Í dag kl. 14:30 verður tekið til annarrar umræðu frumvarp fjármálaráðherra um að íslendingar ábyrgist greiðslur vegna innstæðna á Icesave reikningum breta og hollendinga. Hreyfingin hefur í upphafi lagt á það áherslu að skuldir einkafyrirtækisins Landsbankans sem þar að auki virðist hafa verið rekinn í glæpsamlegum tilgangi falli ekki á almenningi í landinu. Nefndarálitið sem fylgir hér fyrir neðan og einnig hér með link á vef Alþingis er ítarleg samantekt á aðkomu og afstöðu Hreyfingarinnar að málinu. Þar höfum við lagt til að úr því að ekki tókst að fá breta og hollendinga til að deila ábyrgðinni með Íslandi að þá verði farin sú leið að íslensk fjármálafyrirtæki greiði Icesave skuldina. Þar leggjum við til að tvær mögulegar leiðir verði skoðaðar. Annars vegar að s.k. „bankaskattur“ sem lagður var á fjármálafyrirtæki í lok síðasta árs verði hækkaður og Icesave skuldbindingin greidd þannig. Hins vegar að nýju frumvarpi um tryggingarsjóð innstæðueigenda verði breytt í þá veru að hluti tryggingargjaldsins verði látinn renna til greiðslu Icesave. Í hvoru tilvikinu sem er myndu fjármálafyrirtækin, m.v. áætlanir um arðsemi næstu ára, ekki finna fyrir því að neinu marki að takast á hendur þessa skuldbindingu.
Nánari útfærslu er að finna í nefndarálitinu undir „Markmið Hreyfingarinnar í Icesave-málinu.“ Ég hvet lesendur til að rýna í álitið, en það gefur all góða insýn í þá stöðu og þau álitamál sem ég tel vera uppi varðandi málið.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 770 — 388. mál.
Nefndarálit
við frv. til l. um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.
Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.
Inngangur.
Fjárlaganefnd hefur nú farið yfir svo kallað Icesave mál í þriðja sinn (hér eftir Icesave III). Fyrsta afgreiðsla nefndarinnar og Alþingis sumarið 2009 endaði með höfnun breskra og hollenskra stjórnvalda á málinu. Annarri afgreiðslu fjárlaganefndar og Alþingis í desember 2009 lauk með samþykkt laga sem forseti Íslands synjaði staðfestingu og fyrstu almennu þjóðaratkvæðagreiðslunni hér á landi. Yfir 93% þeirra sem tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu greiddu atkvæði gegn málinu.
Að ósk breskra og hollenskra stjórnvalda var fjármálaráðherra eindregið hvattur til þess að vinna málið áfram í góðu samráði við þá flokka á þingi sem ekki ættu aðild að ríkisstjórn. Sameiginleg samninganefnd leiddi svo málið til lykta að mestu leyti á haustdögum 2010 og til varð það frumvarp til laga sem nú er rætt.
Samningsdrögin sem undirrituð voru af hálfu samninganefndarinnar eru óumdeilanlega miklu mun hagfelldari fyrir Ísland en áðurnefndir tveir samningar sem gerðir voru og framganga samninganefndarinnar fyrir Íslands hönd hefur verið til fyrirmyndar. Sá mikli munur sem er milli nýju samningsdraganna og eldri samninga vekur hins vegar upp þá spurningu hvort ekki þurfi að fara fram sérstök og ítarleg rannsókn á tilurð fyrri samninga og markmiðum ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega fjármálaráðherra, en fyrri samningar hefðu lagt óbærilegar skuldir á ríkissjóð og þjóðarbúið í heild sinni. Framganga fjármálaráðherra og ríkisstjórnarflokkanna í málinu vekur því eðlilega upp spurningar um ábyrgð stjórnmálamanna á störfum sínum.
Álit þeirra lögmanna sem sent hafa inn umsagnir eru ekki einhliða og nokkuð víst má teljast að sú fullyrðing að Ísland sé ekki lagalega skuldbundið til að greiða Icesave sé rétt, enda er skýrt kveðið á um það í löggjöf Evrópusambandsins að ekki eigi að vera ríkisábyrgð á innstæðutryggingum. Eftir stendur að þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar undir forystu Geirs H. Haarde skuldbatt sig til að greiða það sem bresk og hollensk stjórnvöld lögðu út vegna Icesave-reikninganna. Miðað við þær aðstæður sem Ísland og íslenskt efnahagslíf og fjármálakerfi var í á þeim tíma verður að gera ráð fyrir að sú ákvörðun hafi verið tekin undir þrýstingi og ekki að vel athuguðu máli.
