forystumenn ríkisstjórnarinnar tala inn í tómið undir dúndrandi hávaða.  Ekki sást vel út um einn einasta glugga sem flestir voru sprungnir og voru kámugir í eggjum og málningu.  Úti við grillti óljóst í fjöldann og bálköstinn.

Við vorum með varaþingmann Birgittu, hann Badda (Baldvin Jónsson) risajeppamann sem flutti sína jómfrúarræðu algerlega á trakkinu á sínum fyrsta degi á þinginu.  Ræður okkar allra eru hér:  Ræðan mínræða Badda og ræða Margrétar.

Ríkisstjórnin er búin að vera, verk hennar frá upphafi var að vísu nánast óvinnandi en mestu mistökin voru að strax frá upphafi sló hún á útrétta samstarfshönd annarra flokka.  Þau vildu ráða og ráða ein.  Þangað til áðan að það kom smá ljúfsár ósk um meira samstarf.

Sem dæmi get ég bent á að fyrir þinghlé síðastliðið vor er samningaviðræður voru í gangi um 101 mál sem ríkisstjórnin vildi koma í gegn og bað um gott veður fyrir, lagði  Hreyfingin fram eina ósk.  Ósk um að í frumvarpið um stjórnlagaþingið færi inn ákvæði um að niðurstöður þess færu fyrst í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þær færu til Alþinigs til meðferðar. Þetta var hins vegar einni ósk of mikið fyrir þau og var ekki tekið í mál og hvorki Jóhanna né Steingrímur, þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni, sáu þá og sjá varla enn, nokkra ástæðu til að þjóðin hafi eitthvað að segja um niðurstöður stjórnlagaþingsins.  Svona var nú samstarfsviljinn.  Það var svo ekki fyrr en eftir harðfylgi Ögmundar Jónassonar í Allsherjarnefnd að það ákvæði fékkst inn að stjórnlagaþingið sjálft tæki ákvörðun um hvaða leið niðurstöður þess færu.

Það verður því fróðlegt að sjá hvað þau skilgreina sem samstarf.  Krafa almennings er kosningar og hrunverja burt af þingi og róttæka leiðréttingu á skuldavanda heimilanna.  Eftir slíkt hrun sem gerðist hér er það ekki nema eðlilegt að það taki a.m.k. tvennar ef ekki þrennar kosningar til að hreinsa út hrunverjana og hrunhugsunina.  Að halda áfram með sömu áhöfn er ekki annað en ávísun á annað strand.  Við höfum talað fyrir því sem við köllum „þjóðstjórn án Sjálfstæðisflokksins“ enda vandséð hvernig sá flokkur getur af siðferðisástæðum einum saman tekið þátt í að stjórna hér landinu.  Þótt vilji allra væri ef til vill fyrir hendi er vandséð hvernig þessir flokkar gætu náð saman nema þá um einhver ákveðin lágmarksatriði er snúa að vanda heimilana.

Fjárlagaumræðan er á morgun og þar sem fjárlög eru aðalsmerki hverrar ríkisstjórnar mun kom fljótt í ljós hvað menn vilja teygja sig langt.  Sjálfur tel ég að það þurfi að hreinsa út hrunverjana fyrst og það gerist ekki nema með kosningum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.10.2010 - 09:19 - FB ummæli ()

Afrek Alþingis og nýju fötin keisarans.

Hvað varð um Réttlæti?  Hvað varð um Loforð?  Hvað varð um Heiðarleika?  Hvað varð um Ábyrgð?  Hvað varð um Jóhönnu?  Hvað varð um Vinstri-græn?

Hvað varð um lýðræðisumbæturnar?  Persónukjörið næst ekki í gegn.  Lög um þjóðaratkvæðagreiðslur fást ekki samþykkt.  Fjármál stjórnmálaflokka eru áfram gjörspillt með nýjum lögum fjórflokksins.  „Úrræðin“ í skuldavanda heimilana eru á við pyntingarklefa.  Dómskerfið allt virðist vera í herferð gegn réttlæti.  Stjórnsýslan er í herferð gegn almenningi.  Bankakerfið afskrifar milljarða til pólitískt tengdra sægreifa en hendir fjölskyldum út vegna nokkurra milljóna.  Þingmenn á spena fjármálafyrirtækja sitja enn á þingi.  Skuldir þingmanns sem verða ekki greiddar duga fyrir árslaunum verkamanns í rúmlega fimm hundruð hundruð ár eða fyrir 10 milljon króna afskrift af íbúðalánum um 170 fjölskyldna.  Fyrrum samráðherrar og samþingmenn Hrunstjórnarinnar og meira að segja forseti Alþingis hafna því að gera upp Hrunið og líkleg lögbrot ráðherra þess.  Hva?  Jú, þau eru félagar og vinir, pólitísk yfirstétt.  Þjóðin treystir ekki Alþingi.

Í dag á svo bara að halda áfram á sömu braut með setningu nýs löggjafarþings eins og ekkert sé.  Bara si svona.  Sömu þingmenn og sömu ráðherrrar með meira að segja biskupinn með sér í broddi fylkingar sækja sér guðsblessun í Þjóðkirkjuna (já, þá sömu og þið vitið) og hylla svo sjálfa sig í þinghúsinu á eftir.  „Hrunið?  Ha?  Það.  Já þú meinar. En við erum búin að afgreiða það.  Við erum íslensk stjórnmálamenni.“

Ágætu samþingmenn, ágætu samlandar.  Seremoníurnar í dag eru vel skipulagðar og vel varðar af lögreglu en keisarinn er samt ekki í neinum fötum.  Meðvirknin og firringin verður að hætta.  Í dag viðrar vel til útiverka.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.9.2010 - 23:57 - FB ummæli ()

Ráðherraábyrgð IV, Alþingi bregst.

Alþingi brást hlutverki sínu í dag þegar það klúðraði afgreiðslu þingsályktunartillögu þeirrar þingmannanefndar sem Alþingi sjálft kaus til að fjalla um þátt ráðherra og þátt Alþingis í hruninu.  Þetta var endapunkturinn á sérstaklega dapurlegu ferli þar sem meirihluti þingmanna einfaldlega  hafnaði því að þrír af þeim fjórum ráðherrum sem þingmannanefndin lagði til að færu fyrir Landsdóm bæru nokkra ábyrgð.  Sjálfur var ég með stutta ræðu í þinginu svona í lokin þar sem ég varaði við þessari afgreiðslu, sjá hér.  Ég hef búið við þau forréttindi að geta hlustað á allar umræður um þingmál á fullu kaupi og hef lagt mig sérstaklega fram í þessu máli að fylgjast vel með því sem þingmenn hafa haft fram að færa.  Það verður því miður að segjast eins og er að enginn, enginn þeirra þingmanna sem greiddi atkvæði gegn ábyrgð ráðherrana gat fært fyrir því málefnaleg rök sem stóðust, borið saman við þau rök sem þingmannanefndin lagði fram.  Það varð ljóst strax í upphafi umræðunnar að Sjálfstæðisflokkurinn ætlað gegn niðurstöðu þingmannanefndarinnar alveg sama hvað.  Þrátt fyrir sextán þingmenn og marga þeirra lögfræðinga, var málflutningur þeirra að mestu leiti út og suður um eitthvað sem kom þessu máli ekkert við eða þá einhvers konar alhæfingar í þá veru að þeir höfnuðu röksemdum þingmannanefndarinnar, punktur.  Þó gera megi ráð fyrir að eftir tveggja áratuga Davíðsku sem eyðilagði alla hæfileika sjálfstæðismanna til að eiga í rökræðum séu þeir einhvern tíma að ná sér á strik, þá hafa þeir ekki ennþá náð að tileinka sér aðferðir rökræðuhefðar, en eru enn fastir í þeim hroka og yfirgangi Davíðskunnar sem gerði þeim kleyft að vera með innantómar stórkarlalegar yfirlýsingar og komast upp með það.

Þetta sama má segja um þá þingmenn og ráðherra Samfylkingunnar sem reyndu að vernda sitt fólk.  Málflutningur þeirra var alveg á sömu nótum og sjálfstæðismanna og það átti að afgreiða málið með yfirlýsingum og illa rökstuddum málflutningi.  Hvað Samfylkinguna varðar varð ég sérstaklega fyrir vonbrigðum með forseta Alþingis Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur sem greiddi atkvæði gegn öllum tillögunum, en það var einmitt Ásta sem beitti sér fyrir því sem forseti þingsins að þetta mál yrði afgreitt með þessum hætti og þingmannanefndin var barn Ástu meira en nokkurs annars.  Samt hélt hún ekki einustu ræðu um ráðherrábyrgðina og rökstuddi aldrei hvers vegna hún greiddi atkvæði gegn tillögum nefndarinnar um ábyrgð ráðherra.  Þetta er ekki hægt að skilja á annan veg en að forseti þingsins hafi lýst algeru vantrausti á þingmannanefndina hvað þessa niðurstöðu nefndarinnar varðar og sem hún þó bar ábyrgð á.

Þegar lesið er í atkvæðin kemur í ljós að hér er um ræða samtryggingu hrunstjórnarþingmanna og hrunstjórnarráðherra meira en nokkurt annað mynstur þó leiða megi líkur að því að vinskapur og ættarsaga pólitískrar yfirstéttar hafi líka ráðið ferðinni í sumum tilfellum.  Það sem er þó verst er að Alþingi ákvað í dag að hvað stjórnmálamenn varðar beri að sópa hruninu undir teppið og gera þá stikkfrí og örlög Geirs Haarde í atkvæðagreiðslunni breyta þar í raun engu um.  Uppgjöri við hrunið er því ekki lokið og sú ætlan ríkisstjórnarinnar og þess þingliðs sem henni veitir stuðning að það sé hægt að setja hér nýtt þing þann 1. október næstkomandi eins og ekkert hafi í skorist er í meira lagi undarleg.

Alþingi er alveg rúið trausti og það ber að sjálfsögðu að leyfa almenningi að segja álit sitt á þessum stjórnmálum og þessu stjórnarfari strax með því að boða til kosninga.  Það er ekki endilega gleðiefni eða heppiegt að hafa kosningar strax og við í Hreyfingunni erum ekki frekar en aðrir undir það búin.  En það skiptir ekki máli.  Nú þegar niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis liggja fyrir, þegar niðurstöður og tillögur þingmannanefndar Alþingis liggja fyrir og þegar liggur fyrir með hvaða augum Alþingi lítur ábyrgð stjórnmálamanna, en ekkert af þessu var ljóst fyrir kosningarnar vori 2009, þá er það einfaldlega eðlilegt skref að almenningur fái að segja álit sitt í kosningum.  Annað er bara hreinn og beinn yfirgangur.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.9.2010 - 09:11 - FB ummæli ()

Ráðherraábyrgð III, lokadagurinn

Framundan er atkvæðagreiðsla um hvort nokkrir stjórnmálamenn íslenskir séu ábyrgir gerða sinna eða aðgerðaleysis í aðdraganda hrunsins í október 2008.  Þingmannanefndin undir forystu þingmanns Atla Gíslasonar hefur skilað ef sér tillögum um að útkljáð skuli um ábyrgð fjögurra ráðherra fyrir Landsdómi.  Tillögur þingmannanefndarinnar eru mjög ítarlegar og vel rökstuddar og eftir mikla umræðu og gagnrýni bæði hér í þingsal og utan þinghússins hefur enn ekki komið fram sannfærandi efnisleg gagnrýni sem gerir þingmönnum kleyft að hafna tillögunum á efnislegum grunni.

Þingmenn sem andsnúnir eru þessum tillögum hafa byggt málflutning sinn á persónulegum skoðunum sínum, á því að málið snúist um eitthvað allt annað en það raunverulega gerir svo sem um gömul lög eða of fáa ráðherra.  Þeir hafa byggt málflutning sinn á persónulegum tengslum sínum við viðkomandi ráðherra, eða á hinu gamalkunna flokksræði sem gegnsýrt hefur lýðræðið á Íslandi frá upphafi Lýðveldisins og meðal annnars leitt til víðtæks samtryggingarkerfis hins svo kallað fjórflokks um ákveðin mál.

Þetta sama flokksræði leiddi til þess að hér varð til pólitísk yfirstétt sem gerði sjálfa sig óábyrga í gerðum sínum og sem birtist meðal annars í slímsetu þingmanna vegna mála sem í öllum öðrum nágrannalöndum hefðu leitt til afsagnar þeirra.  Þessi sama pólitíska yfirstétt setti sér að auki svo eigin lög um fyrningarfrest ráðherrábyrgðar sem gerir ráðherra stikkfrí frá ábyrgð á gjörðum sínum eftir aðeins þrjú ár.  Hvaðan þessi hugmynd um þriggja ára fyrningarfrest kemur veit ég ekki, en ekkert, ekkert sýnir betur en þetta ákvæði að hér hefur ríkt pólitísk yfirstétt sem hingað til hefur fundist sjálfsagt að vera stikkfrí þegar kemur að eigin ábyrgð.  Það er því ekkert annað en hlálegt að hlusta á fyrrum ráðherra hrunstjórnarinnar og marga þá þingmenn sem studdu hana tala út og suður um þetta mál.

Ef gera á hrunið upp með sómasamlegum hætti ættu miklu fleiri ráðherrar og fjölmargir þingmenn einnig að svara til saka, auk þessara fjögurra ráðherra sem tilgreindir eru í tillögum þingmannanefndarinnar.  Löggjöf okkar býður hins vegar ekki upp á það og útskýringar þingmannanefndarinnar á því eru góðar og gildar.  Ef hins vegar siðferði og ábyrgð væru eðlilegur hluti af því að vera ráðherra og þingmaður á Íslandi þá ættu að mínu mati þeir þrír fyrrverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem nú eru þingmenn og þeir fimm fyrrverandi og/eða núverandi ráðherrar Samfylkingar sem sumir eru nú þingmenn, skilyrðislaust að víkja úr embætti og af þingi.

Allir þingmenn stjórnarflokkana sem studdu þá ríkisstjórn ættu einnig að sjálfsögðu að íhuga stöðu sína, ekki síst þeir þingmenn Samfylkingar sem voru á þingflokksfundunum tveimur í febrúar 2008 þar sem yfirvofandi bankahrun var kynnt.  Þeir þingmenn, í stað þess að upplýsa kjósendur sína um yfirvofandi hættu héldu því leyndu fyrir þeim og horfðu á almenning mánuðum saman taka íbúðalán á kjörum sem vitað var að aldrei myndu standast og myndu keyra þessar sömu fjölskyldur í þrot á örskotsstundu.

Staðan er hinsvegar sú að allir, allir sem komu fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis á sínum tíma, alls 147, sögðust enga ábyrgð bera og allir sem skiluðu inn svörum til þingmannanefndarinnar sögðust enga ábyrgð bera.  Þetta er dapurleg staðreynd um algert ábyrgðarleysi í íslenskum stjórnmálum og algert ábyrgðarleysi í íslenskri stjórnsýslu.

Ef tillögur þingmannanefndarinnar verða ekki samþykktar á Alþingi í dag verður þetta algera ábyrgðarleysi stjórnmálamanna endanlega staðfest af Alþingi. Munu þingmenn virkilega standa fyrir því að algert ábyrgðarleysi og jafnvel glæpsamlegt athæfi ráðherra fái ekki viðeigandi lögskipaða meðferð og fari ekki fyrir viðeigandi dómstól?  Það kemur í ljós í dag.

Hvað Samfylkinguna varðar þá komu tíu nýir þingmenn inn á þing fyrir Samfylkinguna í síðustu kosningum.  Tvö þeirra, fulltrúarnir í þingmannanefndinni, hafa sýnt mikinn kjark í þessu máli en hin vil ég spyrja eftirfarandi.  Komu þau hér inn á þing til að sópa hruninu undir teppið, og ef svo er.  Hvað ætla þau þá að gera næst.  Þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem vilja koma í veg fyrir þessa vel rökstuddu og eðlilegu málsmeðferð verða að hugsa mál sitt og hvort þeir eigi yfir höfuð að vera hér í þingsalnum í dag.  Persónuleg tengsl þeirra við fyrrum ráðherra, samstarfsmenn til margra ára eða afnvel áratuga eða miskilningur á því um hvað þetta mál snýst, má ekki verða til þess að þeir reyni að stöðva þetta mál.  Við þá, þessa þingmenn Samfylkingarinnar vil ég segja:  Hér er um fyllilega eðlileg vanhæfisskilyrði að ræða og ykkur ber að vera heima í dag.  Þó vanhæfisskilyrðin séu ekki lagaleg þá verða menn að hafa í huga að þótt það þurfi lög til að byggja samfélög mannanna og tryggja ákveðna funksjón þeirra þá eru þessi sömu samfélög aldrei byggð á lögum eingöngu.  Alls konar önnur ekki síður mikilvæg viðmið, til dæmis siðferðileg, eru einnig notuð sem mælikvarðar og útskýringar á athöfnum mannana.  Það eru þau viðmið eiga einnig við í dag.

Um Sjálfstæðisflokkinn þarf ekki að hafa mörg orð.  Sú botnlausa leiðtogadýrkun sem alla tíð hefur verið aðal Sjálfstæðismanna gerir þeim ókleyft að taka faglega og siðferðilega afstöðu í þessu máli.  Ágætur maður lét eitt sinn svo um mælt að þótt leiðtogar Sjálfstæðisflokksins yrðu fundnir sekir um mannát á almannafæri myndu samt um þriðjungur þjóðarinnar kjósa þá.  Af sextán núverandi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eru þrettán ýmist ráðherrar hrunstjórnarninnar eða þingmenn sem studdu hana, og það með ráðum og dáð.  Afstaða þeirra allra til þessa máls er einfaldlega dæmi um forherðingu þeirra sem gripnir eru með góssið á leiðinni út úr búðinni þar sem þrætt er fyrir og lagst í afneitun fram í rauðan dauðan.  Verði þeim að góðu, þetta þekkja þeir best.  Alþingis vegna, kjósenda sinna vegna og ábyrgðar sinnar vegna, ættu Sjálfstæðismenn hins vegar að sjálfsögðu að sitja hjá, eða sitja heima í dag.

Og svo þurfa Vinstri-grænir náttúrulega að svara því hvort og þá á hvaða forsendum þeir haldi áfram þessu ríkisstjórnarsamstarfi.  Ætla  þingmenn VG virkilega að sitja í ríkisstjórn hverra hluti þingmannaliðs og jafnvel forsætisráðherran sjálf, hafnar því að gera upp hrunið?  Vonandi hafa þeir það sjálfsagða siðferðisþrek sem til þarf til að krefjast þá kosninga við slíkar aðstæður.

Og talandi um kosningar.  Það má færa góð og gild rök fyrir því að hvernig svo sem málin fara með ráðherraábyrgðina í dag að þá eigi almenningur skýlausan rétt á nýjum kosningum.  Þetta segi ég vegna þess að með tilliti til niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis og með tilliti til niðurstöðu þingmannanefndarinnar þá hefur komið skýrt í ljós hvað var hér í gangi.  Almenningur á núna, þegar þessar upplýsingar liggja fyrir skýlausan rétt til að segja álit sitt á ríkjandi stjórnvöldum, á fyrrverandi ráðherrum og á þeim þingmönnum sem studdu þá ríkisstjórn og á því stjórnarfari sem verið hefur hér við lýði undanfarin ár og hefur svo lítið breyst.  Kosningar til Alþingis sem fyrst væru því hið eðlilega lýðræðislega framhald í íslenskum stjórnmálum nú þegar þessum degi lýkur.

Þingmenn koma saman í dag og eins og endranær eru þeir hér í umboði kjósenda sinna.  Umboði sem þeim ber að fara vel með og sem þeim var veitt fyrir aðeins um sextán mánuðum síðan.  Í því umboði og engra annarra munu þeir greiða atkvæði í dag.

Alla þá þingmenn sem einhverra hluta vegna telja sig þurfa að greiða atkvæði gegn því að stjórnmálamenn þurfi að axla ábyrgð og mæta með hugsanleg brot sín fyrir dómstól vil ég því spyrja:  Komuð þið hingað inn á Alþingi vorið 2009 til þess að sópa hruninu undir teppið?  Til þess að koma í veg fyrir að hrunið yrði gert upp?  Koma í veg fyrir uppgjör mesta efnahags- stjórnmála- og siðferðishruns Íslandssögunnar.  Því það er einmitt það sem verið er að gera með því að stöðva þessar tillögur.  Það er verið að afgreiða pólitíska ábyrgð á hruninu, af hálfu Alþingis Íslendinga, með því að sópa því undir teppið.  Og ef það verður gert, ef að þingmenn stöðva þetta mál þá spyr ég: Hvað ætla þau þá að gera að því loknu?  Hvað svo?  Hvað næst ágætu þingmenn?  Á að reyna að setja Alþingi að nýju á föstudaginn 1. október eins og ekkert hafi í skorist?  Dettur einhverjum virkilega í huga að það sé hægt?  Hvað ætla menn að segja?  „Ha, já hrunið, við erum nú búin að afgreiða það.“   Bara si svona.

Ég hef engan sérstakan áhuga á að fyrrverandi ráðherrar, eða þingmenn væri það hægt, verði dæmdir til refsingar eða sekta.  Það varð hér hins vegar efnahagslegt, pólitískt, og siðferðilegt hrun og frammi fyrri þeirri staðreynd stöndum við.  Á því bera margir ábyrgð, mismunandi ábyrgð og sumir meira en aðrir.  Hver sú ábyrgð nákvæmlega er og hverjir bera hana er hins vegar annarra en okkar þingmanna að finna út og dæma.  Það er hins vegar okkar þingmanna að sjá til þess að eðlilegur farvegur fyrir slík mál sé til staðar og sú löggjöf sem til þarf verði notuð.  Sú vinna sem þingmannanefnd Alþingis hefur unnið er fordæmalaus, hún er vönduð og niðurstða nefndarinnar er rétt og eðlileg og þingmannanefndin og formaður hennar eiga miklar þakkir skilið fyrir starf sitt.  Þess vegna má það ekki gerast í dag að Alþingismenn láti persónuleg sjónarmið sín, pólitísk sjónarmið sín, eða órökrétt sjónarmið ráða því hvernig þeir greiða atkvæði.  Hér þurfa menn að vanda sig, vanda sig vel og taka efnislega afstöðu til málsins eða segja sig frá málinu ella.  Halda sig heima.  Hér er nefnilega meira í húfi en nokkru sinni fyrr.  Hér er framtíð sjálfs Alþingis í húfi.

Þetta er stóra tækifærið sem Alþingi hefur til að standa undir nafni sem æðsta stofnun lýðveldisins.  Þetta er stóra tækifærið sem Alþingi hefur til að efla traust þjóðarinnar á því að nýju.  Þetta er stóra tækifærið.  En þetta er jafnframt, ef illa fer, líklega einnig síðasta tækifærið.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.9.2010 - 09:17 - FB ummæli ()

Ráðherraábyrgð II

Þá er fyrri umræðu lokið um þingsályktunartillögur þingmannanefndarinnar um hvort eigi að sækja til saka fjóra (þrjá) fyrrverandi ráðherra í hrunstjórn Geirs Haarde.  Sjálfur talaði ég í gær og  hér er tengill á ræðuna.  Það var merkilegt að fylgjast með umræðunni og það kom skýrt fram hversu umræðuhefðin hér á landi er oft innihaldslaus og byggð á skoðunum og tilfiningum en ekki athugunum, mati og röksemdarfærslum.  Sjálfstæðismenn töluðu í löngu máli um eitthvað allt annað en fjallað er um í tillögunum og Samfylkingingarfólk var svipað en þó meira á einhvers konar „egó flippi“ þar sem „hver þingmaður verður að líta í eigin barm og mynda sér skoðun“ bla, bla, bla.

Staðan er vissulega ekki eins og best verður á kosið vegna fyrningarákvæðanna í ráðherraábyrgðarlögunum sem gera ráðherra stikk frí eftir þrjú ár.  Það fyrningarákvæði er skólabókardæmi um hvernig pólitísk yfirstétt í þessu landi hefur skipulega hagað löggjöf þannig að hún sleppi við ábyrgð og það hefur henni tekist.  Það er samt ekki hægt að réttlæta það að lagaleg undankomuleið nokkurra eigi að gera alla stikk frí.  Tillögur þingmannanefndarinnar eru skýrar og vel rökstuddar og tilraunir þingmanna og ráðherra hrunstjórnarninnar til að gera lítið úr þeim eru tilraunir til að bjarga eigin fólki og flokkum frá ábyrgð á hruninu.

Það eru enn 23 þingmenn á Alþingi sem voru stuðningsmenn hrunstjórnarinnar, 10 úr Samfylkingunni og 13 úr Sjáfstæðisflokknum og af þessum eru sjö enn á þingi sem voru ráðherrar í hrunstjórninni.  Þar trónir forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hæst allra.  Það er ekki mikil von til þess að Alþingi nái að þokast nægilega mikið fram á við nægilega fljótt til að öðlast aftur traust þjóðarinnar með þetta fólk innanborðs.  Sérstaklega þegar nú hefur komið í ljós að það hefur engann áhuga á að axla pólitsíska ábyrgð.  Þess vegna höfum við í Hreyfingunni lagt áherslu á kosningar nú þegar skýrsla og niðurstöður rannsóknarnefndarinnar liggja fyrir og þegar skýrsla þingmannanefndar Alþingis liggur fyrir, en þar kemur skýrt fram hver gerði hvað, hver vissi hvað og hvenær þau vissu það.

Ábyrgðin er skýr og þó hún sé ekki í öllum tilfellum lagaleg þá er hún alltaf pólitísk og nú á almenningur að fá tækifæri til að segja álit sitt á þessum stjórnmálamönnum og þessu stjórnarfari sem var hér og sem 23 menningarnir rígalda ennþá í.  Það sorglega er að hinir tíu nýju þingmenn Samfylkingar sem komu inn á þing í síðustu kosningum innmúruðust á fyrsta degi í flokks- og oddvitaræðið og virðast átta þeirra enga grein gera sér, eða vilja ekki viðurkenna, um hvað málið snýst.

Í dag verða greidd atkvæði um hvort tillögunar fara aftur til þingmannanefndarinnar milli fyrstu og annarrar umræðu eins og venja er til með mál, sem fara aftur til nefndarinnar sem flytur þau, eða hvort plott Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks gengur upp og málin verði send til Allsherjarnefndar þar sem þau verða eyðilögð.  Verði svo þarf Samfylkingin að svara spurningunni: Hvað svo?  Það verður nefnilega eftir að gera upp hrunið.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.9.2010 - 10:48 - FB ummæli ()

Ráðherraábyrgð I

Það fór ekki beint vel af stað umræðan um ráðherraábyrgð og Landsdóm í þinginu s.l. föstudag.  Mikill grátkór Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var nú kominn með gagnsæi á heilann og taldi ófært að umræðan hæfist án þess þingmenn væru búnir að fá að sjá öll gögn málsins og að fresta yrði umræðunni þangað til.  Gott og vel, gagnsæi er eitthvað sem við í Hreyfingunni höfum talað mikið um en oftast fyrir daufum eyrum inn á þingi og fagnaðarefni að aðrir þingmenn skuli nú loksins gera sér grein fyrir mikilvægi þess.  Því miður má þó leiða líkur að því í þessu tilviki að krafan um gagnsæi sé hugsanlega sprottin af einhverju öðru en djúpstæðum áhuga á fyrirbærinu.

Fyrir það fyrsta þá hefur legið fyrir síðan í apríl hverjar verklagsreglur þingmannanefndarinnar yrðu og þar var tillögum Hreyfingarinnar um gagnsæi og opna fundi hafnað af öllum nefndarmönnum fjórflokksins og engir aðrir þingmenn gerðu athugasemdir við þær verklagsreglur.  Í öðru lagi þá eiga bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking tvo fulltrúa hver í nefndinni sem hafa undir höndum allar þær upplýsingar sem þarf og eru sérfræðingar flokkana í málinu og áttu að kynna málið fyrir þingflokkum á sérstökum þingflokksfundum síðastliðinn laugardag.  Í þriðja lagi töluðu þarna þingmenn og ráðherrar (fyrrverandi) hrunstjórnarinnar sem flest vissu þegar í febrúar 2008 að hrun væri yfirvofandi en þögðu um það þunnu hljóði og hugðu aldrei að gagnsæi og almannahag fram að hruninu í október það ár, þingmenn og ráðherrar sem á sama tíma horfðu á þúsundir manna taka lán á kjörum sem þau vissi að myndu setja fólkið lóðbeint á hausinn þegar hrunið kæmi.  Í fjórða lagi greiddu allir þingmenn á Alþingi nema þingmenn Hreyfingarinnar atkvæði með því að öllum gögnum Rannóknarnefndar Alþingis yrði komið fyrir í læstum hirslum Þjóðskjalasafns og utan seilingar almennings í a.m.k. fimmtíu ár.  Í fimmta lagi greiddu allir þingmenn á Alþingi nema þingmenn Hreyfingarinnar atkvæði með áframhaldandi heimild stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka til að taka við nafnlausum fjárframlögum í ný afgreiddum lögum um fjármál stjórnmálaflokka þann 9. september síðastliðinn.  Þannig að lái mér það hver sem vill, en hljómurinn er í mínum eyrum að einhverju leiti holur þegar kemur að nýfengnum áhuga þessara flokka á gagnsæi.

Staðan er sú að Sjálfstæðisflokknum finnst það óþolandi tilhugsun að ráðherrar flokksins kunni að verða kvaddir fyrir Landsdóm og þeir hafa ýtt til hliðar fulltrúum sínum í þingmannanefndinni og tefla nú fram varaformanni flokksins sem helsta talsmanni sínum í málinu.  Þetta lýsir að sjálfsögðu fullkomnu vantrausti á fulltrúa flokksins í þingmannanefndinni sem eru þó helstu sérfræðingar flokksins í málinu.  Sjálfstæðisflokkurinn mun einfaldlega reyna allt sem hægt er til að tefja málið og það hugnast einnig hluta þingmanna Samfylkingarinnar sem virðast einnig líta á sína ráðherra sem óbrigðular heilagar kýr sem megi ekki fyrir nokkra muni fara fyrir Landsdóm.  Það var mjög áhugavert s.l. föstudag að sjá þingmenn beggja þessara flokka stinga saman nefjum í öllum skúmaskotum þinghússins og kætast svo sameiginlega þegar Sjálfstæðislokknum tókst með stuðningi Samfylkingarinnar að fresta umræðunni fram yfir helgi.  Frestunin sjálf var fordæmalaus og var vegna þess að framsögumaður Sjálfstæðisflokksins Ólöf Nordal var ekki nógu vel inn í málinu, en þrátt fyrir að sjö aðrir nefndarmenn sem allir gjörþekktu málið væru á mælendaskrá var umræðan samt stöðvuð.

Það verður fróðlegt að sjá hvert næsta útspil verður en ein hugmynd er að senda málið til Allsherjarnefndar milli umræðna í stað þess að senda það aftur til þingmannanefndarinnar eins og venjan er með mál, þ.e. þau fara aftur til nefndarinnar sem flytur þau.  Þetta þýðir að ef Allsherjarnefnd ætlar að vanda sig eins vel og þingmannanefndin þá klárast málið kannski í nóvember, en sem kunnugt er hélt þingmannanefndin 30 fundi um ráðherrábyrgðina og margir þeirra voru hálfu og heilu dagana og stundum langt fram á kvöld.

Sjálfur er ég frekar svartsýnn á að Alþingi takist að klára þetta mál eins og þarf.  Ég hef sjálfur svo sem aldrei búist við að Alþingi gæti afgreitt svona mál en þó kviknaði von hjá mér þegar ég las skýrsluna og tillögurnar og ég fylltist bjartsýni á að Alþingi tækist nú að reisa sig úr rústum vantraustsins.  En nú hefur Sjálfstæðisflokkur að því er virðist fengið stuðning inn í Samfylkingunni til að eyðileggja málið, akkúrat þegar Alþingi þarf meira en nokkru sinni fyrr að ganga fram af einurð og heiðarleika en ekki hrossakaupum og leikaraskap.

Í þessu máli hefur Atli Gíslason og þingmannanefndin öll staðið sig mjög vel og það verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni um málið og þeim rökum sem koma fram á móti Landsdómi en meirihluta álit nefndarinnar er mjög vel rökstutt.  Þingheimur allur ber hins vegar ábyrgð á því að málið fái eðlilega meðferð en verði ekki einhverju plotti að bráð.

Alþingi, samfélagið og þjóðin stendur á tímamótum og afgreiðsla þingsins á hruninu næstu daga sker úr um tilverurétt Alþingis, hvorki meira né minna.  Þingmenn verða því að gera svo vel og hætta öllum fíflagangi og taka sig saman í andlitinu og láta hagsmuni almennings, heiðarleika og réttlæti ráða för en ekki endalausa klæki, undanbrögð, óheilindi og hrossakaup.  Alþingi hefur nú tækifæri og það gott tækifæri, til að réttlæta tilvist sína og starf.  Þingmenn og forseti þingsins verða hins vegar að gera sér grein fyrir því að þetta er jafnframt síðasta tækifærið

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.9.2010 - 15:37 - FB ummæli ()

Skýrsla þingmannanefndarinnar III

Þar sem ræðurnar frá í gær voru ekki komnar inn á vef þingsins er ég skrifaði færsluna mína set ég  hér tengil á ræðuna.  Þetta er að mínu eigin mati sennilega besta innleggið mitt á þingið hvað ræður varðar og ég reyndi að vanda mig enda tilefnið mjög mikilvægt.  Við, það er Alþingi, samfélagið og þjóðin stöndum á ákveðnum tímamótum og nú meira en nokkru sinni fyrr er mikilvægt að draga andann og vanda sig.

Nú þegar er að skýrast hvernig meðferð Alþingis verður á tillögum meirihluta þingmannanefndarinnar um ákærur vegna ráðherraábyrgðarinnar finnst mér rétt að minna á að nefndin fundaði 54 sinnum þar af 30 sinnum út af ráðherrábyrgðinni.  Fundirnir voru oft hálfu og heilu dagan og oft langt fram á kvöld.  Til voru kvaddir allir helstu sérfræðingar þjóðarinnar um málið og niðurstaða meirihlutans er í samræmi við það.  Í öllu ferlinu fékk Sjálfstæðisflokkurinn allt sem hann vildi hvað varðar gesti, álit og umsagnir.

Þeirra hálmstrá hafa síðan verið nokkur svo sem að vísa í lög um sakamálarannsóknir, ónýtan Landsdóm og fleira.   Atriði sem öll voru hrakin fyrir nefndinni.  Ótal „álitsgjafar“ flokksins hafa verið fengnir til að gera málið tortryggilegt og rengja niðurstöður nefndarinnar.  Þetta er í raun furðuleg afstaða því framtíð flokksins byggist á því að hann komi frá uppgjöri hrunsins með hreint borð en ekki með því að eyðileggja uppgjörið eins og þeir eru einatt að reyna að gera.  Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn gripið til þess ráðs að reyna að eyðileggja málið í þingsal og krefjast þess að það fari til Allsherjarnefndar milli annarrar og þriðju umræðu.  Eyðileggja segi ég því Allsherjarnefnd hefur enga burði til að móta sér afstöðu nema með því að endurtaka vinnu þingmannanefndarinnar og ég fæ ekki séð að Allsherjarnefnd muni funda 30 sinnum um málið.  Samkvæmt þingsköpum á mál að fara aftur til þeirrar nefndar sem leggur það fram en hér hafa þeir fundið enn einn lagaflækjukrókinn sem þeir hamra á (hljómar kunnuglega ekki satt).  Með stuðningi einhverra þingmanna Samfylkingar, þar á meðal formanns Allsherjarnefndar sem hefur gengið fram og vill fá málið inn í nefndina „í nafni sáttar“ eins og hann segir, er Alþingi nú að takast að eyðileggja málið.  Ef svo verður munu Samfylking og Sjálfstæðisflokkur sem saman mynda meirihluta í Allsherjarnefnd og ná einhvers konar moðsamkomulagi sem fríar alla.

Ég hef sjálfur svo sem aldrei búist við að Alþingi gæti afgreitt svona mál en þó kviknaði von hjá mér þegar ég las skýrsluna og tillögurnar.  En nú hefur Sjálfstæðisflokkur fengið stuðning inn í Samfylkingunni til að eyðileggja málið akkúrat þegar Alþingi þarf meira en nokkru sinni fyrr að ganga fram af einurð og heiðarleika en ekki hrossakaupum og leikaraskap.  Ekki bætir úr sú furðulega hugmynd Samfylkingarinnar að bjóða öllum „sakborningunum“ en þó fyrst og fremst Ingibjörgu Sólrúnu að hitta þingmenn Samfylkingarinnar á sérstökum prívatfundi nú í kvöld.  Ég hef oft haldið ýmislegt um þingmenn á Alþingi en hér tekur samt alveg steininn úr í dómgreindarleysinu.

Alþingi, samfélagið og þjóðin stendur á tímamótum og afgreiðsla þingsins á hruninu næstu daga sker úr um tilverurétt Alþingis, hvorki meira né minna.  Þingmenn verða því að gera svo vel og hætta öllum fíflagangi og taka sig saman í andlitinu og láta hagsmuni almennings, heiðarleika og réttlæti ráða för en ekki endalausa klæki, undanbrögð, óheilindi og hrossakaup.  Alþingi hefur nú tækifæri og það gott tækifæri, til að réttlæta tilvist sína og starf.  Þingmenn verða hins vegar að gera sér grein fyrir því að þetta er jafnframt síðasta tækifærið,

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.9.2010 - 20:45 - FB ummæli ()

Skýrsla þingmannanefndarinnar II

Umræðan um skýrslu þingmannanefndarinnar hélt áfram í dag.  Umræðunni lauk svo síðdegis og á föstudag verður tekið til við að ræða tillögur þingmannanefndarinnar um ákærur á hendur ráðherrana fjögurra.  Umræðan um skýrsluna hefur verið ágæt og menn virðast sammála um að það þurfi að hrinda því í framkvæmd sem nefndin leggur til.  Varðandi ákærurunar leikur hins vegar allt á reiðiskjálfi og það eru engar líkur á að sátt náist um það mál, enda var aldrei reiknað með því og í raun fráleitt að ætla sér það.  Það hefur hins vegar farið af stað mikill leikur inn á þingi til að reyna að eyðileggja málið með flækjum og klókindum þannig að niðurstaða nefndarinnar, þ.e. þeirra fimm sem mynda meirihluta hennar, fái ekki að koma til atkvæðagreiðslu í þinginu.  Ég mun skýra betur frá hvað þar er í gangi á morgun þegar fleiri kurl verða komin til grafar.  Við þessu var svo sem að búast og það kæmi mér alls ekki á óvart að Alþingi næði ekki að klára þetta mál.  Hvað um það, meira á morgun.

Ég flutti ræðu um skýrsluna í daga og læt hana fylgja með hér fyrir neðan eins og hún er skrifuð en ég vék í einhverjum mæli frá textanum í ræðunni sjálfri.  Hefði líka sett tengil inn á ræðuna á vef þingsins en sá vefur hefur enn ekki verið uppfærður með ræðum dagsins.

Ræða vegna skýrslu þingmannanefndar Alþingis, 15. september 2010.

Virðulegur forseti.

Við ræðum hér skýrslu þingmannanefndarinnar sem Alþingi skipaði til að fara ofan í saumana á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins.  Skýrsla þingmannanefndarinnar er mikið og vandað verk og með ólíkindum að nefndinni skuli hafa tekist svo vel upp á þeim skamma tíma sem hún hafði.  Ég vil byrja á því að þakka formanni nefndarinnar Atla Gíslasyni fyrir mjög gott starf og þrautseigju í því að viðhalda þeirri samstöðu sem honum fannst svo mikilvæg.  Sú samstaða mun vonandi skila sér í þeim úrlausnum sem fram undan eru og eru tilgreindar í þingsályktunartillögunni á blaðsíðu fimmtán.

Í nóvember á síðasta ári þegar verið var að ræða lögin og það umhverfi sem þingmannanefndin átti að starfa í hafði Hreyfingin alveg frá upphafi efasemdir um að þetta væri heppilegasta leiðin til að fjalla um skýrsluna og komast að niðurstöðu um ráðherraábyrgðina vegna þeirra nánu tengsla sem eru milli þingmanna sem sumir hverjir hafa þekkst og jafnvel starfað saman í áratugi.  Við lögðum því fram breytingartillögur við frumvarpið um þau atriði.  Þær tilögur mættu mikilli andstöðu innan forsætisnefndar sem hafði með málið að gera og einnig í þingsalnum þar sem ég sjálfur sætti harðri atlögu fyrir að vanmeta Alþingi og þingmenn.   Sem betur fer gengu efasemdir okkar ekki eftir nema að hluta og þá varðandi þau atriði er tengjast beint þingmönnum og ráðherrum, þ.e. þegar kom að því að þingmenn tækju afstöðu til félaga sinna. Nefndin hefur því skilað af sér mjög vönduðu og góðu verki.

Sjálfur hef ég lúslesið skýrslu þingmannanefndarinnar og tillögur hennar og lýsi mikilli ánægju með hversu nefndin er ákveðin í gagnrýni sinni, ekki síst á vinnubrögðin á sjálfu Alþingi og vona ég innilega að þingmenn leggist nú á árarnar og rói saman í þá átt sem tillögurnar vísa.  Nefndin segir með mjög afgerandi hætti varðandi Alþingi að það þurfi að auka sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdavaldinu og að leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins.  Nefndi segir og að Alþingi þurfi að taka starfshætti sína til endurskoðunar og að það þurfi að marka skýr skil milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins og að Alþingi eigi ekki að vera verkfæri í höndum framkvæmdavaldsins og oddvitaræðis.  Nefndin telur einnig að sjálfstæði þingsins verði að auka með því að setja á fót nýja sjálfstæða ríkisstofnun í anda fyrrum Þjóðhagsstofnunar en þó undir stjórn Alþingis en Þjóðhagsstofnun var sem kunnugt er sem lögð var niður á sínum tíma vegna þess að hún var ekki sammála Sjálfstæðislokknum.

Eins segir nefndin um Alþingi, að Alþingi og alþingismenn verði að endurheimta traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum og að alþingisþingmenn þurfi að setja sér siðareglur en eins og staðan er í dag eru þingmenn einungis vanhæfir í málum er snúa að fjárveitingum til þeirra sjálfra.  Þetta atriði er sérstaklega mikilvægt þegar haft er í huga að einungis 13 prósent þjóðarinnar bera traust til Alþingis.  Því eru það mikil vonbrigði að Alþingi skuli í síðustu viku hafa samþykkt samhljóða, utan þingmanna Hreyfingarinnar, ný lög um fjármál stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka sem gera ráð fyrir áframhaldandi framlögum frá fyrirtækjum til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna sem og áframhaldandi nafnlausum framlögum til stjórnmálamanna.  Þetta var skref í ranga átt og helgast af því einu að meint peningaþörf stjórnmálamanna og -flokka er gríðarlega mikil.  Sú löggjöf er að mínu mati vanvirðing við lýðræði og gagnsæi.

Eins og staðan er núna situr hér enn á þingi fólk sem þegið hefur fúlgur fjár frá fyrirtækjum og bönkum og sem hefur víðtæk og djúp tengsl við viðskiptalífið hvers sömu þingmenn taka svo að sér að hafa aðkomu að löggjöf um.  Nægir að nefna áratuga tengsl Sjálfstæðisflokksins við LÍÚ og tengslin við Landsbankann eftir að hann var einkavæddur til vina flokksins, vina sem fyrrverandi formaður flokksins og forsætisráðherra þjóðarinnar talaði stoltur um að kæmu á hans fund jafnvel oft í viku hverri.  Einnig er rétt að minna á tengsl fyrrverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins við bankakerfið gegnum hjúskap þar sem tæplega níu hundruð milljóna króna lán sem þarf ekki að borga til baka rataði í faðm fjölskyldunnar.  Níu hundruð milljónir eru árslaun verkamanns í um 300 ár.  Þannig að áhuginn á að endurheimta traust þjóðarinnar með athöfnum er augljóslega ekki til staðar hjá öllum þingmönnum þessa þings, alla vega ekki fram að þessu.

Það er því brýnt að þær úrbætur sem nefndin náði samstöðu um nái fram að ganga og að náð verði samstöðu um siðareglur og e.t.v.  einhvers konar siðaráð fyrir Alþingi og alþingismenn.  Siðaráð þetta gæti verið álitsgjafi til þingsins um öll þau álitamál er snúa að þingmönnum og Alþingi og sem þingmönnum sjálfum er ekki endilega best treystandi til að afgreiða.  Hér mætti nefna mál eins og fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna, aðkomu þingmanna með tengsl við viðskiptalífið eða hagsmunasamtök að ýmissi löggjöf, sem og þá sjálftöku sem á sér stað í fjárlögum hvers árs þegar sumir stjórnmálaflokkar úthluta sjálfum sér hundruðum milljóna króna á ári af almannafé umræðulaust.

 Virðulegur forseti.

Eins og fram kemur í skýrslu nefndarinnar hefur stjórnsýslan brugðist mjög víða og að stjórnarráðið sjálft, þ.e.  forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneytin hafi hringsnúist stefnulaust í marga mánuði í aðdraganda hrunsins vegna þess að stjórnmálaflokkarnir sjálfir áttu svo mikið undir því að allt færi vel.  Hér koma skýrt fram afleiðingarnar af því að hafa flokkspólitíska stjórnsýslu og stjórnarráð þar sem oftar en ekki er ráðið í stöður eftir flokksskírteinum fremur en hæfi.  Stjórnsýslu og stjórnarráð sem þjónar fyrst og fremst ráðherrum og þingflokkum á þingi en hefur ekki hagsmuni almennings að leiðarljósi.  Það var þetta stjórnaráð og þessi stjórnsýsla sem auk ráðherrana og fjölda þingmanna leyndi því fyrir almenningi í a.m.k. átta mánuði að hér væri væntanlegt hrun.  Þetta sama stjórnaráð og þessi sama stjórnsýsla horfði á almenning mánuðum saman taka íbúðalán á kjörum sem vitað var að aldrei myndu standast og sem myndu keyra þessar sömu fjölskyldur í þrot á örsotsstundu þegar allt hryndi.  Þetta sama stjórnarráð og þessi stjórnsýsla gerði ekkert til að gæta að almannahag.  Það er því þetta sama stjórnaráð og þessi sama stjórnsýsla sem ber ekki síður ábyrgð á hörmungum fólks en fjárglæframennirnir og ráðherrarnir sem verða, ef Alþingi stendur undir nafni, ákærðir innan nokkurra daga.

 Virðulegur forseti.

Skýrsla þingmannanefndarinnar þegar kemur að stjórnsýslunni er dapurleg lesning og vert að hafa hluta hennar eftir hér í ræðustól með leyfir forseta, En á bls 8 segir t.d.:

Rík tilhneiging var til að túlka valdheimildir þröngt og nýta þær ekki.  Vettvangsathuganir þekktust varla, athugasemdum regluvarða og innri endurskoðenda var ekki fylgt eftir og eftirlitsaðilar höfðu litla sem enga yfirsýn yfir kerfisáhættuna í fjármálakerfinu.  Bönkum var auðveldað að fara sínu fram og sniðganga reglur og stjórnvöld og jafnvel eru þess dæmi að alvarleg brot á lögum sættu ekki kæru til valdstjórnar.  Þá átelur þingmannanefndin að ekkert mat hafi farið fram af hálfu íslenskra eftirlitsaðila á fjármögnunarleiðum bankanna og hvaða áhætta kynni að fylgja þeim fyrir fjármálakerfi Íslands.

 Þingmannanefndin gagnrýnir sérstaklega að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hafi ekki kallað eftir formlegum áætlunum og aðgerðum um flutning erlendra innlánsreikninga frá útibúi yfir í dótturfélag.  Þá telur þingmannanefndin það gagnrýnisvert að Seðlabankinn hafi veitt víðtæk veðlán án viðeigandi trygginga þegar hann gerði sér grein fyrir veikleikum fjármálafyrirtækjanna.  Lán til fjármálafyrirtækja með veði í skuldabréfum og víxlum þeirra námu um 300 milljörðum kr. í október 2008 og leiddu til tæknilegs gjaldþrots bankans í október 2008.

Það er mat þingmannanefndarinnar að Seðlabanki Íslands hafi ekki haft nægar upplýsingar til að meta stöðu Glitnis rétt þegar bankastjórnin lagði til við ríkisstjórnina að Glitnir yrði keyptur.  Því verður ekki séð að Seðlabankinn hafi haft forsendur til að meta hvort forsvaranlegt væri að eyða 600 milljónum evra í kaup á 75% hlut í Glitni.  Bankastjórn Seðlabanka Íslands hafði frá nóvember 2007 verulegar áhyggjur af stöðu bankanna.  Þrátt fyrir það var þeim áhyggjum aðeins komið á framfæri með óformlegum hætti og þannig fór ekki saman mat bankans á hinni alvarlegu stöðu og rökrétt viðbrögð og tillögur byggðar á því mati.  Þingmannanefndin telur að mikið hafi skort á að samskipti á milli bankastjórnar Seðlabankans og stjórnvalda hafi verið eðlileg og í samræmi við góða stjórnsýslu.  Tilvitnun lýkur.

Einnig kemur fram í skýrslu nefndarinnar að Seðlabankinn hafi ekki kallað eftir nauðsynlegum upplýsingum frá Fjámálaeftirlitinu og að aðalbankastjóra og starfsmönnum hafi ekki verið kunnugt heimildir bankans sem hann á þó að starfa eftir.  Einnig virkar einkennilega sú ákvörðun formanns bankastjórnarinnar að hætta reglubundnum samskiptum við forsvarsmenn bankanna. Ákvörðun sem virðist stafa af mismunandi skilningi á hlutverki fundanna hjá Seðlabankanum annars vegar og bönkunum hins vegar.  Kemst þingmannanefndin að þeirri niðurstöðu að pólitískar stöðuveitingar svo sem hafa verið viðhafðar við val Seðlabankastjóra sé ekki æskileg skipan mála.

Fjármálaeftirlitið hefur einnig brugðist að mati nefndarinnar og starfsmenn þess sýndu ekki þá festu og ákveðni sem til þurfti við úrlausn og eftirfylgni mála.  Sérstaklega er eftirtektarvert það afskiptaleysi sem Fjármálaeftirlitið sýndi Tryggingarsjóði innstæðueigenda, afskiptaleysi sem á endanum kostaði almenning á Íslandi stórfé og sér ekki fyrir endann á vegna t.d. Icesave.

Um starfshætti í forsætis- fjármála og viðskiparáðuneytum tekur þingmannanefndin undir með Rannsóknarnefndinni að ýmislegt aðfinnsluvert sé að í stjórnsýslunni og segir m.a. með leyfi forseta:

Almennt var ekki til að dreifa innan ráðuneytanna mörgum starfsmönnum með sérþekkingu sem gerði þeim kleift að takast á við verkefni af þeim toga sem aðdragandi bankahrunsins hafði í för með sér, t.d. var ekki ráðinn sérstakur efnahagsráðgjafi í forsætisráðuneytið fyrr en 1. ágúst 2008.

Rannsóknarnefndin segir einnig að íslenska stjórnkerfið hafi verið illa í stakk búið til að takast á við fjármálaáföll ársins 2008 og augljóslega þurfi að fjölga í hópi vel menntaðra og þjálfaðra starfsmanna sem hafa getu til að takast á við flókin verkefni. Það verði varla gert á annan hátt en að sköpuð séu þau starfsskilyrði í Stjórnarráði Íslands að þangað fáist til starfa fólk sem hefur þessa kosti til að bera. Gengið sé út frá því að hinir ópólitísku embættismenn séu sérfræðingar á sínu sviði hvað varðar menntun og reynslu og þeim sé ætlað að bera uppi skilvirka og málefnalega stjórnsýslu í þágu almenings.

 Einnig segir á blaðsíðu 11, með leyfi forseta:

 Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu, verklagi hennar og skorti á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra. Svo virðist sem aðilar innan stjórnsýslunnar telji sig ekki þurfa að standa skil á ákvörðunum sínum og axla ábyrgð, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.  Vegna smæðar samfélagsins skiptir formfesta, skráning upplýsinga, verkferlar, tímamörk og skýr ábyrgðarsvið enn meira máli en í stærri samfélögum. Í ljós kemur að upplýsingaskylda ráðuneyta og stofnana, innbyrðis og út á við, virðist ekki hafa verið virk né heldur frumkvæðisskylda, gagnsæi og rekjanleiki.

Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn. Slíkt verklag er óásættanlegt.

 Frú forseti.

Slík stjórnsýsla sem hér er lýst er einu orði sagt hörmuleg, ekki síst þegar t.d. er haft er í huga að árið 2001 var sett á stofn í Seðlabanka Íslands sérstakt Fjármálastöðugleikasvið með svo færu og hátt launuðum starfsmönnum að hækka þurfti laun bankastjórnanna þriggja. Eina starf þessa nýja sviðs og starfsmanna þess var að fylgjast með fjármálastöðugleika á Íslandi. Eina starfið. Gefnar voru út a.m.k. tvær viðamiklar skýrlsur á ári um fjármálastöðugleika og alveg fram á mitt ár 2008 var hvergi, hvergi nokkurs staðar hægt að merkja að eitthvað vandamál væri í aðsigi í íslensku fjármálalífi.  Hér hrundi svo fjármálakerfið til grunna fyrir tæpum tveimur árum og Seðlabankinn hefur enn ekki verið rannsakaður.  Allt sama fólkið og starfaði þar fram að hruni er þar enn og Fjármálastöðugleikasviðið líka.  Það er þó rétt að geta þess að eina nóttina þegar engin sá til að nafninu var breytt í Fjármálasvið.  Þetta eru staðreyndirnar og þetta eru lausninrnar sem boðið hefur verið upp á hingað til.

Þá kemur fram hér að ofan að Seðlabankinn hafi veitt víðtæk veðlán, þ.á.m. lánað ríkisskuldabréf gegnum deild sem heitir Lánamál ríkisins með veði í verðlausum pappírum.  Þess má geta að Lánamál ríkisins hét áður Lánasýsla ríkisins og var sjálfstæð fagstofnun sem sá um skuldastýringu ríkissjóðs. Lánasýsla ríkisins hafði verið stofnsett á sínum tíma eftir langan aðdraganda þar sem ákveðið var að færa skuldastýringu ríkissjóðs inn í faglegt umhverfi. Það var gert með hiðsjón af því sem var að gerast í nágrannalöndum Íslands og sem rannsóknir Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD, sýndu að gæfu góða raun og sem OECD mælti með sem s.k. “Best practices” í skuldastýringu ríkissjóða.  Vegna áralangrar andstöðu skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu við Lánasýsluna, andstöðu sem aldrei hefur upplýsts hvers vegna var, sem og vegna áhuga Seðlabankans á að fá meiri völd var Lánasýsla ríkisins lögð niður þann 1. október 2007.

Athyglisvert er að lesa rök þáverandi fjármálaráðherra Árna Mathiesen með þessari breytingu en þar kemur fram að verið sé að færa skuldastýringu ríkissjóðs til sambærilegs umhverfis og væri í nágrannalöndum eins og Danmörku.  Rétt er að geta þess að það er rétt að í Danmörku er skuldastýring ríkissjóðs í sérdeild í danska seðlabankanum.  Það sem fjármálaráðherrann fyrrverandi og skrifstofustjóri hans sögðu hins vegar ekki er að OECD notar Danmörku sem dæmi um hvernig skuldastýringu ríkissjóða á ekki að vera fyrirkomið.

Þessi stofnun hverra starfsmenn voru nú sviptir sínu sjálfstæða fagumhverfi og komnir undir stjórn Davíðs Oddsonar lánaði svo fúlgur fjár ríkisverðbréfa til bankanna gegn ónýtum veðum.  Enn eitt dæmið um stjórnarráð og stjórnsýslu sem brást algerlega og hefur enn ekki verið rannsökuð.

 Frú forseti.

Sem betur fer leggur þingmannanefndin til að fram fari stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu, úttekt sem Hreyfingin hefur ítrekað kallað eftir á vettvangi fjárlaganefndar og forsætisnefndar í heilt ár en ekki fengið undirtektir við.  Til viðbótar þessu mun Hreyfingin leggja til að stjórnsýsluúttekt verði einnig gerð á starfsháttum forætis- fjármála- og viðskiptaráðuneyta í aðdraganda hrunisins og eftir það.

Frekari niðurstöður þingmannanefndarinnar eru t.d. að fram fari endurskoðun á stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og lögum um Stjórnaráð Íslands og að fram komi hvaða reglur eigi að gilda um pólitíska starfsmenn ráðherra.  Nefndin leggur einnig til að brýnt sé að í ráðuneytum sé til staðar sú fagþekking og reynsla sem nauðsynleg er til að sinna þeim verkefnum sem ráðuneytum ber og að ætíð sé ráðið í stöður embættismanna á faglegum forsendum.

Þingmannanefndin fjallar einnig mikið um aðkomu fyrirtækja að háskólum og þær hættur sem felast í því að fyrirtæki eða hagsmunasamtök kosti skýrslur, stofnanir eða stöður á háskólastigi.  Skýrsla rannsóknarnefndarinnar fjallar einnig um siðferði út frá ýmsum sjónarhornum og leggur áherslu á að menntun í siðfræði verði gert hærra undir höfði.  Hreyfingin telur að ein meginorsök þeirrar vanburða umræðuhefðar í samfélaginu og á Alþingi liggi í menntunarleysi á sviði heimspeki þar sem rökhugsun og siðfræði eru viðfangsefni.  Menntun á Íslandi hefur í mjög auknum mæli færst yfir í að þjáfa upp vinnuafl frekar en að mennta einstaklingana.  Stefna sem leiðir á endanum, og hefur í raun þegar gert, til illa menntaðs samfélags.  Hér verður að gera mun á magni og gæðum því þó Íslendingar sjálfir telji sig mikið menntaða þjóð er hægt að færa rök fyrir því að þjóðin sé það sem kallað er, mikið illa menntuð.  Því mun Hreyfingin leggja til viðbótartillögu um að Alþingi feli menntamálaráðherra að beita sér fyrir breytingum á námsskrám grunnskóla og framhaldsskóla þannig að kennsla í heimsspeki verði sett á viðeigandi stall og verði að meðaltali kenndur a.m.k. einn áfangi í heimspeki á hverju skólaári á báðum skólastigum.

 Virðulegur forseti.

Þann 20. janúar 2009 hófst hér fyrir utan þinghúsið hin svokallaða Búsáhaldabylting hvers aðal slagorð var “Vanhæf ríkisstjórn.”  Með þrautsegju sem varði í sex sólahringa, utan dyra í íslenskum vetri, tókst okkur að koma ríkisstjórninni frá.

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis sýndi svo ekki varð um villst að Búsáhaldabyltingin átti rétt á sér og þó fyrr hefði verið.  Niðurstaða þingmannanefndar Alþingis sýnir einnig að Búsáhaldabyltingin átti rétt á sér og þó fyrr hefði verið.  Ef Alþingi samþykkir tillögur þingmannanefndarinnar mun Alþingi sjálft hafa sýnt að Búsáhaldabyltingin átti rétt á sér.

 Virðulegur forseti.

Búsáhaldabyltingin var aðhaldið sem almenningur taldi sig þurfa að veita stjórnvöldum.  Það aðhald virkaði og það var réttlætanlegt.  Næsta skref hlýtur því að vera að gera almenningi kleift að veita Alþingi og stjórnvöldum aðhald með siðmenntaðri hætti en að standa hér fyrir utan og öskra og kasta drasli í húsið.  Alþingi þarf að samþykkja lög um að tiltekinn hluti kjósenda geti með undirskrift sinni krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál, og þar er vantraust á sitjandi stjórnvöld hverju sinni ekki undanskilið.  Þá fyrst verður Alþingi traustsins vert og þá mun fólkið treysta Alþingi, en fyrst verður Alþingi að treysta fólkinu.

 Frú forseti.

Vorið 2009 komu 27 nýir þingmenn til starfa á Alþingi.  23 þeirra gengu beint í björg fjórflokksins og einn gekk í Vinstri-græna.  Nú reynir á þessa nýju þingmenn að stíga út úr bjargi flokksræðisins og krefjast þess að tillögur þingmannanefndarinnar verði samþykktar og að þeim verði fylgt eftir.

Þá og þá fyrst er hægt að segja að Alþingi þjóðarinnar sé á réttri leið.  Á réttri leið til að verða betra Alþingi og á réttri leið til að auka traust þjóðarinnar á þinginu.  Þó að um langan veg sé að fara þá erum við þó á réttri leið.

Loksins.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur