Miðvikudagur 2.11.2011 - 23:55 - FB ummæli ()

Heimspeki sem skyldufag

Í dag fluttum við í Hreyfingunni þingsályktunartillögu um að gera heimsspeki að skyldunámsgrein í grunn- og framhaldsskólum (sjá hér). Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða aðalnámskrár grunnskóla og framhaldsskóla með það að markmiði að heimspeki verði skyldufag á báðum skólastigum innan fjögurra ára.

og í greinargerðinni segir:

Markmið tillögurnnar er að efla kennslu í heimspeki og að kenndur verði að meðaltali einn áfangi á hverjum tveimur árum á grunnskólastigi og að meðaltali einn áfangi á hverju skólaári á framhaldsskólastigi.
    Með vísan til 8. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008 er lagt til að tryggt verði að heimspeki verði skyldufag í grunn og framhaldsskólum. Eins og fram kemur í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er nauðsynlegt að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Heimspeki og siðfræði ættu að vera skyldufag á öllum skólastigum og þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð á því sviði. Mikilvægt er að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla jafnframt að gagnrýninni hugsun, sem er ein meginforsenda þess að borgarar geti verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Með því að auka kennslu í heimspeki í grunn- og framhaldsskólum er lagður grundvöllur að því að styrkja skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal framtíðarborgara landsins á sama tíma og lýðræðislegir innviðir samfélagsins eru treystir. Þar sem um allnokkra breytingu á aðalnámskrám er að ræða er talið æskilegt að gefa ráðherra allt að fjórum árum til að innleiða breytinguna.

Þó almennt viðhorf virðist vera að allt sem gerist á Alþingi sé á einhvern hátt ómögulegt er það ekki nema að hluta til rétt. Það koma dagar þar sem málin á dagskrá eru ekki deilumál heldur myndast þverpólitískur áhugi á framgangi þeirra. Þó hér sé oft um að ræða mál sem vega e.t.v. ekki mikið á mælikvarða t.d. fjárlagafrumvarpsins eru þau mörg alveg jafn merkileg og mikilvæg.

Í dag röðuðust þingmálin þannig upp að eitt þingmála Árna Johnsen, þingsályktunartillaga um að auka hlut ljóðakennslu og skólasöngs í grunn- og framhaldsskólum var á undan ofangreindu máli frá okkur í Hreyfingunni. Hér spannst af lífleg umræða milli nokkurra þingmanna um ljóð, ljóðakennslu, söng, heimsspeki og fleira þar sem málin spyrtust saman í umræðunni á áhugaverðan hátt. Smá sýnidæmi um að ekki er alltaf allt í hávaðarifrildi í þinginu. Tengill á umræðuna á mál Árna Johnsen  er hér.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.10.2011 - 23:35 - FB ummæli ()

Njósnað um íslendinga.

Njósnatillagan skaut upp kollinum á Alþingi í dag í annað sinn. Tillagan er í formi þingsályktunar og heitir fullur nafni „Tillaga til þingsályktunar um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.“  Hún hljóðar svo:  „Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að vinna og leggja fyrir Alþingi frumvarp sem veiti lögreglunni sambærilegar heimildir og lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi (forvirkar rannsóknarheimildir).“

Notkun tungumálsins er áhugaverð hér og það að kalla njósnir um saklausa borgara „forvirkar rannsóknarheimildir“ er til merkis um hvernig áhugamenn um njósnir um samborgarana telja sig samt þurfa að fela sig bak við óljóst og jafnvel villandi orðalag. Það er orðið grynnra en áður á vilja manna til að grípa til örþrifaráða vegna heims sem þeir telja sjálfir að sé mjög hættulegur. Hér er á ferðinni þingmál frá þingmönnum sem sumir hafa lýst því yfir að eftir öll þessi mótmæli séu þeir hræddir við fólk á götu. Staðreyndin er hins vegar sú að t.d. á þingsetningardaginn voru um tíma 13 þingmenn á Austurvelli, enginn þeirra varð fyrir aðkasti en flestum var í stað þess heilsað með virktum og jafnvel faðmlögum. Enginn þeirra er meðflutningsmaður. Um fimmtíu þingmenn sáu hins vegar frekar ástæðu til að skýla sér bak við lögreglu og hálf-hlaupa á milli húsa.