Eins og síðar kom í ljós í Icesave I og Icesave II átti að leggja óásættanlegar skuldbindingar á íslenska þjóðarbúið, vegna íslenskra stjórnvaldsákvarðana. Skuldbindingar sem það líklega hefði ekki staðið undir.
Vel rökstutt álit Peter Örebech prófessors við Háskólann í Tromsö í Noregi ætti að vera grundvallargagn í þessu máli þar sem hann hafnar því að Íslendingum beri að greiða þessa skuld. Eins og Peter Örebech segir orðrétt: „Hann (Icesave samningurinn) ýtir undir þá tilhneigingu að veita bönkum ótakmarkaða ríkisábyrgð. Í þessu tilviki er hæpið að tala um lagaleg rök fyrir þörfinni á tryggingum og því síður verða færð sanngirnisrök fyrir henni. Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands mundu aldrei verða við kröfum erlendra innstæðueigenda sem næmu þriðjungi af þjóðarframleiðslu ef einn af stóru bönkunum þeirra félli.“
Þess má geta að Icesave-krafan hljóðar upp á 674 milljarða kr. miðað við kröfulýsingardag í apríl 2009. Sú upphæð nemur 45% af vergri landsframleiðslu (VLF) þess árs og 44% af áætlaðri VLF ársins 2010. Það er alveg óhætt að fullyrða að ekki nokkurt ríki í heiminum mundi takast á hendur slíka skuldbindingu vegna falls banka, að ekki sé talað um banka sem voru líklega reknir í glæpsamlegum tilgangi. Vilji og framganga þeirra ríkisstjórna Íslands sem hafa komið að þessu máli hingað til er því með öllu óskiljanleg út frá sjónarmiðum um almannahagsmuni og skýrt dæmi um stöðu yfirvalds sem einhverra hluta vegna telur sig yfir það hafið að gæta hagsmuna almennings.
Markmið Hreyfingarinnar í Icesave-málinu.
Markmið Hreyfingarinnar í þeim samningaviðræðum sem áttu sér stað var að Icesave- skuld þrotabús Landsbankans yrði ekki velt yfir á íslenska skattgreiðendur eingöngu, heldur yrðu eignir þrotabúsins sú greiðsla sem kæmi í hlut breska innstæðutryggingarsjóðsins og hollenska seðlabankans sem áður höfðu greitt innstæðutryggingar vegna Icesave-reikninganna. Ef eitthvað stæði út af að loknu uppgjöri þrotabúsins mundi sú upphæð skiptast til jafns á bresk, hollensk og íslensk stjórnvöld. Þetta markmið náðist ekki og niðurstaðan er sú að ríkissjóður Íslands ábyrgist allar greiðslur. Í samræmi við það markmið að almenningi yrði ekki gert að axla þessa greiðslubyrði hefur Hreyfingin lagt til í fjárlaganefnd að málið yrði sent til efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar með ósk um að leitað yrði leiða til að fjármálafyrirtæki landsins tækju þessar greiðslur á sig.
Rökin fyrir því eru að með því yrði komið inn ákveðinni hugmyndafræði um samábyrgð samtaka í atvinnurekstri, í þessu tilfelli Samtaka fjármálafyrirtækja, sem leiðir til þess að heilar starfsgreinar hefðu hvata til þess að halda í heiðri skynsamlegt verklag. Einni yrði um ákveðna sáttaleið að ræða en það voru einmitt fjármálafyrirtæki sem báru meginábyrgð á bankahruninu og þótt núverandi fjármálafyrirtæki beri þar ekki öll sök þá bera engu að síður margir núverandi eigenda þeirra og starfsmanna beint eða óbeint ábyrgð á hvernig fór. Með því að axla þessa byrði mundu fjármálafyrirtæki leggja fram sinn skerf til þeirra nauðsynlegu sátta sem þarf að ná í samfélaginu vegna afleiðinga hrunsins. Upphæðirnar sem um er að ræða ef tekið er mið af áætlunum samninganefndarinnar eru heldur ekki hærri en svo að fyrirtækjum í þessum geira munar tiltölulega lítið um þær greiðslur þar sem þær dreifast á allnokkur ár.
Tilmælin til efnahags- og skattanefndar eru að svonefndur „bankaskattur“, samkvæmt lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, verði hækkaður til að ná utan um greiðslur vegna Icesave, en gjaldið nemur nú 0,045% af heildarskuldum fjármálafyrirtækis og er samkvæmt því ætlað að skila um einum milljarði króna á ári. Tilmælin til viðskiptanefndar eru að frumvarpi til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (þskj. 268, 237. mál) verði breytt með þeim hætti að hluti greiðslna sem ætlaður er í nýstofnaðan innstæðutryggingarsjóð renni í stað þess í eldri tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og verði sá sjóður notaður til að greiða Icesave-skuldina. Innstæðutryggingarsjóðir eru í eðli sínu samtryggingarsjóðir þar sem öll fjármálafyrirtæki greiða í sameiginlegan sjóð sem tryggir innstæður sparifjáreigenda ef eitt (eða fleiri) fyrirtæki í greininni fara í þrot. Það er því ekkert óeðlilegt við það að framtíðargreiðslur í slíkan sjóð fari til þess að greiða upp eldri skuld sjóðsins ef ekki hefur verið í honum nægilegt fjármagn á þeim tímapunkti þegar þess þurfti með.
Í báðum tilfellum er lagt til að um tímabundna ráðstöfun verði að ræða sem falli niður þegar Icesave-skuldin er uppgreidd.
Tilskipun ESB um innstæðutryggingarkerfið gerir ekki ráð fyrir ríkisábyrgð og því mun greiðslan sem fellur á íslenska ríkið stangast á við evrópskt regluverk og vera slæmt fordæmi hvað varðar ríkisstuðning við fjármálafyrirtæki.
Fjárlaganefnd samþykkti að senda áðurgreindum nefndum þessi tilmæli en ákvað svo að bíða ekki eftir áliti þeirra og tók málið út úr nefndinni í andstöðu við 1. minni hluta vegna þess. 1. minni hluta er óskiljanlegt hvers vegna þetta verklag er haft þar sem skýrt hefur komið fram í máli samninganefndarmanna að það sé engin tímapressa á málinu og 1. minni hluti telur til mikils að vinna að ná sáttum um málið í fjárlaganefnd og á Alþingi öllu. Það virðist hins vegar ekki vera áhugi á því hjá meiri hlutanum og meðferð málsins í nefndinni hefur því miður verið í ætt við slælega skrifað leikrit fremur en vinnulag sem hefur góða niðurstöðu og sátt að markmiði. Að sögn formanns nefndarinnar mun fjárlaganefnd skoða niðurstöður efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar þegar málið kemur til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umræðu og ef svo fer að niðurstaðan verði að önnur hvor þeirra leiða sem lagðar eru til verði farin mun 1. minni hluti breyta afstöðu sinni til málsins.
Verklag fjárlaganefndar og Alþingis.
Nýi Icesave-samningurinn var gerður í byrjun desember og eftir umfjöllum í ríkisstjórn taldi hún mikilvægt að hann færi sem fyrst til Alþingis. Að undirlagi ríkisstjórnarinnar beitti forseti Alþingis sér fyrir því að samkomulag næðist milli allra flokka á Alþingi um meðferð málsins þannig að hægt yrði að mæla fyrir því fyrir jólahlé þingsins. Samkomulag náðist sem kvað á um að lokinni fyrstu umræðu færi málið til fjárlaganefndar sem átti að vinna málið í sameiningu, en eins og segir orðrétt í samkomulaginu: „Nefndin skipuleggur starf sitt í sameiningu með það að markmiði að 2. umræða geti hafist fljótlega eftir að þing kemur saman að nýju eftir áramót samkvæmt starfsáætlun, enda telji nefndin þá málið tilbúið til afgreiðslu.“ Samkomulag þetta, dagsett 16. desember 2010 og staðfest með undirskriftum forseta Alþingis og formanna þingflokka (varaformanns þingflokks Framsóknarflokks), var hins vegar rofið tveimur dögum síðar er formaður fjárlaganefndar boðaði til fundahalda í nefndinni í jólahléi Alþingis í ósamkomulagi við aðra nefndarmenn. Eftirtektarvert er að formaður fjárlaganefndar hugðist vera erlendis í fríi á sama tíma. Þrátt fyrir áköf og ítrekuð andmæli Hreyfingarinnar hélt meiri hluti nefndarinnar því til streitu að samkomulagið skyldi rofið. Með þöglu samþykki formanna annarra þingflokka var það gert og nefndin fundaði í jólahléi þingsins í fjarveru formanns. Forseti Alþingis sá heldur ekki ástæðu til að skipta sér af samningsrofinu þrátt fyrir að hafa undirritað það.
Vinna við málið í fjárlaganefnd hefur því verið á forsendum meiri hlutans sem ekki aðeins hafnaði samvinnu um málið heldur rauf undirritað samkomulag um málsmeðferðina. Það er dapurlegt að hugsa til þess að sjálft löggjafarvald þjóðarinnar skuli ástunda slík vinnubrögð og vekur óneitanlega upp spurningar um siðferðilega stöðu þess.
Samningurinn.
Hvað samninginn sjálfan varðar þá má gera ráð fyrir að hér sé ekki hægt að komast lengra þótt reynt væri, en núverandi samningur er umtalsvert hagfelldari fyrir Ísland en fyrri samningar. Eftir stendur þó að það er alls ekki útkljáð mál hvort Íslendingum beri yfirleitt nokkur skylda til að greiða kröfu Hollendinga og Breta enda ekki gert ráð fyrir ríkisábyrgð á innstæðutryggingum í tilskipun Evrópusambandsins. Eftirtektarvert er að einn samningamanna fyrir Ísland, Lee C. Buchheit, hefur sagt að persónulega telji hann að Ísland eigi ekki að greiða Icesave.
Samningurinn gerir ráð fyrir að íslenska ríkið gangist í ábyrgð fyrir endurgreiðslum til Breta og Hollendinga vegna þeirra Icesave-reikninga sem voru í útibúum Landsbankans í viðkomandi löndum. Samningurinn sjálfur er með umtalsvert lægri vöxtum en fyrri samningar en þess ber þá að geta að vextir almennt hafa farið lækkandi og vextirnir í þessum samningum eru í takt við þær vaxtalækkanir sem hafa almennt orðið. Þess má geta að svo kallaðir CIRR-vextir (commercial interest reference rate) gilda eftir árið 2016, en það 125 punkta vaxtaálag sem var í fyrri samningi er í þessum samningum fellt brott. Að teknu tilliti til vaxtahlés og áætlana um lækkun höfuðstóls samsvara áætlaðir vextir áranna 2009–2016 því að þeir væru að meðaltali 2,64%. Þessi breyting skiptir umtalsverðu máli þegar kemur að heildarendurgreiðslum. Miðað við áætlun skilanefndar Landsbankans um að eftirstöðvar verði að fullu greiddar upp í júní 2017 má áætla að heildarkostnaður verði um 67 milljarðar kr. Á móti kemur eign Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta upp á um 20 milljarða kr. þannig að miðað við bestu útkomu mun heildarkostnaður fyrir ríkissjóð verða um 47 milljarðar kr.
Núverandi samningur inniheldur einnig góða efnahagslega fyrirvara sem gera ráð fyrir að greiðslubyrði ríkissjóðs verði aldrei hærri en sem nemur 5% af tekjum miðað við fyrra ár eða 1,3% af vergri landsframleiðslu, eftir því hvor talan er hærri. Hér er um að ræða umtalsverðan öryggisventil gagnvart íslenskum skattgreiðendum þar sem þak á þessa ákveðnu skuldbindingu er sett. Hér þarf þó að horfa á Icesave í samhengi við aðrar skuldir hins opinbera, skuldir þjóðarbúsins og möguleikana á því að standa undir öllum þeim skuldbindingum samhliða Icesave-samkomulaginu.
Mat skilanefndar Landsbankans er að um 86% endurheimtur verði úr þrotabúinu. Þar er miðað við að reglubundið mat á eignum og endurheimtum þeirra í fortíðinni verði áfram svipað í framtíðinni. Mat skilanefndar hingað til hefur að mestu staðist og heimtur verið í samræmi við væntingar og því ástæða til bjartsýni hvað þennan þátt varðar. Hins vegar má ekki mikið bregða út af til þess að skuldbindingin sem lendir á ríkissjóði hækki til muna og í áhættumati GAMMA kemur fram að lækkun á endurheimtum um 10% ásamt töf á útgreiðslum úr búinu um níu mánuði leiði til þess að skuldbindingin verður 145 milljarðar kr.
Umsagnir.
Athygli vekur hversu mismunandi umsagnir eru um þau samningsdrög sem nú liggja fyrir og að ekki er varið miklum tíma í ítarlega umfjöllun um þær álögur sem leggjast á almenning í landinu vegna samþykktar samningsins nema í fáum tilvikum.
Alþýðusamband Íslands, stærsta samband verkalýðsfélaga á Íslandi, sendi inn mjög einkennilega umsögn og gerir ekki einu sinni tilraun til að greina hvað samningsdrögin þýða fyrir almenning ef samþykkt verða. Álit ASÍ er sex málsgreinar og af þeim eru fimm algerlega órökstuddar fullyrðingar eða innatómir frasar og jafnvel ótengdar efninu. Það er einkennileg aðkoma þar sem vitað er að skuldir ríkissjóðs og þjóðarbúsins í heild eru við þolmörk eða jafnvel yfir þeim og að auknar skuldir ríkissjóðs vegna samningsins munu kalla á skattahækkanir og frekari niðurskurð sem bitnar fyrst og fremst á félagsmönnum aðildarsamtaka ASÍ.
Álit Seðlabanka Íslands er að því er virðist fullt af þversögnum sem ganga alls ekki upp. Varðandi gengisbreytingar og áhrif þeirra setur Seðlabankinn verðbólgu sem áhrifaþátt á gengisbreytingar og snýr við þeirri orsakaröð sem gilt hefur hér á landi undanfarin ár að lækkun á gengi krónunnar leiðir til aukinnar verðbólgu en ekki öfugt. Bankinn telur í framhaldinu að takist honum að halda verðbólgumarkmiði sínu innan 2,5% muni gengið ekki lækka. Í umfjöllun sinni um raungengi ýjar Seðlabankinn að því að vegna lágs raungengis í kjölfar kreppunnar muni það hækka en gleymir að geta þess að í spám sínum um þróun raungengis næstu árin er gert áfram ráð fyrir mjög lágu raungengi (í sögulegu samhengi). Þegar vísað er í aukinn útflutning sem uppbót vegna hugsanlegrar gengislækkunar í neðanmálsgrein á bls. 4 í áliti Seðlabankans gleymist að geta þess að um aukningu í krónum er að ræða en ekki aukningu í magni útflutnings enda vandséð hvernig auka eigi magnútflutning helstu útflutningsafurða landsins, fisks og áls, bæði til skamms tíma og til lengri tíma litið. Greiðslur af Icesave eru hins vegar í erlendum myntum.
Seðlabankinn gerir heldur ekki ítarlega áhættugreiningu á efnahagslegum þáttum samningsins en skautar fremur létt yfir þau atriði sem mestu máli skipta, þ.e. endurheimtur úr búinu og gengisáhættu, og minnist ekki á önnur mikilvæg atriði, svo sem tafir á útgreiðslum vegna dómsmála og skuldaþol þjóðarbúsins.
Skuldaþolsútreikningar bankans fyrir ríkissjóð taka ekki til allra skulda hins opinbera, þ.e. undanskildar eru skuldir sveitarfélaga sem munu í auknum mæli lenda á ríkissjóði, og í þeim ekki er gert ráð fyrir að ríkisábyrgðir, sem nú nema yfir 1.300 milljörðum kr., muni að einhverju leyti falla á ríkissjóð. Það gerðist hins vegar í lok sl. árs að ríkisábyrgðir að upphæð 55 milljarðar kr. fóru inn í fjáraukalög ársins 2010 vegna fallinna eða nær fallinna ríkisábyrgða (Lánasjóður Landbúnaðarins og Íbúðalánasjóður) og framundan er stórfelld aukning í ríkisábyrgðum vegna áframhaldandi uppbyggingar fjármálakerfisins. Þar er um að ræða útgjöld upp á 26 milljarða kr. vegna VBS, 12 milljarða kr. vegna Sjóvár, 20 milljarða kr. vegna Saga Capital, 6 milljarða kr. vegna Aska Capital, 5 milljarða kr. vegna Byrs, 14 milljarða kr. vegna Sparisjóðs Keflavíkur og væntanlega 3,5 milljarða kr. vegna Byggðastofnunar. Alls gerir þetta um 87 milljarða kr. án beinna heimilda en óljósar tilvísanir í neyðarlögin koma fram. Þess má geta að sá sjóður sem átti að standa undir áföllum vegna fallinna ríkisábyrgða og er í vörslu Seðlabankans, sk. Ríkisábyrgðasjóður, er tómur. Ríkissjóður hefur að auki gengist í ábyrgð fyrir a.m.k. 141 milljarði kr. vegna yfirtöku Arion Banka og Íslandsbanka á þrotabúum SPRON/Dróma annars vegar og Straums/Burðaráss hins vegar. Auk þess hefur fjármálaráðherra með yfirlýsingu gefið út að allar innstæður í bönkum og fjármálastofnunum séu með ríkisábyrgð án þess að Alþingi hafi samþykkt lög þess efnis.
Spár Seðlabankans um skuldir sem hlutfall af VLF gera einnig ráð fyrir framtíðaraukningu landsframleiðslu sem hvorki núna né í nánustu framtíð virðist raunhæft þar sem aukning VLF sem átti að koma úr virkjanaframkvæmdum og álútflutningi mun ekki ganga eftir og sú aukning í VLF sem á að koma með aukinni einkaneyslu er ólíkleg vegna slæmrar skuldastöðu heimilanna. Eins og fram hefur komið verður sú skuldastaða ekki leiðrétt sem neinu nemur af hálfu stjórnvalda.
Hvað varðar afléttingu gjaldeyrishafta virðist Seðlabankinn ekki gera ráð fyrir að það fylgi því neinn kostnaður að verja gengi krónunnar, en við afléttingu gjaldeyrishafta má gera ráð fyrir stórfelldu útstreymi gjaldeyris. Seðlabankinn var beðinn um að svara tveimur mikilvægum spurningum um málið. Sú fyrri hljóðaði upp á hvort það væri forsenda þess að geta metið Icesave III samningsdrögin að vita hvernig verður losað um gjaldeyrishöftin og sú síðari var hvort bíða ætti með að losa um gjaldeyrishöftin þar til greitt hefur verið úr þrotabúi Landsbankans.
Svar Seðlabankans við báðum spurningunum er nei en ekki verður séð annað en að rökstuðningur bankans með svörunum sé í besta falli einkennilegur og standist ekki hefðbundin hagfræðileg lögmál, að því marki sem má leyfa sér að tala um lögmál í fræðigreininni hagfræði yfirleitt. Þess má geta að Seðlabankinn gerir ráð fyrir hækkandi raungengi en spár bankans um hagvöxt og viðskiptajöfnuð ganga hins vegar ekki upp nema raungengið verði áfram jafn lagt og nú er.
Við aukið gjaldeyrisútstreymi vegna afnáms gjaldeyrishafta er líklegt að gengi krónunnar falli enn neðar. Gengi krónunnar verður eingöngu varið með því að eyða þeim lánum og lánalínum sem til staðar eru sem þýðir gríðarlega aukningu í skuldsetningu þjóðarbúsins og stórfellda aukningu á erlendum skuldum. Slíkri aukningu á skuldum verður að mæta með skattahækkunum og/eða frekari niðurskurði sem við núverandi skuldastöðu heimila leiðir að öllum líkindum til mikils samdráttar í einkaneyslu og þar með samdráttar í VLF. Fall á gengi krónunnar mun einnig auka skuldir heimilanna stórlega vegna þeirra verðbólgu- og verðtryggingaráhrifa sem slík þróun hefur. Bankinn gerir heldur enga tilraun til að meta áhrif af slíku útstreymi gjaldeyris en skuldaaukningin sem fylgir því að verja krónuna mun líklega leiða til þess að þanþol ríkissjóðs og þjóðarbúsins vegna skuldsetningar brestur.
IFS greining gerir ekki ráð fyrir að sveiflur í gengi og endurheimtum úr búinu séu til þess fallnar að valda búsifjum nema hugsanlega til skemmri tíma litið. Gengisáhætta er enn til staðar en efnahagslegir fyrirvarar ganga nægilega langt til að verja þjóðarbúið við langtímaáfalli. Spá IFS er þó byggð á því að hér verði hagvöxtur með rætur í aukinni erlendri fjárfestingu sem verður að gera fyrirvara við.
InDefence-hópurinn skilaði einnig inn mjög ítarlegri umsögn og veltir upp áhættunni sem fylgir lægri endurheimtum, töfum á útgreiðslum úr þrotabúinu og gjaldmiðlaáhættunni. Helstu áhersluatriði InDefence eru að lausn deilunnar þurfi að byggjast á þremur þáttum: Það komi fram að ekki sé lögbundin greiðsluskylda að baki kröfum Breta og Hollendinga, að samningar feli í sér skipta ábyrgð allra samningsaðila, og að samningar feli í sér skipta áhættu allra samningsaðila. Að mati Indefence endurspegla núverandi samningsdrög ekki þessa þætti.
GAMMA er með ítarlegustu greininguna á þeim áhættuþáttum sem skipta almenning mestu máli. GAMMA metur mjög ítarlega alla áhættuþætti og niðurstaðan er að heildarkostnaður vegna Icesave III geti verið á bilinu 26–233 milljarðar kr. Í fyrra tilfellinu er miðað við að aukinn forgangur fáist í útgreiðslur úr þrotabúinu (sk. Ragnars H. Hall ákvæði) og að gengi krónunnar styrkist um 2% ársfjórðungslega út greiðslutímann. Miðað við óbreytt gengi krónunnar er athyglisvert að sjá að endurheimtur úr búinu og tafir á útgreiðslum skipta miklu máli en 10% lakari endurheimtur og níu mánaða töf á útgreiðslum leiða til heildarkostnaðar upp á 145 milljarða kr. Ekki má teljast ólíklegt að endurheimtur úr búinu verðir lakari en gert er ráð fyrir og ekki er heldur ólíklegt að tafir vegna dómsmála seinki útgreiðslum. Í sviðsmynd GAMMA þar sem gert er ráð fyrir 10% lakari endurheimtum úr búinu, níu mánaða seinkun á fyrstu endurgreiðslu og 1% veikingu krónunnar ársfjórðungslega, fer heildarskuldin í 182 milljarða kr. og miðað við 2% lækkun krónu ársfjórðungslega fer heildarskuldin í 233 milljarða kr. Þessar tvær síðustu sviðsmyndir eru alls ekki ólíklegar og gera það að verkum að varasamt er að samþykkja þennan samning án frekari fyrirvara.
Niðurstaða.
Gengi krónunnar er mikilli óvissu háð þar sem samstarfsáætlun ríkisstjórnarinnar og AGS gerir ráð fyrir afléttingu gjaldeyrishafta og Seðlabankinn hefur lýst því yfir að gjaldeyrishöftum verði aflétt á þessu ári. Sú staðhæfing Seðlabankans að aflétting gjaldeyrishafta muni ekki leið til falls krónunnar er ekki vel rökstudd og væri það mikið ógæfuskref að aflétta höftum við þessar kringumstæður. Þó má hugsa sér aðferð, svo sem stigvaxandi skattlagningu á gjaldeyrisútstreymi, sem leiddi til þess að eitthvað kæmi upp í þann kostnað sem aflétting hafta hefur í för með sé.
Greining GAMMA á „stóru myndinni“ vekur upp ýmsar spurningar um skulda- og greiðsluþol ríkissjóðs og þjóðarbúsins í heild. Gjaldeyristekjur eru ekki líklegar til að aukast vegna hins fasta framleiðslumagns í helstu útflutningsgreinum landsins og ekki verður um aukinn afgang af vöruskiptajöfnuði né þjónustujöfnuði að ræða. Líklegra er að sá afgangur minnki um leið og hagkerfið tekur við sér sem þó er alls ekki ljóst að gerist.
Skuldaskil þrotabúsins mun hafa áhrif á greiðslujöfnuð landsins þar sem töluvert af eignum þrotabúsins upp í Icesave-kröfurnar eru í íslenskum krónum sem þarf að skipta yfir í evrur og pund svo greiðslur geti átt sér stað. Þegar haft er í huga að nú þegar má lítið út af bera til að ekki hægt sé að fá inn gjaldeyri upp í innflutning, erlenda vexti og afborganir má fastlega gera ráð fyrir að erlend skuld vegna Icesave til viðbótar, með þeirri óvissu og áhættu sem henni fylgir, geri skuldastöðu landsins enn valtari.
Skuldaþol ríkissjóðs er komið á viðkvæmt stig. Heildarskuldir ríkissjóðs í lok desember 2010 námu rétt tæplega 1.300 milljörðum kr. og greiðsluferill þeirra er mjög framhlaðinn, þ.e. vegna mikilla afborgana á næstu 3–5 árum þarf að endurfjármagna þessar skuldir sem getur reynst dýrt og jafnvel erfitt. Ríkisábyrgðir nema um 1.350 milljörðum kr. og gera má ráð fyrir aukningu á þeim vegna endurreisnar fjármálakerfisins. Þó ekki sé rétt að telja að þessar ábyrgðir með beinum skuldum ríkissjóðs eru þær skuldir fyrirtækja í eigu ríkisins og má gera ráð fyrir að þær muni falla á ríkissjóð í meira mæli en á árunum fyrir hrun. Þá eru ótaldar skuldir sveitarfélaga sem munu að einhverju leyti lenda á ríkissjóði. Ef með eru taldar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs upp á vel á þriðja hundrað milljarða króna má sjá að ríkissjóður er mjög líklega kominn í ógöngur.
Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 472 milljarðar kr. (rekstrargrunnur) á árinu 2011 en útgjöld vegna vaxta nema um 75 milljörðum kr. eða um 16% af tekjum. Ekki má teljast ólíklegt að vaxtakostnaður muni hækka enn frekar þar sem lánsfjárþörf ríkissjóðs mun frekar aukast á næstu árum en hitt.
Það þröngt hnýtta samspil sem er milli þeirra þátta efnahagslífsins sem Icesave III hefur áhrif á getur mjög auðveldlega leitt þjóðabúið í ógöngur. Aukinn vaxtakostnaður ríkissjóðs vegna fyrirséðra lántaka getur leitt til skattahækkana eða frekari niðurskurðar sem aftur leiðir til minni ráðstöfunartekna fyrir heimilin og gerir það að verkum að ekki verður aukning á einkaneysluþætti landsframleiðslunnar. Afnám gjaldeyrishafta ásamt aukinni erlendri skuldsetningu því samfara mun einnig auka vaxtaútgjöld ríkissjóðs og lækkun á gengi krónunnar mun þýða aukna verðbólgu vegna verðhækkana á innflutningi, sem leiðir til aukinna skulda heimilanna vegna verðtryggingarinnar. Þetta samspil gerir það að verkum að mjög áhættusamt getur verið að samþykkja Icesave III óbreytt.
Þó að umsagnir matsfyrirtækja hafi alla tíð verið á sömu lund, þ.e. að það hafi góð áhrif á lánshæfismat Íslands ef Íslendingar samþykkja að greiða Icesave, þá er það álit ekki rökrétt þar sem samþykkt Icesave III hefur áhrif á skuldastöðu landsins til hins verra og eykur á áhættuna sem fylgir lánveitingum til landsins. Ólíklegt má því teljast miðað við skuldastöðu Íslands að lánshæfismatið hækki við samþykkt Icesave III samninganna. Starfsemi matsfyrirtækjanna hefur og sætt mikilli gagnrýni undanfarin ár og ber að taka öllu sem frá þeim kemur með mikilli varúð.
Þegar haft er í huga að skuldsetning ríkissjóðs og þjóðarbúsins er við þolmörk eða komin yfir þau og að aukning skulda vegna Icesave III getur, við það sem má telja ekki ólíklegar kringumstæður, verið um 233 milljarðar kr., er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að of áhættusamt sé að samþykkja samninginn.
Siðferðilegt álitamál sem ekki hefur heldur verið nægilega rætt er hvort réttlætanlegt sé að velta skuldum einkafyrirtækis yfir á almenning í landinu. Í tilfelli Landsbankans hf. er um að ræða fyrirtæki sem virðist ekki eingöngu hafa staðið að rangri upplýsingagjöf til eftirlitsaðila og almennings heldur einnig tekið stöðu gegn krónunni í gjaldmiðlaskiptasamningum. Bankinn virðist einnig hafa verið hreinsaður að innan af stjórnarmönnum, eigendum og aðilum tengdum þeim, þar sem viðhorfið virtist vera að innstæður í bankanum væru eign eigenda bankans. Leiða má líkur að því að Landsbankinn hafi verið rekinn í glæpsamlegum tilgangi af eigendum og stjórnendum og það er því algerlega óforsvaranlegt að yfirvöld á Íslandi skuli ekkert hafa gert til að frysta eigur þeirra sem voru í stjórn og stóðu að ákvarðanatöku bankans.
Alþingi, 30. jan. 2011.
Þór Saari.
Nýlegar athugasemdir