Rökin bak við njósnafrumvarpið eru að glæpir séu að aukast og verða hættulegri og svo má vel vera, en eins og ég benti á í ræðu minni þá hafa þeir ekki síður aukist í þeim löndum sem hafa öfluga njósnalöggjöf og t.d. í bandaríkjunum með allar sínar lögreglur, leyniþjónustur, fangelsi og dauðrefsingar eru glæpir landlægir og glæpir hafa einnig aukist í þeim löndum sem við berum okkur helsta saman við og vísað er til í tillögunni þ.e. á hinum norðurlöndunum.

Siv Friðleifsdóttir er fyrst flutningsmaður málsina en það kom mér verulega á óvart hverjir meðflutningsmenn á málinu eru. Það var hins vegar ekki mikill vilji hjá þeim að tala í málinu og eina umræðan var milli mín og Sivjar og sá eini í þingsalnum utan okkar var Árni Johnsen. Ég gagnrýndi málið frá ýmsum sjónarhornum og benti á ýmsar aðrar leiðir sem mætti fara. Vonandi taka þingmenn og þið lesendur frá tíma til að hlusta á gagnrýnina því þetta er allt of varasamt skref að stíga.

Umræðan öll  er hér   fyrir þá sem hafa áhuga.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.10.2011 - 21:24 - FB ummæli ()

Fjárlög og niðurskurður

Fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár var á dagskrá í þingingu í dag. Eins og við var að búast voru mismunandi sjónarmið uppi varðandi þá leið skattahækkana og niðurskurðar sem ríkisstjórnin vill fara. Þau sjónarmið sem ég hef haldið á lofti eru að skuldaklafi hins opinbera, fyrirtækja, heimila og einstaklinga sé orðin það mikill að ekki verði lengur staðið undir honum vegna þess skaða sem niðurskurðurinn veldur í samfélaginu. Heppilegra væri að fara aðrar leiðir sem eru viðurkenndar þegar skuldarar komast í svo slæma stöðu. Við erum því miður orðin föst í þessum þekkta vítahring niðurskurðar og skattahækkana og munum ekki komast út úr honum nema með róttækri endurskipulagningu skulda ríkissjóðs. Í ræðu minn, sem er hér,  fer ég vandlega yfir þetta og einnig í þeim svörum sem ég veiti við s.k. andsvörum fjármálaráðherra og formanns fjárlaganefndar. Niðurskurðurinn til heilbrigðismála verður hrikalegur og mun lenda illa á Landspítalanum og veiku fólki.

Það dapurlega er að það er hægt að fara aðrar leiðir en það vill ríkisstjórnin ekki gera. Ekki með neinum rökum heldur að því er virðist vegna þess að fjármálaráðherra virðist vera í einhverri pissukeppni við Finna. Þeim hælir hann á hvert reipi fyrir að vera þekkta fyrir að greiða upp allar stríðskaðabætur sínar til sovétríkjanna og einnig að greiða allar skuldir eftir kreppuna miklu við fall Sovétríkjanna árið 1991. Þvílíkur samanburður því Finnar voru vegna þessa vanþróaðast allra Norðurlanda í yfir fjörtíu ár eftir stríðið undir oki s.k. „Finnlandiseringar“ og þeir hafa enn ekki náð sér vegna skuldanna sem urðu til við fall Sovétríkjanna. Skulda sem voru greiddar vegna fráleitrar þrjósku en ollu í staðinn samfélaginu óbætanlegum skaða. Þá leið viljum við ekki fara. Þá leið þurfum við ekki að fara.

Hvað um það, þessi umræða er athyglisverð fyrir margra hluta sakir sem og andsvörin. Góðar stundir.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.10.2011 - 00:54 - FB ummæli ()

Stefnuræðu umræður

Í gær fóru fram umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Sjaldan hef ég nú séð innihalds rýrara plagg en þessa stefnuræðu og ekki get ég sagt að brjóstvörn stjórnarandstöðunar hafi neitt betra fram að færa en gamla spillta Ísland. Þó hugmyndir framsóknarmanna um lausn á skuldavanda heimilana séu góðrar gjalda verðar þá er komin gömul framsóknarlykt af flokknum sem þó einn fjórflokka náði að endurnýja sig mikið árið 2009.

Hvað um það, mér finnst Alþingi nánast óstarfhæft sem löggjafarþing og sagði m.a. þetta í ræðu minni og þetta er ég sannfærður um:

„Í kosningunum vorið 2009 komu 27 nýir þingmenn inn á þing. 23 þeirra fóru beinustu leið í hjólför Fjórflokksins og ekkert breyttist. Sú ríkisstjórn sem nú er við völd og sem margir þessara nýju þingmanna styðja hefur svikið öll þau kosningaloforð sem hún gaf. Meðvirknin og firringin heldur samt áfram og alþingismenn hafa því miður misfarið með umboð sitt eina ferðina enn. Það er fullreynt að fjórflokka samfélagið og skyldleikaræktunin hér á Alþingi getur ekki uppfyllt þær kröfur, þær skyldur og þá ábyrgð sem löggjafarþing hefur. Það er gengið sér til húðar. Eina leiðin sem fær er, er að gefa almenningi kost á að segja álit sitt á þeim stjórnmálum, því stjórnkerfi og því stjórnarfari sem ríkt hefur hér allt of lengi. Eftirlegu kindum hrunsins þarf að koma út með kosningum sem fyrst.“

Ræðuna alla má svo nálgast hér.  Ég vil þakka „Tunnunum“  fyrir taktinn og aðhaldið. Það setur alltaf skemmtilegan blæ á þingið þegar hræðslan við almenning utan veggja hússins skín úr andlitum og athugasemdum þingmanna.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.9.2011 - 10:50 - FB ummæli ()

Lýðræði og sveitarfélög?

Í frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga sem samþykkt voru á síðasta degi þingsins s.l. laugardag fólst gullið tækifæri til að koma stöðu sveitarstjórnarstigsins á Íslandi í svipað horf hvað lýðræðislegt umboð varðar og er í nágrannalöndunum. Þetta tækifæri fór algerlega forgörðum og við sitjum uppi með niðurstöðu þar sem sveitarstjórnastigið er enn það ólýðræðislegasta, ekki bara miðað við öll Norðurlöndin heldur einnig miðað við öll lönd í norður og vestur Evrópu.

Framhald mun því verða á þeim fámennis- og klíkustjórnmálum sem einkennt hafa sveitarstjórnir á Íslandi undanfarna áratugi, fyrirkomulagi sem hefur reynst illa, alið á spillingu og kostað íbúa sveitarfélaganna stórfé enda er stór hluti sveitarfélaga á vonarvöl og jafnvel gjaldþrota vegna gerræðislegra fámennis ákvarðana í skipulags- og fjármálum. Þetta þarf kannski ekki að koma mikið á óvart því fjórflokkurinn hegðar sér ekkert öðruvísi á sveitarstjórnarstiginu heldur en á Alþingi og öllum tillögum um að draga úr völdum þessa mesta meins samfélagsins er mætt með mikilli andstöðu af hans hálfu.

Í frumvarpinu (sjá hér), sem kom frá innanríkisráðuneytinu og Ögmundur Jónasson ber ábyrgð á er gerð veikburða tilraun til að fjölga sveitarstjórnarfulltrúum (11. grein) og gera fámennis- og klíkustjórnmálum á sveitarstjórnarstiginu erfiðara um vik, en t.d. í tilfelli Reykjavíkur þarf einungis átta manns til að ráða öllu í nærri 120.000 manna sveitarfélagi (muniði REI málið), á Álftanesi sem varð gjaldþrota þurfti fjóra. Sú væga fjölgun sem frumvarpið gerði ráð fyrir er hins vegar alls ekki næg og festir sveitarstjornarstigið á Íslandi í sessi sem það ólýðræðislegasta í allri norðan- og vestanverðri Evrópu.

Nú þarf það ekki endilega að vera gefið að fjöldinn einn lagi allt sem miður geti farið á sveitarstjórnarstiginu. Hugmyndirnar um fjölda fulltrúa miða hins vegar að því að tryggja að sem flest sjónarmið komist að og þannig veita meira aðhald frá almenningi, en hvað Reykjavík varðar er fjöldi borgarfulltrúa sá sami (15) og árið 1908 þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað fimmtán-falt. Í 11. grein frumvarpsins eru ekki færð nein rök fyrir þeirri lítillegu fjölgun sem á að verða sem er undarlegt því að á síðasta þingi lagði Hreyfingin fram frumvarp (sjá hér) einmitt um þetta atriði þar sem mun meiri fjölgun var lögð til og sú fjölgun var kyrfilega rökstudd með tilvísunum í sveitarstjórnir nágrannalanda. Það frumvarp fór til samgöngunefndar sem tók ágætlega í málið og ákvað að senda það með jákvæðri umsögn til ríkisstjórnarinnar til nýtingar í vinnu við nýju sveitarstjórnarlögin sem nú hafa verið samþykkt.

Þessum tillögum sér hins vegar hvergi stað í því frumvarpi og við vinnslu þess var aldrei haft sambandi við okkur i Hreyfingunni sem höfum þó mest allra talað fyrri auknu lýðræði innan veggja Alþingis. Sá draumur að sem flestir s.s. Árbæingar, KR-ingar, Breiðhyltingar, Grafarvogsbúar, Vogahverfi, Fossvogur, Kylfingar og fleiri, geti átt rödd í sveitarstjórnum, er því orðinn að engu, í bili. Við munum hins vegar gera aðra atlögu að þessu vígi valdsins á næsta þingi og leggja fram frumvarpið á ný. Sjá ræðu mína um málið hér.

Annað atriði í frumvarpinu sem var eyðilagt í meðförum samgöngunefndar voru ákvæði um íbúalýðræði gegnum borgarafundi og íbúakosningar. Þótt ákvæðið væri lélegt frá upphafi vegna þess að íbúakosningar máttu ekki með nokkru móti vera bindandi nema ef sveitarstjórninni sjálfri hugnaðist svo, var það þó örlítið skref í rétta átt. Samgöngunefnd ákvað hins vegar að milli annarar og þriðju umræðu og alveg á síðustu metrum dagsrárinnar á laugardaginn að hækka það hlutfall íbúa sem þarf til að krefjast almennrar kosningar úr 20% (sem þó var allt of hátt  og hefði átt að vera 10%) í að lágmarki 25%. Sveitarstjórnum er þó heimilt að hafa þetta hlutfall allt að 33%.

Þetta er ömurlegt og lýsir best ábyrgðarleysi nefndarmanna samgöngunefndar, eða þá algerri vanþekkingu þeirra á málefninu þar sem rannsóknir hafa sýnt að þegar farið er með þetta hlutfall úr 10% í 15% þá eru afleiðingarnar þær að nánast aldrei verður íbúakosning. Þetta fólk (sjá hér – samgöngunefndarmenn) sem margt hvert lét kjósa sig á forsendum aukins lýðræðis og gagnsæis virðist telja íbúakosningar og frekari lýðræðisvæðingu af hin illa þegar á reynir. Hér er að vísu einnig um að ræða ögrun gagnvart Ögmundi Jónassyni sem var á móti þessum breytingum enda engir kærleikar milli hans og formanns samgöngunefndar Björns Vals Gíslasonar (og sennilega fleiri nefndarmanna í þeirri nefnd) en tillaga BVG hljóðaði fyrst upp á að 50% íbúa þyrfti til að krefjast íbúakosninga. Auk þess voru mikilvægir málaflokkar undanskildir sem gjaldgengir í íbúakosningum. Þess má og geta að títt nefndur BVG situr fyrir Íslands hönd í lýðræðis- og mannréttindanefnd ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu) en sú stofnun hefur að gera með lýðræðis- og koningamál.

Athyglisvert er að þetta er að kröfu Sambands íslenskra sveitarfélaga og að það samband skuli ekki setja fram neinn viðunandi rökstuðning fyrir þessari kröfu. Þess má geta að á ráðstefnu um beint lýðræði sem haldin var í Ráðhúsi Reykjavíkur í s.l. viku kom fram að í rannsóknum á þeim Svissnesnesku kantónum þar sem möguleikar á beinu lýðræði væru meiri var um betri fjárhagsstöðu að ræða, minni skuldsetningu og betri fjármálastjórnum yfir höfuð heldur en þar sem íbúalýðræði var minna og sérstakir þættir, s.s. fjármál voru undanskilin íbúakosningu. Þar kom einnig fram að í Bandaríkjunum var bein fylgni milli minni spillingar og minni óráðsíu í stjórnun almennt annars vegar og aukins íbúalýðræðis hins vegar, bæði á sveitarstjórnar- og fylkisstiginu.

Þetta frumvarp er því orðið að lögum gallað eins og það er. Það er þó dæmigert fyrri þau hroðvirknislegu vinnubrögð sem einkenna því miður svo mikið af störfum Alþingis þegar verið er að keyra í gegn risastór mál á allt of skömmum tíma og menn nýta tímaþröngina til að fá útrás fyrir persónulegar væringar frekar en að huga að almannahag. Ég hef áður haldið því fram að Alþingi íslendinga sé í raun nánast ónýtt sem löggjafarvald ef hugmyndir lýðræðis eru hafðar að leiðarljósi og síðust vikur nýliðins þings hafa ekki gert annað en að styrkja mig í þeirri skoðun.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.9.2011 - 19:40 - FB ummæli ()

Málþóf á Alþingi

Nú stendur yfir málþóf í þinginu þar sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur eru í einhverskonar pissukeppni um að stöðva mál sem ekki er í raun neinn hugmyndafræðilegur ágreiningur um, en það eru frumvarp um Stjórnarráð Íslands og frumvarp um gjaldeyrishöft. Ágreiningurinn er um útfærslur og þegar hafa verið lagðar fram sáttatillögur sem leysa ágreininginn en samt vilja þeir ekki hætta. Því höfum við þessa leiðinlegu stöðu að málþofið er málþófsins vegna og kannski fyrst og fremst hugsað til að sýna hvað menn geta. 

Fyrirkomulagið sem við búum við á Alþingi þar sem eina vopn minnihlutans til að stöðva mál er með s.k. málþófi þar sem við 2. umræðu mála er ræðutími ótakmarkaður er úrelt og þyrfti að breyta. Ekki ætti þó að afnema þennan rétt þingmanna til að ræða mál eins og þeir vilja án þess að möguleiki minnihlutans til að stöðva mál sé áfram til staðar með einhverjum hætti. Því væri óskandi að þingið kæmi sér saman um einhverja aðra aðferð.

Við í Hreyfingunni höfum lagt fram frumvarp í þrí-gang sem kveður á um að 1/3 þingmanna geti krafist þess að tiltekið frumvarp fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því miður hefur frumvarpið okkar ekki fengið náð fyrir augum meirihlutans þó mjög margir þingmenn séu sammála því. Flokksræðið hefur víst síðasta orðið þar eins og í öðru hjá fjórflokknum.

Slíkt fyrirkomulag er í Danmörku og hefur gefið góða raun þar sem umræðan er með allt öðrum hætti og ofríki meirihlutans ekki til staðar en í stað þess er miklu meira samráð og samvinna milli stjórnar og stjórnarandstöðu og einungis einu sinn hefur þurft að grípa til þess að frumvarp fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í bandaríkjunum er fyrir komulagið þannig að nægilegt er að hóta málþófi (kallað „filibuster“) til að mál sé annað hvort endurunnið eða tekið af dagskrá. Þó er hægt að stöðva málþóf með auknum meirihluta, þ.e. ef 2/3 þingmanna eru sammála um að gera það.

Því miður held ég að það sé borin vona að það þing sem nú situr muni geta gert nokkrar breytingar sem máli skipta og því verða landsmenn að vera þolinmóðir og kjósa svo annað fólk og aðra flokka (sem vonandi verður nóg af) í næstu kosningum. Fjórflokksræðinu verður að ljúka.

Hér er  svo smá innleg í þetta frá mér sem tekið var í dag.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.9.2011 - 15:03 - FB ummæli ()

Hálfur Árósarsamningur

Fyrr í dag samþykkti Alþingi endanlega Árósarsamninginn mikilvæga sem staðið hefur í virkjanasinnum árum saman og hvers vöntun í íslensk lög hefur gert það að verkum að Ísland er mjög aftarlega á merinni í umhverfismálum miðað við flest allar nágrannaþjóðir. Það fylgir þó böggull skammrifi eins og segir einhvers staðar, því á síðustu metrunum samþykku VG-liðar að einn mikilvægasti þáttur samningsins, sá sem lýtur að skýlausum rétti einstaklinga til að kæra stjórnvaldsákvarðanir til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, yrði felldur út. Þessi liður er mikilvægur því hann breytti því sem áður var að einstaklingar máttu eingöngu kæra hefðu þeir s.k. „lögvarða hagsmuni“ sem er einfaldlega aðferð lögfræðinnar til að koma í veg fyrir kærur. Sjálfstæðis- og framsóknarmenn komu með breytingartillögu sem eyðileggur þetta mikilvæga ákvæði og færir það í fyrra horf, sögðust ella myndu tefja málið með málþófi yrði hún ekki samþykkt. Það eitt að slík tillaga skuli koma frá Sjálfstæðisflokknum sem kennir sig við einstaklingshyggju og einstaklingsframtak er furðulegt enda kúvending á hugmyndafræði flokssins. Hitt er þó furðulegra að formaður Umhverfisnefndar Mörður Árnason lagði á flótta og lagði m.a. hart að Hreyfingunni að samþykkja þessa breytingartillögu, sem tókst ekki. Hann fékk hins vegar alla þingmenn VG með sér í lið, líka umhverfisráðherrann Svandísi Svavarsdóttur og ergo, eitt mikilvægast atriðið í samningunum er fyrir bí. Atkvæðagreiðsluna má  sjá hér.

Nú geta einstaklingar eingöngu kært slík mál eigi þeir lögvarða hagsmuni þannig að einstaklingar með t.d. áhuga á náttúruvernd eru úti í kuldanum. Eins og segir í breytingartillögunni um kæruréttinn:

„Kærurétt samkvæmt þessari grein eiga þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök sem eiga varnarþing á Íslandi, enda séu félagsmenn þeirra 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Umhverfisverndarsamtök teljast samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 2. og 3. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.“

Einstaklingar verða því að stofna félag með minnst 30 félagsmönnum sem þeir fá engu um að ráða hverjir eru, svona í anda þess þegar Kárahnjúkavirkjanasinnar yfirtóku Náttúruverndarsamtök Austurlands hér um árið. Þeir verða að skrá félagið, skrifa ársskýrslu og ráða endurskoðanda. Ferli sem er flókið, getur verið erfitt og verður kostnaðarsamt. Fyrir utan það að það vilja einfaldlega ekki allir vera í félagi.

Þannig fór því fyrir lýðræðis- og náttúruverndarvakningu þeirri sem Vinstri-grænir og hinn Græni her Marðar Árnasonar notuðu til að fleyta sér in á þing.

Árósarsamingurinn er engu að síður stórt skref fram á við en slíkur gunguháttur að láta Sjálfstæðisflokkinn ráða því að þetta mikilvæga ákvæði var fellt út er alveg ótrúlegur. Málið fer nú aftur til Umhverfisnefndar og þar mun fulltrúi Hreyfingarinnar leggja til að þessi breyting Sjálfstæðis- og framsóknarmanna verði felld út og upprunaleg tillagan látin halda sér. Ef einhverjir umhverfis- og náttúruverndarsinnar lesa þetta hvet ég þá til að hafa samband við fulltrúa fjórflokksins í umhverfisnefnd sem utan Birgittu  eru þessir.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.8.2011 - 13:09 - FB ummæli ()

Alþingi og stjórnarskrártillögur.

Á tveggja daga sumarfundi forsætisnefndar Alþingis sem haldinn var á Hótel Örk í Hvergagerði dagana 24. og 25. ágúst var eitt umfjöllunarefnið tillaga frá forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur um meðferð frumvarps Stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Þess skal getið að forseti Alþingis hefur úrslitavald í forsætisnefnd og atkvæði um tillögur eru ekki greidd. Tillagan er svohljóðandi:

1. Tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar fyrir Alþingi í formi skýrslu frá forsætisnefnd. Til þess að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar fyrir Alþingi þurfa þær að koma fram í formi þingmáls á þingskjali og þingmenn flytji það. Forseti telur heppilegt að tillögurnar komi fram sem skýrsla þar sem með því felst ekki efnislega afstaða til tillagnanna eða einstakra þátta þeirra af hálfu þeirra sem flytja málið.

2. Skýrsla forsætisnefndar verði lögð fram við upphaf nýs þings 1. október n.k. Forseti telur ekki heppilegt að leggja slíka skýrslu fram á septemberfundum þingsins þar sem þingmálið félli niður við upphaf nýs þings 1. okt. auk þess sem varla gæfist þá sá tími til umræðu um málið sem þörf er á.

3. Í skýrslunni verði saga málsins reifuð og fjallað um störf ráðsins, frumvarpstextinn birtur ásamt greinargerð frumvarpsins og jafnframt birt nauðsynleg fylgiskjöl.

4. Gert er ráð fyrir heilsdagsumræðu um skýrsluna á fyrstu dögum nýs þings (að lokinni 1. umr. fjárlaga og fjáraukalaga).

5. Að lokinni umræðu um skýrsluna gangi hún til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til frekari meðferðar. Nefndin geri áætlun um athugun málsins. Æskilegt er að nefndin kalli til fundar við sig ýmsa þá sem hafa unnið að málinu á fyrri stigum þess, t.d. fulltrúa í fyrrum stjórnlaganefnd og stjórnlagaráði, sérfræðinga í stjórnskipunarrétti og aðra þá er nefndin kann að telja gagnlegt að hafa samráð við um meðferð málsins. Nefndin leiti jafnfamt til almennings með auglýsingu um umsagnir líkt og gert var við breytingar á stjórnarskrá á þinginu 1994-95.

Svo er nú það og sýnist væntanlega sitt hverjum. Hér er sem sagt verið að leggja til (og í raun búið að ákveða) að öll sú vinna sem þjóðfundurinn, stjórnlaganefndin og stjórnalgaráðið hafa unnið, endi sem skýrsla á Alþingi og verði rædd þar í einn dag. Síðan fari skýrslan til nefndar sem enn er ekki til, en tilgreind stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er nýmæli í nýjum s.k. þingsköpum sem eru þau lög sem Alþingi starfar eftir og munu taka gildi 1. október. Sú nefnd á svo að gera eitthvað við skýrsluna.

Kannski er ég sá eini sem finnst eitthvað óljóst og jafnvel bogið við þetta en það byggi ég á því að umræða um málið á þessum tveggja daga fundi forsætisnefndar var nánast engin, eða tuttugu mínútur og enginn tók til máls nema ég og Álfheiður Ingadóttir. Tillögu minni um að drögin að stjórnarskrá með greinargerð yrðu send inn á hvert heimili í landinu var hafnað og tillögu minni að drögin yrðu þýdd á ensku var hafnað. Þetta áhugaleysi forsætisnefndar á tillögu forseta og tillögum mínum bendir til þess að annað hvort sé nefndarmönnum slétt sama um þetta ferli eða að samkomulagi hafi verið náð bak við tjöldin fyrir fram. Auk þess vísaði Ásta Ragnheiður til þess að hún legði þessa tillögu fram að höfðu samráði við fulltrúa í stjórnlagaráði sem væru henni samþykk. Það gengur þvert á yfirlýsingar fjölmargra stjórnlagaráðsfulltrúa um að málið eigi að fara fyrst í kynningu hjá þjóðinni og í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi fjalli um málið og er heldur ekki í samræmi við þann fund sem þinghópur Hreyfingarinnar átti með þremur stjórnlagaráðsfulltrúum í síðustu viku. Það væri því áhugavert að fá það staðfest frá stjórnlagaráðsfullrúum hverjir hafa lagt blessun sína yfir þetta ferli.

Þó efasemdir mínar um þetta séu miklar þarf þó að hafa í huga að áframhald málsins er í raun að einhverju leiti galopið og þó þetta sé óvissuferð þá er ekki endilega þar með sagt að Alþingi hafi stolið málinu frá þjóðinni eins og margir eru hræddir um að gerist. Það mun þó fljótlega koma í ljós, en augljósa krafan í dag hlýtur að verða sú að þjóðin verði upplýst um hvaða stefnu þetta mál á að taka. Með það í huga hafði Hreyfingin samband við forsætisráðherra fyrir rúmlega viku og bauð upp á samstarf um framgang þessa mikilvæga máls en því boði hefur ekki enn verið svarað.

Eitt er hins vegar alveg á hreinu og það er að ef Alþingi með öll sérhagsmunatengsl fjórflokksins og þingmanna í forgangi kemst upp með það byrja að breyta efnislega atriðum í frumvarpi stjórnlagaráðs, þá er málið ónýtt og hugmyndin um nýja stjórnarskrá er dauð. Almenningur verður því að láta málið til sín taka.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.6.2011 - 21:40 - FB ummæli ()

Eldhúsdagsræður Hreyfingarinnar

Í gær voru svo kallaðar Elhúsdagsumræður á Alþingi.  Hef ekki hugmynd um hvaðan nafngiftin er komin en þessi liður er ætlaður til almennrar umfjöllunar um stjórnmálavettvanginn og störfin á Alþingi og er í beinni útsendingu á RÚV eins og umræðan um stefnuræðu forsætisráðherra sem er á hverju hausti.  Ræðurnar voru misjafnar eins og gengur og gerist en hér eru ræðurnar sem við í Hreyfingunni fluttum.

Ræðan mínRæða Margrétar  og  Ræða Birgittu.

Eins og fram kemur finnst okkur enn vera mikið ógert varðandi uppgjör á Hruninu og sérstakleg sem snýr að fyrrum þingmönnum og ráðherrum Hrunstjórnarinnar.  Það eru liðin tvö ár af þessu kjörtímabili og vonandi þurfa ekki að líða önnur tvö þar til kemur að kosningum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.6.2011 - 16:17 - FB ummæli ()

Hagsmunir þingmanna.

Við umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið í dag fannst mér tilefni til að gera athugasemd við það að einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins Ásbjörn Óttarsson, tæki þátt í umræðunni þar sem hann er útgerðarmaður og kvótaeigandi og hefur þar af leiðandi beina persónulega fjárhagshagsmuni af því að frumvarpið fari ekki í gegn. Samkvæmt þingsköpum eru þingmenn aldrei vanhæfir nema í málum sem snúa beint að fjárveitingum til þeirra sjálfra og er Ásbjörn því ekki vanhæfur í þessu máli. Mér finnst samt ekki eðlilegt né við hæfi að menn taki þátt í umræðum þegar þeir hafa tengsl við þingmál með þessum hætti sem hann gerði. Við þessi ummæli mín varð mikið uppistand meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem snérust til varnar Ásbirni enda er hann einfaldlega bein framlenging á þeirri hefð Sjálfstæðisflokksins sem hófst með Ólafi Thors, að útgerðarmenn í basli geti best gætt hagsmunna sinna með því að hafa ítök í lagasetningu á Alþingi og í raum má segja að tilvist Sjálfstæðisflokksins snúist og hafi alltaf snúist um það grundvallaratriði að gæta sérhagsmuna. Þess er rétt að geta að formaður Framsóknarflokksins snerist einnig til varnar Sjálfstæðismönnum í þessu máli, sem kom mér nokkuð á óvart.

Hér er tengill  á athugasemd mína en einnig er áhugavert að hlusta á upphrópanir Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna sem fylgdu í kjölfarið. Alþingi í hnotskurn, ekki satt?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur