Miðvikudagur 23.3.2011 - 23:06 - FB ummæli ()

Stjórnlagaráðið

Á morgun verða greidd atkvæði um stjórnlagaráðið sem á að gera drög að nýrri stjórnarskrá fyrir landið. Morgundagurinn er enn ein varðan á þeirri þrautagöngu sem ný stjórnarskrá hefur þurft að þola alveg frá lýðveldisstofnun. Hreyfingin hefur alltaf lagt mikla áherslu á að aðkoma almennings verði sem mest og víðtækust þegar kemur að því að gera nýja stjórnarkrá og í fáum málum höfum við beitt okkur meir en stjórnlagaþings málinu. Ekki tókst að fá inn afgerandi ákvæði í þingsályktunartillögun um stjórnlagaráðið um hvort afurð þess (drög að nýrri stjórnarkrá) færu fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi færi að krukka í plaggið. Því höfum við samið og lagt fram breytingartillögu við tillöguna sem kemur til atkvæða á morgun. Breytingartillagan í heild sinni er hér.

Breytingartillagan snýst um að það frumvarp til stjórnskipunarlaga sem kemur frá stjórnlagaráðinu fari fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu, grein fyrir grein eða samhangandi greinar, áður en Alþingi fær málið til meðferðar. Þannig verður Alþingi ljóst hver vilji þjóðarinnar er fyrir fram og fjórflokknum verður þar með gert erfiðara fyrir að hafa nýja stjórnarskrá í samræmi við eigin gæluhugmyndir um samfélag, hagsmuni og stjórnskipan hinna fáu útvöldu. Vonandi sjáum við lýðræðinu hampað á Alþingi á morgun.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.3.2011 - 22:25 - FB ummæli ()

Atvinnumálin

Atvinnumálin voru enn einu sinni tekin fyrir í liðnum „Störf þingsins“ í dag og eins og venjulega lét hátt í mönnum og þeir heimtuðu erlenda fjárfestingu, stórðju og kvörtuðu undan ríkisstjórninni. Ég tók aðeins þátt enda hafði sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd tekið frumvarp Hreyfingarinnar á dagskrá í morgun en það snýr að því að afla veiddum í íslenskri lögsögu verði landað á innlenda fiskmarkaði (með ýmsum undantekningum þó). Það kom fram í morgun að líkleg myndu skapast um 800 til 1.000 störf hér á landi við þetta, með mjög litlum tilkostnaði og á skömmum tíma (innan þriggja mánaða). Að sjálfsögðu var LÍÚ á móti hugmyndinni sem og Verslunarráð Íslands sem virðist aðeins aðhyllast markaði þegar það hentar þeim sem fjármagna ráðið. Hvað Verslunarráð var að gera á þessum fundi er svo spurning sem aðrir verða að svara. Umræðan í nefndinni kláraðist ekki en framhald verður á henni næsta miðvikudag.

Þetta vakti nokkra athygli fjölmiðla og RÚV var með þessa frétt, innlegg mitt á þinginu er hér  og í Reykjavík síðdegis var stutt viðtal við mig sem   er hér.  Það eru margir áhugaverðir vinklar á þessu máli en það dapurlega er að frekar lítill áhugi er á atvinnusköpun ef hún er ekki undir formerkjum einhvers sem menn kalla erlenda fjárfestingu eða er beintengd því að Icesave klafinn verði samþykktur. Svona gerast nú kaupin á eyrinni þeirri sem heitir Alþingi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.3.2011 - 16:49 - FB ummæli ()

Milljarðarnir 26

Fyrsta greiðslan vegna Icesave verður daginn eftir „Jáið“ þann 11. mars ef það verður já og verður rúmlega 26 milljarðar. Þetta er áfallnir vextir og koma aldei til baka þar sem vextir eru ekki forgangskröfur. Þetta eru peningar sem jafngilda öllum launakostnaði Landspítalans árið 2009 og fara beinustu leið úr landi og út úr hagkerfinu, þ.e. eru bein blóðtaka fyrir þjóðarbúið sem verður aðeins greitt með hærri sköttum á íslendinga. 

Að taka 2o milljarða úr TIF sjóðnum fyrir þessu (Icesave) gerir það einfaldlega að verkum að ekkert verður eftir í honum fyrir öll hin fjármálafyrirtækin sem hrundu og munu því þurfa að fá fé beint frá skattborgurum. Það er bara verið að taka peninga úr einum vasa í stað annars á sömu buxunum. Þetta er því hluti af blekkingaráróðrinum um Icesave, að peningar í TIF sjóðnum gagnist Icesave eitthvað sérstaklega. Almenningur mun á endanum borga hvort sem það verður beint eða í gegnum TIF sjóðinn.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.3.2011 - 17:48 - FB ummæli ()

Silfrið í dag

Þarf að byrja á smá leiðréttingu þar sem ég í Silfrinu vísaði í 26 milljarðana sem verða greiddir út strax eftir „Jáið“ í kosningunum um Icesave, ef það verður Já. Þar vafðist mér tunga um tönn og talaði um launakostnað Landbankans 2009 og rekstur Landsbankans árið 2011 til samanburðar. Hér átti ég að sjálfsögðu við Landspítalann en heildarlaunakostnaður Landspítalans árið 2009 var 26 milljarðar og framlög ríkisins til reksturs alls Landspítalans á þessu ári nema 32 milljörðum. 26 milljarðar eru áföllnu vextirnir sem við munum að lágmarki greiða og verða ekki endurheimtir úr þrotabúinu frekar en aðrar vaxtagreiðslur vegna Icesave, þar sem vextir eru ekki forgangskröfur í búið. Þetta fé er ekki eins og hvert annað ríkisframlag sem fer út í hagkerfið og eykur veltu þar, heldur er þetta bein útgreiðsla út úr hagkerfinu og úr landi og bein skerðing á lífskjörum þjóðarinnar og verður ekki greitt nema með hærri sköttum. Miðað við ekki mjög ólíklegar forsendur getur þessi upphæð svo farið í 233 milljarða, en meira um það í síðari pistlum.

Það var athyglisvert að taka þátt í umræðunum í Silfri Egils í dag og verða vitni að því viðhorfi að íslendingar gætu einhverra hluta vegna ekki greitt atkvæði um Icesave. Málið væri of flókið, það væri ekki hægt að leggja það á þjóðina, málið væri ekki hæft til þjóðaratkvæðagreiðslu og svo framvegis. Mér virðist það vera all algengt viðhorf hjá „já-bræðralaginu“ að almenningur á Íslandi sé á einhvern hátt of illa gefinn miðað við aðrar þjóðir þegar kemur að lýðræðinu og geti ekki tekið ákvarðanir. Þótt Icesave málið sé stórt og flókið er það einfaldlega hlutverk fagfólks að setja það í skiljanlegan búning þannig að almenningur geti með auðveldum hætti myndað sér skoðun á því. Það að innanríkisráðherrann sé ekki þegar búinn að setja málið í þannig vinnslu er alvarlegt mál og veltir upp þeirri spurningu á hvaða vegferð stjórnvöld eru þegar þau beita sér með öllu sínu afli í áróðri fyrir sinni hlið málsins.

Fjármálafyrirtækin hafa líka lagst á árarnar með ríkissjtórninni og sú „kynning“ sem Arion banki var með í síðustu viku var athyglisverð fyrir þær sakir að hún átti að vera upplýsandi en var í raun áróður. Samninganefndin sem gerði samninginn kynnti hann og mærði og álitsgjafarnir voru Vilhjálmur Þorsteinsson sem er viðskiptafélagi Björgólfs Thor Björgólfssonar og svo starfsmaður breska ráðgjafarfyrirtækisins Hawkpoint sem hefur verið í vinnu fyrir fjármálaráðuneytið vegna Icesave í a.m.k. tvö ár. „Álit“ þeirra var náttúrulega fyrirfram vitað. Þeir sem töluðu á móti samningnum fengu 5 mínútur hver, en hinir klukkutíma.

Það er náttúrulega í meira lagi sérkennilegt að fara með stórmál í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að kynna það fyrir þjóðinni og hér er e.t.v. í uppsiglingu enn eitt fúskið hjá framkvæmdavaldinu sem eins og löggjafarvaldið og dómsvaldið virðist einfaldlega ekki skilja hlutverk sitt sem hluta af stjórnvaldi sem á að vera fyrir alla landsmenn en ekki bara suma.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.2.2011 - 08:01 - FB ummæli ()

Icesave III, álit Hreyfingarinnar.

Í dag kl. 14:30 verður tekið til annarrar umræðu frumvarp fjármálaráðherra um að íslendingar ábyrgist greiðslur vegna innstæðna á Icesave reikningum breta og hollendinga.  Hreyfingin hefur í upphafi lagt á það áherslu að skuldir einkafyrirtækisins Landsbankans sem þar að auki virðist hafa verið rekinn í glæpsamlegum tilgangi falli ekki á almenningi í landinu.  Nefndarálitið sem fylgir hér fyrir neðan og einnig  hér  með link á vef Alþingis er ítarleg samantekt á aðkomu og afstöðu Hreyfingarinnar að málinu.  Þar höfum við lagt til að úr því að ekki tókst að fá breta og hollendinga til að deila ábyrgðinni með Íslandi að þá verði farin sú leið að íslensk fjármálafyrirtæki greiði Icesave skuldina.  Þar leggjum við til að tvær mögulegar leiðir verði skoðaðar.   Annars vegar að s.k. „bankaskattur“ sem lagður var á fjármálafyrirtæki í lok síðasta árs verði hækkaður og Icesave skuldbindingin greidd þannig.  Hins vegar að nýju frumvarpi um tryggingarsjóð innstæðueigenda verði breytt í þá veru að hluti tryggingargjaldsins verði látinn renna til greiðslu Icesave.  Í hvoru tilvikinu sem er myndu fjármálafyrirtækin, m.v. áætlanir um arðsemi næstu ára, ekki finna fyrir því að neinu marki að takast á hendur þessa skuldbindingu. 

Nánari útfærslu er að finna í nefndarálitinu undir „Markmið Hreyfingarinnar í Icesave-málinu.“  Ég hvet lesendur til að rýna í álitið, en það gefur all góða insýn í þá stöðu og þau álitamál sem ég tel vera uppi varðandi málið.

139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 770  —  388. mál.

Nefndarálit

við frv. til l. um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.

Inngangur.
    Fjárlaganefnd hefur nú farið yfir svo kallað Icesave mál í þriðja sinn (hér eftir Icesave III). Fyrsta afgreiðsla nefndarinnar og Alþingis sumarið 2009 endaði með höfnun breskra og hollenskra stjórnvalda á málinu. Annarri afgreiðslu fjárlaganefndar og Alþingis í desember 2009 lauk með samþykkt laga sem forseti Íslands synjaði staðfestingu og fyrstu almennu þjóðaratkvæðagreiðslunni hér á landi. Yfir 93% þeirra sem tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu greiddu atkvæði gegn málinu.
    Að ósk breskra og hollenskra stjórnvalda var fjármálaráðherra eindregið hvattur til þess að vinna málið áfram í góðu samráði við þá flokka á þingi sem ekki ættu aðild að ríkisstjórn. Sameiginleg samninganefnd leiddi svo málið til lykta að mestu leyti á haustdögum 2010 og til varð það frumvarp til laga sem nú er rætt.
    Samningsdrögin sem undirrituð voru af hálfu samninganefndarinnar eru óumdeilanlega miklu mun hagfelldari fyrir Ísland en áðurnefndir tveir samningar sem gerðir voru og framganga samninganefndarinnar fyrir Íslands hönd hefur verið til fyrirmyndar. Sá mikli munur sem er milli nýju samningsdraganna og eldri samninga vekur hins vegar upp þá spurningu hvort ekki þurfi að fara fram sérstök og ítarleg rannsókn á tilurð fyrri samninga og markmiðum ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega fjármálaráðherra, en fyrri samningar hefðu lagt óbærilegar skuldir á ríkissjóð og þjóðarbúið í heild sinni. Framganga fjármálaráðherra og ríkisstjórnarflokkanna í málinu vekur því eðlilega upp spurningar um ábyrgð stjórnmálamanna á störfum sínum.
    Álit þeirra lögmanna sem sent hafa inn umsagnir eru ekki einhliða og nokkuð víst má teljast að sú fullyrðing að Ísland sé ekki lagalega skuldbundið til að greiða Icesave sé rétt, enda er skýrt kveðið á um það í löggjöf Evrópusambandsins að ekki eigi að vera ríkisábyrgð á innstæðutryggingum. Eftir stendur að þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar undir forystu Geirs H. Haarde skuldbatt sig til að greiða það sem bresk og hollensk stjórnvöld lögðu út vegna Icesave-reikninganna. Miðað við þær aðstæður sem Ísland og íslenskt efnahagslíf og fjármálakerfi var í á þeim tíma verður að gera ráð fyrir að sú ákvörðun hafi verið tekin undir þrýstingi og ekki að vel athuguðu máli.
    Eins og síðar kom í ljós í Icesave I og Icesave II átti að leggja óásættanlegar skuldbindingar á íslenska þjóðarbúið, vegna íslenskra stjórnvaldsákvarðana. Skuldbindingar sem það líklega hefði ekki staðið undir.

    Vel rökstutt álit Peter Örebech prófessors við Háskólann í Tromsö í Noregi ætti að vera grundvallargagn í þessu máli þar sem hann hafnar því að Íslendingum beri að greiða þessa skuld. Eins og Peter Örebech segir orðrétt: „Hann (Icesave samningurinn) ýtir undir þá tilhneigingu að veita bönkum ótakmarkaða ríkisábyrgð. Í þessu tilviki er hæpið að tala um lagaleg rök fyrir þörfinni á tryggingum og því síður verða færð sanngirnisrök fyrir henni. Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands mundu aldrei verða við kröfum erlendra innstæðueigenda sem næmu þriðjungi af þjóðarframleiðslu ef einn af stóru bönkunum þeirra félli.“
    Þess má geta að Icesave-krafan hljóðar upp á 674 milljarða kr. miðað við kröfulýsingardag í apríl 2009. Sú upphæð nemur 45% af vergri landsframleiðslu (VLF) þess árs og 44% af áætlaðri VLF ársins 2010. Það er alveg óhætt að fullyrða að ekki nokkurt ríki í heiminum mundi takast á hendur slíka skuldbindingu vegna falls banka, að ekki sé talað um banka sem voru líklega reknir í glæpsamlegum tilgangi. Vilji og framganga þeirra ríkisstjórna Íslands sem hafa komið að þessu máli hingað til er því með öllu óskiljanleg út frá sjónarmiðum um almannahagsmuni og skýrt dæmi um stöðu yfirvalds sem einhverra hluta vegna telur sig yfir það hafið að gæta hagsmuna almennings.

Markmið Hreyfingarinnar í Icesave-málinu.
    Markmið Hreyfingarinnar í þeim samningaviðræðum sem áttu sér stað var að Icesave- skuld þrotabús Landsbankans yrði ekki velt yfir á íslenska skattgreiðendur eingöngu, heldur yrðu eignir þrotabúsins sú greiðsla sem kæmi í hlut breska innstæðutryggingarsjóðsins og hollenska seðlabankans sem áður höfðu greitt innstæðutryggingar vegna Icesave-reikninganna. Ef eitthvað stæði út af að loknu uppgjöri þrotabúsins mundi sú upphæð skiptast til jafns á bresk, hollensk og íslensk stjórnvöld. Þetta markmið náðist ekki og niðurstaðan er sú að ríkissjóður Íslands ábyrgist allar greiðslur. Í samræmi við það markmið að almenningi yrði ekki gert að axla þessa greiðslubyrði hefur Hreyfingin lagt til í fjárlaganefnd að málið yrði sent til efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar með ósk um að leitað yrði leiða til að fjármálafyrirtæki landsins tækju þessar greiðslur á sig.
    Rökin fyrir því eru að með því yrði komið inn ákveðinni hugmyndafræði um samábyrgð samtaka í atvinnurekstri, í þessu tilfelli Samtaka fjármálafyrirtækja, sem leiðir til þess að heilar starfsgreinar hefðu hvata til þess að halda í heiðri skynsamlegt verklag. Einni yrði um ákveðna sáttaleið að ræða en það voru einmitt fjármálafyrirtæki sem báru meginábyrgð á bankahruninu og þótt núverandi fjármálafyrirtæki beri þar ekki öll sök þá bera engu að síður margir núverandi eigenda þeirra og starfsmanna beint eða óbeint ábyrgð á hvernig fór. Með því að axla þessa byrði mundu fjármálafyrirtæki leggja fram sinn skerf til þeirra nauðsynlegu sátta sem þarf að ná í samfélaginu vegna afleiðinga hrunsins. Upphæðirnar sem um er að ræða ef tekið er mið af áætlunum samninganefndarinnar eru heldur ekki hærri en svo að fyrirtækjum í þessum geira munar tiltölulega lítið um þær greiðslur þar sem þær dreifast á allnokkur ár.
    Tilmælin til efnahags- og skattanefndar eru að svonefndur „bankaskattur“, samkvæmt lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, verði hækkaður til að ná utan um greiðslur vegna Icesave, en gjaldið nemur nú 0,045% af heildarskuldum fjármálafyrirtækis og er samkvæmt því ætlað að skila um einum milljarði króna á ári. Tilmælin til viðskiptanefndar eru að frumvarpi til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (þskj. 268, 237. mál) verði breytt með þeim hætti að hluti greiðslna sem ætlaður er í nýstofnaðan innstæðutryggingarsjóð renni í stað þess í eldri tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og verði sá sjóður notaður til að greiða Icesave-skuldina. Innstæðutryggingarsjóðir eru í eðli sínu samtryggingarsjóðir þar sem öll fjármálafyrirtæki greiða í sameiginlegan sjóð sem tryggir innstæður sparifjáreigenda ef eitt (eða fleiri) fyrirtæki í greininni fara í þrot. Það er því ekkert óeðlilegt við það að framtíðargreiðslur í slíkan sjóð fari til þess að greiða upp eldri skuld sjóðsins ef ekki hefur verið í honum nægilegt fjármagn á þeim tímapunkti þegar þess þurfti með.
    Í báðum tilfellum er lagt til að um tímabundna ráðstöfun verði að ræða sem falli niður þegar Icesave-skuldin er uppgreidd.
    Tilskipun ESB um innstæðutryggingarkerfið gerir ekki ráð fyrir ríkisábyrgð og því mun greiðslan sem fellur á íslenska ríkið stangast á við evrópskt regluverk og vera slæmt fordæmi hvað varðar ríkisstuðning við fjármálafyrirtæki.
    Fjárlaganefnd samþykkti að senda áðurgreindum nefndum þessi tilmæli en ákvað svo að bíða ekki eftir áliti þeirra og tók málið út úr nefndinni í andstöðu við 1. minni hluta vegna þess. 1. minni hluta er óskiljanlegt hvers vegna þetta verklag er haft þar sem skýrt hefur komið fram í máli samninganefndarmanna að það sé engin tímapressa á málinu og 1. minni hluti telur til mikils að vinna að ná sáttum um málið í fjárlaganefnd og á Alþingi öllu. Það virðist hins vegar ekki vera áhugi á því hjá meiri hlutanum og meðferð málsins í nefndinni hefur því miður verið í ætt við slælega skrifað leikrit fremur en vinnulag sem hefur góða niðurstöðu og sátt að markmiði. Að sögn formanns nefndarinnar mun fjárlaganefnd skoða niðurstöður efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar þegar málið kemur til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umræðu og ef svo fer að niðurstaðan verði að önnur hvor þeirra leiða sem lagðar eru til verði farin mun 1. minni hluti breyta afstöðu sinni til málsins.

Verklag fjárlaganefndar og Alþingis.
    Nýi Icesave-samningurinn var gerður í byrjun desember og eftir umfjöllum í ríkisstjórn taldi hún mikilvægt að hann færi sem fyrst til Alþingis. Að undirlagi ríkisstjórnarinnar beitti forseti Alþingis sér fyrir því að samkomulag næðist milli allra flokka á Alþingi um meðferð málsins þannig að hægt yrði að mæla fyrir því fyrir jólahlé þingsins. Samkomulag náðist sem kvað á um að lokinni fyrstu umræðu færi málið til fjárlaganefndar sem átti að vinna málið í sameiningu, en eins og segir orðrétt í samkomulaginu: „Nefndin skipuleggur starf sitt í sameiningu með það að markmiði að 2. umræða geti hafist fljótlega eftir að þing kemur saman að nýju eftir áramót samkvæmt starfsáætlun, enda telji nefndin þá málið tilbúið til afgreiðslu.“ Samkomulag þetta, dagsett 16. desember 2010 og staðfest með undirskriftum forseta Alþingis og formanna þingflokka (varaformanns þingflokks Framsóknarflokks), var hins vegar rofið tveimur dögum síðar er formaður fjárlaganefndar boðaði til fundahalda í nefndinni í jólahléi Alþingis í ósamkomulagi við aðra nefndarmenn. Eftirtektarvert er að formaður fjárlaganefndar hugðist vera erlendis í fríi á sama tíma. Þrátt fyrir áköf og ítrekuð andmæli Hreyfingarinnar hélt meiri hluti nefndarinnar því til streitu að samkomulagið skyldi rofið. Með þöglu samþykki formanna annarra þingflokka var það gert og nefndin fundaði í jólahléi þingsins í fjarveru formanns. Forseti Alþingis sá heldur ekki ástæðu til að skipta sér af samningsrofinu þrátt fyrir að hafa undirritað það.
    Vinna við málið í fjárlaganefnd hefur því verið á forsendum meiri hlutans sem ekki aðeins hafnaði samvinnu um málið heldur rauf undirritað samkomulag um málsmeðferðina. Það er dapurlegt að hugsa til þess að sjálft löggjafarvald þjóðarinnar skuli ástunda slík vinnubrögð og vekur óneitanlega upp spurningar um siðferðilega stöðu þess.

Samningurinn.
    Hvað samninginn sjálfan varðar þá má gera ráð fyrir að hér sé ekki hægt að komast lengra þótt reynt væri, en núverandi samningur er umtalsvert hagfelldari fyrir Ísland en fyrri samningar. Eftir stendur þó að það er alls ekki útkljáð mál hvort Íslendingum beri yfirleitt nokkur skylda til að greiða kröfu Hollendinga og Breta enda ekki gert ráð fyrir ríkisábyrgð á innstæðutryggingum í tilskipun Evrópusambandsins. Eftirtektarvert er að einn samningamanna fyrir Ísland, Lee C. Buchheit, hefur sagt að persónulega telji hann að Ísland eigi ekki að greiða Icesave.
    Samningurinn gerir ráð fyrir að íslenska ríkið gangist í ábyrgð fyrir endurgreiðslum til Breta og Hollendinga vegna þeirra Icesave-reikninga sem voru í útibúum Landsbankans í viðkomandi löndum. Samningurinn sjálfur er með umtalsvert lægri vöxtum en fyrri samningar en þess ber þá að geta að vextir almennt hafa farið lækkandi og vextirnir í þessum samningum eru í takt við þær vaxtalækkanir sem hafa almennt orðið. Þess má geta að svo kallaðir CIRR-vextir (commercial interest reference rate) gilda eftir árið 2016, en það 125 punkta vaxtaálag sem var í fyrri samningi er í þessum samningum fellt brott. Að teknu tilliti til vaxtahlés og áætlana um lækkun höfuðstóls samsvara áætlaðir vextir áranna 2009–2016 því að þeir væru að meðaltali 2,64%. Þessi breyting skiptir umtalsverðu máli þegar kemur að heildarendurgreiðslum. Miðað við áætlun skilanefndar Landsbankans um að eftirstöðvar verði að fullu greiddar upp í júní 2017 má áætla að heildarkostnaður verði um 67 milljarðar kr. Á móti kemur eign Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta upp á um 20 milljarða kr. þannig að miðað við bestu útkomu mun heildarkostnaður fyrir ríkissjóð verða um 47 milljarðar kr.
    Núverandi samningur inniheldur einnig góða efnahagslega fyrirvara sem gera ráð fyrir að greiðslubyrði ríkissjóðs verði aldrei hærri en sem nemur 5% af tekjum miðað við fyrra ár eða 1,3% af vergri landsframleiðslu, eftir því hvor talan er hærri. Hér er um að ræða umtalsverðan öryggisventil gagnvart íslenskum skattgreiðendum þar sem þak á þessa ákveðnu skuldbindingu er sett. Hér þarf þó að horfa á Icesave í samhengi við aðrar skuldir hins opinbera, skuldir þjóðarbúsins og möguleikana á því að standa undir öllum þeim skuldbindingum samhliða Icesave-samkomulaginu.
    Mat skilanefndar Landsbankans er að um 86% endurheimtur verði úr þrotabúinu. Þar er miðað við að reglubundið mat á eignum og endurheimtum þeirra í fortíðinni verði áfram svipað í framtíðinni. Mat skilanefndar hingað til hefur að mestu staðist og heimtur verið í samræmi við væntingar og því ástæða til bjartsýni hvað þennan þátt varðar. Hins vegar má ekki mikið bregða út af til þess að skuldbindingin sem lendir á ríkissjóði hækki til muna og í áhættumati GAMMA kemur fram að lækkun á endurheimtum um 10% ásamt töf á útgreiðslum úr búinu um níu mánuði leiði til þess að skuldbindingin verður 145 milljarðar kr.
    
Umsagnir.
    Athygli vekur hversu mismunandi umsagnir eru um þau samningsdrög sem nú liggja fyrir og að ekki er varið miklum tíma í ítarlega umfjöllun um þær álögur sem leggjast á almenning í landinu vegna samþykktar samningsins nema í fáum tilvikum.
    Alþýðusamband Íslands, stærsta samband verkalýðsfélaga á Íslandi, sendi inn mjög einkennilega umsögn og gerir ekki einu sinni tilraun til að greina hvað samningsdrögin þýða fyrir almenning ef samþykkt verða. Álit ASÍ er sex málsgreinar og af þeim eru fimm algerlega órökstuddar fullyrðingar eða innatómir frasar og jafnvel ótengdar efninu. Það er einkennileg aðkoma þar sem vitað er að skuldir ríkissjóðs og þjóðarbúsins í heild eru við þolmörk eða jafnvel yfir þeim og að auknar skuldir ríkissjóðs vegna samningsins munu kalla á skattahækkanir og frekari niðurskurð sem bitnar fyrst og fremst á félagsmönnum aðildarsamtaka ASÍ.

 Álit Seðlabanka Íslands er að því er virðist fullt af þversögnum sem ganga alls ekki upp. Varðandi gengisbreytingar og áhrif þeirra setur Seðlabankinn verðbólgu sem áhrifaþátt á gengisbreytingar og snýr við þeirri orsakaröð sem gilt hefur hér á landi undanfarin ár að lækkun á gengi krónunnar leiðir til aukinnar verðbólgu en ekki öfugt. Bankinn telur í framhaldinu að takist honum að halda verðbólgumarkmiði sínu innan 2,5% muni gengið ekki lækka. Í umfjöllun sinni um raungengi ýjar Seðlabankinn að því að vegna lágs raungengis í kjölfar kreppunnar muni það hækka en gleymir að geta þess að í spám sínum um þróun raungengis næstu árin er gert áfram ráð fyrir mjög lágu raungengi (í sögulegu samhengi). Þegar vísað er í aukinn útflutning sem uppbót vegna hugsanlegrar gengislækkunar í neðanmálsgrein á bls. 4 í áliti Seðlabankans gleymist að geta þess að um aukningu í krónum er að ræða en ekki aukningu í magni útflutnings enda vandséð hvernig auka eigi magnútflutning helstu útflutningsafurða landsins, fisks og áls, bæði til skamms tíma og til lengri tíma litið. Greiðslur af Icesave eru hins vegar í erlendum myntum.
    Seðlabankinn gerir heldur ekki ítarlega áhættugreiningu á efnahagslegum þáttum samningsins en skautar fremur létt yfir þau atriði sem mestu máli skipta, þ.e. endurheimtur úr búinu og gengisáhættu, og minnist ekki á önnur mikilvæg atriði, svo sem tafir á útgreiðslum vegna dómsmála og skuldaþol þjóðarbúsins.
    Skuldaþolsútreikningar bankans fyrir ríkissjóð taka ekki til allra skulda hins opinbera, þ.e. undanskildar eru skuldir sveitarfélaga sem munu í auknum mæli lenda á ríkissjóði, og í þeim ekki er gert ráð fyrir að ríkisábyrgðir, sem nú nema yfir 1.300 milljörðum kr., muni að einhverju leyti falla á ríkissjóð. Það gerðist hins vegar í lok sl. árs að ríkisábyrgðir að upphæð 55 milljarðar kr. fóru inn í fjáraukalög ársins 2010 vegna fallinna eða nær fallinna ríkisábyrgða (Lánasjóður Landbúnaðarins og Íbúðalánasjóður) og framundan er stórfelld aukning í ríkisábyrgðum vegna áframhaldandi uppbyggingar fjármálakerfisins. Þar er um að ræða útgjöld upp á 26 milljarða kr. vegna VBS, 12 milljarða kr. vegna Sjóvár, 20 milljarða kr. vegna Saga Capital, 6 milljarða kr. vegna Aska Capital, 5 milljarða kr. vegna Byrs, 14 milljarða kr. vegna Sparisjóðs Keflavíkur og væntanlega 3,5 milljarða kr. vegna Byggðastofnunar. Alls gerir þetta um 87 milljarða kr. án beinna heimilda en óljósar tilvísanir í neyðarlögin koma fram. Þess má geta að sá sjóður sem átti að standa undir áföllum vegna fallinna ríkisábyrgða og er í vörslu Seðlabankans, sk. Ríkisábyrgðasjóður, er tómur. Ríkissjóður hefur að auki gengist í ábyrgð fyrir a.m.k. 141 milljarði kr. vegna yfirtöku Arion Banka og Íslandsbanka á þrotabúum SPRON/Dróma annars vegar og Straums/Burðaráss hins vegar. Auk þess hefur fjármálaráðherra með yfirlýsingu gefið út að allar innstæður í bönkum og fjármálastofnunum séu með ríkisábyrgð án þess að Alþingi hafi samþykkt lög þess efnis.
    Spár Seðlabankans um skuldir sem hlutfall af VLF gera einnig ráð fyrir framtíðaraukningu landsframleiðslu sem hvorki núna né í nánustu framtíð virðist raunhæft þar sem aukning VLF sem átti að koma úr virkjanaframkvæmdum og álútflutningi mun ekki ganga eftir og sú aukning í VLF sem á að koma með aukinni einkaneyslu er ólíkleg vegna slæmrar skuldastöðu heimilanna. Eins og fram hefur komið verður sú skuldastaða ekki leiðrétt sem neinu nemur af hálfu stjórnvalda.
    Hvað varðar afléttingu gjaldeyrishafta virðist Seðlabankinn ekki gera ráð fyrir að það fylgi því neinn kostnaður að verja gengi krónunnar, en við afléttingu gjaldeyrishafta má gera ráð fyrir stórfelldu útstreymi gjaldeyris. Seðlabankinn var beðinn um að svara tveimur mikilvægum spurningum um málið. Sú fyrri hljóðaði upp á hvort það væri forsenda þess að geta metið Icesave III samningsdrögin að vita hvernig verður losað um gjaldeyrishöftin og sú síðari var hvort bíða ætti með að losa um gjaldeyrishöftin þar til greitt hefur verið úr þrotabúi Landsbankans.
    Svar Seðlabankans við báðum spurningunum er nei en ekki verður séð annað en að rökstuðningur bankans með svörunum sé í besta falli einkennilegur og standist ekki hefðbundin hagfræðileg lögmál, að því marki sem má leyfa sér að tala um lögmál í fræðigreininni hagfræði yfirleitt. Þess má geta að Seðlabankinn gerir ráð fyrir hækkandi raungengi en spár bankans um hagvöxt og viðskiptajöfnuð ganga hins vegar ekki upp nema raungengið verði áfram jafn lagt og nú er.
    Við aukið gjaldeyrisútstreymi vegna afnáms gjaldeyrishafta er líklegt að gengi krónunnar falli enn neðar. Gengi krónunnar verður eingöngu varið með því að eyða þeim lánum og lánalínum sem til staðar eru sem þýðir gríðarlega aukningu í skuldsetningu þjóðarbúsins og stórfellda aukningu á erlendum skuldum. Slíkri aukningu á skuldum verður að mæta með skattahækkunum og/eða frekari niðurskurði sem við núverandi skuldastöðu heimila leiðir að öllum líkindum til mikils samdráttar í einkaneyslu og þar með samdráttar í VLF. Fall á gengi krónunnar mun einnig auka skuldir heimilanna stórlega vegna þeirra verðbólgu- og verðtryggingaráhrifa sem slík þróun hefur. Bankinn gerir heldur enga tilraun til að meta áhrif af slíku útstreymi gjaldeyris en skuldaaukningin sem fylgir því að verja krónuna mun líklega leiða til þess að þanþol ríkissjóðs og þjóðarbúsins vegna skuldsetningar brestur.
    IFS greining gerir ekki ráð fyrir að sveiflur í gengi og endurheimtum úr búinu séu til þess fallnar að valda búsifjum nema hugsanlega til skemmri tíma litið. Gengisáhætta er enn til staðar en efnahagslegir fyrirvarar ganga nægilega langt til að verja þjóðarbúið við langtímaáfalli. Spá IFS er þó byggð á því að hér verði hagvöxtur með rætur í aukinni erlendri fjárfestingu sem verður að gera fyrirvara við.
    InDefence-hópurinn skilaði einnig inn mjög ítarlegri umsögn og veltir upp áhættunni sem fylgir lægri endurheimtum, töfum á útgreiðslum úr þrotabúinu og gjaldmiðlaáhættunni. Helstu áhersluatriði InDefence eru að lausn deilunnar þurfi að byggjast á þremur þáttum: Það komi fram að ekki sé lögbundin greiðsluskylda að baki kröfum Breta og Hollendinga, að samningar feli í sér skipta ábyrgð allra samningsaðila, og að samningar feli í sér skipta áhættu allra samningsaðila. Að mati Indefence endurspegla núverandi samningsdrög ekki þessa þætti.
    GAMMA er með ítarlegustu greininguna á þeim áhættuþáttum sem skipta almenning mestu máli. GAMMA metur mjög ítarlega alla áhættuþætti og niðurstaðan er að heildarkostnaður vegna Icesave III geti verið á bilinu 26–233 milljarðar kr. Í fyrra tilfellinu er miðað við að aukinn forgangur fáist í útgreiðslur úr þrotabúinu (sk. Ragnars H. Hall ákvæði) og að gengi krónunnar styrkist um 2% ársfjórðungslega út greiðslutímann. Miðað við óbreytt gengi krónunnar er athyglisvert að sjá að endurheimtur úr búinu og tafir á útgreiðslum skipta miklu máli en 10% lakari endurheimtur og níu mánaða töf á útgreiðslum leiða til heildarkostnaðar upp á 145 milljarða kr. Ekki má teljast ólíklegt að endurheimtur úr búinu verðir lakari en gert er ráð fyrir og ekki er heldur ólíklegt að tafir vegna dómsmála seinki útgreiðslum. Í sviðsmynd GAMMA þar sem gert er ráð fyrir 10% lakari endurheimtum úr búinu, níu mánaða seinkun á fyrstu endurgreiðslu og 1% veikingu krónunnar ársfjórðungslega, fer heildarskuldin í 182 milljarða kr. og miðað við 2% lækkun krónu ársfjórðungslega fer heildarskuldin í 233 milljarða kr. Þessar tvær síðustu sviðsmyndir eru alls ekki ólíklegar og gera það að verkum að varasamt er að samþykkja þennan samning án frekari fyrirvara.

Niðurstaða.
    Gengi krónunnar er mikilli óvissu háð þar sem samstarfsáætlun ríkisstjórnarinnar og AGS gerir ráð fyrir afléttingu gjaldeyrishafta og Seðlabankinn hefur lýst því yfir að gjaldeyrishöftum verði aflétt á þessu ári. Sú staðhæfing Seðlabankans að aflétting gjaldeyrishafta muni ekki leið til falls krónunnar er ekki vel rökstudd og væri það mikið ógæfuskref að aflétta höftum við þessar kringumstæður. Þó má hugsa sér aðferð, svo sem stigvaxandi skattlagningu á gjaldeyrisútstreymi, sem leiddi til þess að eitthvað kæmi upp í þann kostnað sem aflétting hafta hefur í för með sé.
    Greining GAMMA á „stóru myndinni“ vekur upp ýmsar spurningar um skulda- og greiðsluþol ríkissjóðs og þjóðarbúsins í heild. Gjaldeyristekjur eru ekki líklegar til að aukast vegna hins fasta framleiðslumagns í helstu útflutningsgreinum landsins og ekki verður um aukinn afgang af vöruskiptajöfnuði né þjónustujöfnuði að ræða. Líklegra er að sá afgangur minnki um leið og hagkerfið tekur við sér sem þó er alls ekki ljóst að gerist.
    Skuldaskil þrotabúsins mun hafa áhrif á greiðslujöfnuð landsins þar sem töluvert af eignum þrotabúsins upp í Icesave-kröfurnar eru í íslenskum krónum sem þarf að skipta yfir í evrur og pund svo greiðslur geti átt sér stað. Þegar haft er í huga að nú þegar má lítið út af bera til að ekki hægt sé að fá inn gjaldeyri upp í innflutning, erlenda vexti og afborganir má fastlega gera ráð fyrir að erlend skuld vegna Icesave til viðbótar, með þeirri óvissu og áhættu sem henni fylgir, geri skuldastöðu landsins enn valtari.
    Skuldaþol ríkissjóðs er komið á viðkvæmt stig. Heildarskuldir ríkissjóðs í lok desember 2010 námu rétt tæplega 1.300 milljörðum kr. og greiðsluferill þeirra er mjög framhlaðinn, þ.e. vegna mikilla afborgana á næstu 3–5 árum þarf að endurfjármagna þessar skuldir sem getur reynst dýrt og jafnvel erfitt. Ríkisábyrgðir nema um 1.350 milljörðum kr. og gera má ráð fyrir aukningu á þeim vegna endurreisnar fjármálakerfisins. Þó ekki sé rétt að telja að þessar ábyrgðir með beinum skuldum ríkissjóðs eru þær skuldir fyrirtækja í eigu ríkisins og má gera ráð fyrir að þær muni falla á ríkissjóð í meira mæli en á árunum fyrir hrun. Þá eru ótaldar skuldir sveitarfélaga sem munu að einhverju leyti lenda á ríkissjóði. Ef með eru taldar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs upp á vel á þriðja hundrað milljarða króna má sjá að ríkissjóður er mjög líklega kominn í ógöngur.
    Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 472 milljarðar kr. (rekstrargrunnur) á árinu 2011 en útgjöld vegna vaxta nema um 75 milljörðum kr. eða um 16% af tekjum. Ekki má teljast ólíklegt að vaxtakostnaður muni hækka enn frekar þar sem lánsfjárþörf ríkissjóðs mun frekar aukast á næstu árum en hitt.
    Það þröngt hnýtta samspil sem er milli þeirra þátta efnahagslífsins sem Icesave III hefur áhrif á getur mjög auðveldlega leitt þjóðabúið í ógöngur. Aukinn vaxtakostnaður ríkissjóðs vegna fyrirséðra lántaka getur leitt til skattahækkana eða frekari niðurskurðar sem aftur leiðir til minni ráðstöfunartekna fyrir heimilin og gerir það að verkum að ekki verður aukning á einkaneysluþætti landsframleiðslunnar. Afnám gjaldeyrishafta ásamt aukinni erlendri skuldsetningu því samfara mun einnig auka vaxtaútgjöld ríkissjóðs og lækkun á gengi krónunnar mun þýða aukna verðbólgu vegna verðhækkana á innflutningi, sem leiðir til aukinna skulda heimilanna vegna verðtryggingarinnar. Þetta samspil gerir það að verkum að mjög áhættusamt getur verið að samþykkja Icesave III óbreytt.
    Þó að umsagnir matsfyrirtækja hafi alla tíð verið á sömu lund, þ.e. að það hafi góð áhrif á lánshæfismat Íslands ef Íslendingar samþykkja að greiða Icesave, þá er það álit ekki rökrétt þar sem samþykkt Icesave III hefur áhrif á skuldastöðu landsins til hins verra og eykur á áhættuna sem fylgir lánveitingum til landsins. Ólíklegt má því teljast miðað við skuldastöðu Íslands að lánshæfismatið hækki við samþykkt Icesave III samninganna. Starfsemi matsfyrirtækjanna hefur og sætt mikilli gagnrýni undanfarin ár og ber að taka öllu sem frá þeim kemur með mikilli varúð.
    Þegar haft er í huga að skuldsetning ríkissjóðs og þjóðarbúsins er við þolmörk eða komin yfir þau og að aukning skulda vegna Icesave III getur, við það sem má telja ekki ólíklegar kringumstæður, verið um 233 milljarðar kr., er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að of áhættusamt sé að samþykkja samninginn.
    Siðferðilegt álitamál sem ekki hefur heldur verið nægilega rætt er hvort réttlætanlegt sé að velta skuldum einkafyrirtækis yfir á almenning í landinu. Í tilfelli Landsbankans hf. er um að ræða fyrirtæki sem virðist ekki eingöngu hafa staðið að rangri upplýsingagjöf til eftirlitsaðila og almennings heldur einnig tekið stöðu gegn krónunni í gjaldmiðlaskiptasamningum. Bankinn virðist einnig hafa verið hreinsaður að innan af stjórnarmönnum, eigendum og aðilum tengdum þeim, þar sem viðhorfið virtist vera að innstæður í bankanum væru eign eigenda bankans. Leiða má líkur að því að Landsbankinn hafi verið rekinn í glæpsamlegum tilgangi af eigendum og stjórnendum og það er því algerlega óforsvaranlegt að yfirvöld á Íslandi skuli ekkert hafa gert til að frysta eigur þeirra sem voru í stjórn og stóðu að ákvarðanatöku bankans.

Alþingi, 30. jan. 2011.

Þór Saari.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.1.2011 - 07:54 - FB ummæli ()

Nímenningarnir

Réttarhöldin yfir nímenningunum eru einhver sorglegasti réttarfarsharmleikur sem ég man eftir hér á landi. Það er alveg með ólíkindum hvað hin pólitíska yfirstétt ætlar sér að fara langt í hefnd sinni á þeim sem einna fyrst voru til að benda á að þessi sama pólitíska yfirstétt var, rétt eins og keisarinn í ævintýrinu, bara nakin. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var komin að fótum fram þann 8. desember 2008 þegar nímenningarnir ásamt um tuttugu öðrum reyndu að fara á þingpalla til að mótmæla ónýtu Alþingi. Þetta var einum mánuði eftir að Haukur Evuson vann þann gjörningasigur að flagga Bónusfánanum á Alþingishúsinu og hatur Sjálfstæðismanna á mótmælendum sem höfðu fundað á Austurvell allan veturinn fór stigvaxandi. Nú skyldi sýnt hverjir réðu og Helgi Bernódussson skrifstofustjóri Alþingis, með umboð frá eða að fyrirmælum Sturlu Böðvarssonar forseta Alþingis, lagði til við lögregluna að þetta fólk yrði ákært samkæmt hinn illræmdu 100. grein sem kveður á um allt að lífstíðarfangelsi. Útkoman er að tilvinjanakennt úrtak níu ungmenna af þrjátíu eru ákærð, að tilmælum Alþingis, vegna brota sem hingað til hafa þótt smámál og ekki kæruverð.

Réttarfarsharmleikur segi ég vegna þess að hér hefur Alþingi (löggjafarvaldið) æðsta stofnun þjóðarinnar skipt sér af framkvæmdavaldinu (ákæruvaldinu) og dómsvaldinu og lagt línurnar með „tilmælum“ sínum um ákærur.  Réttarfarsharmleikur segi ég vegna þess að framkoma setts saksóknara hefur verið forkastanleg eins og þegar hún lýsir mótmælum Nímenninganna við vopnaða innrás og morðtilraun pólsks glæpagengis í hús í Breiðholti.  Réttarfarsharmleikur segi ég því allur málatilbúnaður og framburður sumra vitna setts saksóknara ber vitni um sviðsetningu skáldskapar sem dómarinn ætti að sjálfsögðu að hafa vísað frá.

Fjölmiðlar erlendis eru farnir að greina þetta mál sem einkennilega vegferð litla Íslands inn á áður ótroðnar brautir pólitískra ofsókna og allir sem sjá vilja, skilja að það er margt mjög óeðlilegt við þetta mál. Það Alþingi sem nú situr var kosið um vorið 2009 og ég ásamt fjölmörgum öðrum þingmönnum höfum lýst vanþóknun okkar á þessu máli og að Alþingi skuli í raun vera sækjandi þess. Við höfum lagt fram þingsályktunartillögu (sem fékkst ekki rædd) og talað um það úr ræðustól þingsins og síðast í gær (sjá hér) krafðist ég þess að Forseti Alþingis og þingið allt lýsti vanþóknun sinni á þessu máli. Ekki til að reyna að hafa áhrif á dómstóla eins og margir hafa haldið fram, heldur til þess að það Alþingi sem nú situr og  þeir þingmenn sem þar eru geti með heiðarlegum hætti hafnað þessum alræðistilburðum. Fjölmargir þingmenn og sennilega flestir, utan þingmanna Sjálfstæðisflokksins, eru nefnilega þeirrar skoðunar að hér sé allt of langt gengið og að ákærur í þessu máls séu hneisa fyrir þingið.

Hér er hins vegar ekki eingöngu um pólitískar ofsóknir að ræða heldur einnig dauðakippi deyjandi valds sem bregst við með offorsi þegar því er orðið ljóst að valdatími þess er liðinn og kemur aldrei aftur. Þessir dauðakippir birtast oft á þingi og nú síðast í gær þegar umræður sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins komust á hysterískt stig þegar þeir reyndu að klína njósnum og afbrotum á þingmenn Hreyfingarinnar og WikiLeaks, línurnar lagðar í Morgunblaðinu fyrr um daginn. Ég held að kenning Jóns Gnarr um Patrick Swayze, Ghost og Sjálfstæðislokkinn sé rétt.  Verst að þetta þurfi að gerast á Alþingi í beinni útsendingu. Kosningar væru fljótvirkari.

Ég leyfi mér að vera örlítið bjartsýnn og rifja upp neðangreinda tilvitnun í Mohandas Ghandi.  „First they ignore you, then they laugh at you, then they fight you, then you win.“  Það er vonandi farið að styttast út á þetta horn sem handan við eru betri tímar.

Vefsíða RVK9 er svo hér en þar má sjá afrit af málflutningnum í héraðsdómi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.12.2010 - 08:23 - FB ummæli ()

Fjárlögin 2011

Lokaumræðan um fjárlög fyrir næsta á fór fram í gær. Við í Hreyfingunni höfum frá því við komum á þing talað fyrir annarri nálgun á vanda ríkissjóðs en að skera niður í velferðar-, heilbrigðis-, og menntamálum og hækka hefðbundna skatta á almenning. Umræðan okkar í ár var því á svipuðum nótum og í fyrra þó einstakir liðir  væru öðruvísi. Því miður hefur ríkisstjornin ekki burði til standa á eigin fótum utan ægivalds embættismannakerfisins og sérhagsmunana og því er hér framhald á skaðræðisstefnu fyrra árs.

Stefnumótun ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum eins og hún birtist í fjárlögunum ársins 2011 er í molum og hér sannast hið fornkveðna um að aldrei hafi þjóð sem lotið hefur tilskipunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í efnahagsmálum komið undan því öðruvísi en með gríðarlegu tjóni fyrir allan þorra almennings. Það sorglega er að hjá slíkum þjóðum hefur samt aldrei skort stjórnmálamenni sem eru tilbúnir að framfylgja stefnu sjóðsins.

Ræðuna mína í þriðju umræðu má  sjá hér  sem er aðeins styttri útfærsla á framhaldsnefndaráliti mínu úr fjárlaganefnd sem er hér fyrir neðan.

Framhaldsnefndarálit

um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.

    Þriðji minni hluti hefur farið vandlega yfir þær breytingar sem gerðar eru af hálfu meiri hlutans og lýsir furðu sinni á þeim vinnubrögðum og þeim ákvarðanatökum sem þar eru.
    Þrátt fyrir mikla gagnrýni hefur tekju- og útgjaldaáætlun fjárlagafrumvarpsins og þær þjóðhagsforsendur sem liggja henni til grundvallar ekki verið endurskoðaðar og byggjast enn á óraunhæfum hagvexti og ekki er líklegt að skattahækkanir þær sem fyrirhugaðar eru muni skila sér í tekjum fyrir ríkissjóð.
    Að mati 3. minni hluta voru þær grundvallarbreytingar sem gerðar voru á skattkerfinu á síðastliðnu ári að mörgu leyti mjög til bóta og mikilvægur áfangi til leiðréttingar á þeim losarabrag sem verið hefur á skattumhverfi á Íslandi undanfarin ár. Að auki voru þær tímabær leiðrétting á þeim ábyrgðarlausu skattalækkunum sem gerðar voru á hámarki þensluskeiðsins síðasta og virkuðu sem olía á eld þenslunnar.
Hvað varðar áhrif núverandi skattbreytinga á efnahagslífið almennt og þjóðarhag telur 3. minni hluti að þær gangi ekki upp við þær aðstæður sem nú eru í íslenskum efnahagsmálum. Rökstuðningurinn byggist á Keynesískum kenningum hagfræðinnar þar sem gengið er út frá því að ríkisútgjöld sem fjármögnuð eru með skattheimtu hafi örvandi áhrif á hagkerfið í niðursveiflu (samdrætti) og það er talinn misskilningur að aukin skattheimta dragi úr eftirspurn í hagkerfinu. Einnig er því haldið fram að aukning á útgjöldum ríkissjóðs muni auka eftirspurn í hagkerfinu meira en sem nemur samdrætti einkaneyslu vegna samsvarandi skattheimtu. Rök þessi eru góð og gild við ákveðnar aðstæður og hafa reynst vel sem sveiflujafnandi og kreppuminnkandi aðgerðir og kenningin sem slík gengur upp í reynd þótt ýmislegt beri að varast við notkun aðferðanna, sérstaklega hvað varðar þá freistingu að ofgera notkun þeirra og varanleika.
Undir þeim kringumstæðum sem íslenskt efnahagslíf býr við er þess hins vegar ekki að vænta að um verði að ræða samsvarandi eða meiri aukningu eftirspurnar en sem nemur skattheimtunni vegna bágrar skuldastöðu ríkissjóðs og takmarkaðs svigrúms til útgjalda. Stór hluti ríkisútgjalda fer í að greiða vexti af lánum og allar auknar tekjur sem falla til vegna hærri skatta fara beint í þann útgjaldalið. Einnig er á sama tíma um að ræða umtalsverðan niðurskurð í ríkisútgjöldum með tilheyrandi samdrætti og uppsögnum starfsfólks í stórum stíl, þannig að í raun er æpandi þversögn í beitingu þessara aðferða sem í rökstuðningi frumvarpsins eru sagðar auka eftirspurn.
Því er hætt við að þessar skattahækkanir muni einfaldlega leiða til enn frekari samdráttar en þegar hefur orðið þar sem þær þýða að ráðstöfunartekjur heimila munu skerðast. Í þessu sambandi er vert að benda á að ef hugmyndin er að auka eftirspurn og einkaneyslu, þá er myndarleg niðurfærsla á verðtryggðum höfuðstól íbúðalána heimila líklegri til að leiða til þeirrar auknu eftirspurnar sem ætlunin er að ná fram í frumvarpinu og hefur góð sálræn áhrif á heimilin þar sem bjartsýni þeirra á framtíðina eykst. Aukin skattheimta hefði hins vegar þveröfug áhrif hvað þetta varðar.

Í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, 9. desember sl. (þskj. 465, 126. mál) um áhrif skattahækkana á vísitölu neysluverðs segir orðrétt: „Áhrif skattahækkana á vísitölu neysluverðs eru um 1,26% frá febrúar 2009 til október 2010 samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Það þýðir að verðtryggð lán íslenskra heimila hækkuðu sem því nemur. Samkvæmt skýrslu sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna voru verðtryggð fasteignalán heimilanna um 1.236 milljarðar kr. 1. október 2010 og því nemur hækkunin um 15,6 milljörðum kr. á tímabilinu. Almenn vörugjöld eru ekki meðtalin þar sem Hagstofan greinir áhrif þeirra ekki með beinum hætti í vísitölunni.“ Í sama svari kemur einnig fram að skattahækkanir á fyrirtæki hafi hækkað verðtryggð lán fyrirtækja um 2,6 milljarða.
    Um það er ekki deilt að staða ríkissjóðs er mjög slæm og einhvern veginn þarf að reyna að brúa þann gríðarlega halla sem blasir við. Ríkisstjórnin hefur valið svokallaða blandaða leið þar sem útgjöld eru skorin niður og skattar hækkaðir á almenning og fyrirtæki, leið sem 3. minni hluti telur við þessar aðstæður bæði óheppilega og í raun óþarfa.
    Ljóst er að skattstofnar ríkissjóðs hafa rýrnað mjög og sumir allt að því horfið. Almennar launatekjur og tryggingagjaldið eru stöðugir og tiltölulega auðinnheimtir skattstofnar og því freistandi að fara þá leið í leit að tekjum fyrir ríkissjóð. Í því efnahagsástandi sem við búum við núna eru þessir skattstofnar hins vegar viðkvæmir og geta auðveldlega rýrnað að upphæð og fjölda greiðenda ef brottflutningur frá landinu heldur áfram.
   

 Dæmi um alvarlegar rökvillur í lagasetningu er fyrirliggjandi frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á vörugjöldum bifreiða. Þær breytingar sem eru fyrirhugaðar á vörugjöldum bifreiða eru með tengingu við kolefnislosun þeirra og eru algerlega óraunhæfar og órökréttar þar sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir 29 undanþáguflokkum. Í undanþáguflokkunum eru allir þeir sem keyra mest og menga mest með undanþágur. Þar má nefna vöruflutningabíla, dráttarbíla, leigubíla, rútur og bílaleigubíla, sem ásamt öðrum undanþágum gerir það að verkum að nánast allt atvinnulífið er undanþegið, skattstofninn þrengist og skatturinn lendir nánast alfarið á fjölskyldum og einstaklingum sem þurfa að keyra í vinnuna og út í búð. Hér er fjármálaráðherra búinn að gefast algerlega upp fyrir sérhagsmunahópum og almenningur borgar brúsann. Það eru einfaldlega engin haldbær rök fyrir því að flutningabílar sem menga gríðarlega eða erlendir ferðamenn á bílaleigubílum, svo að fá dæmi séu tekin, séu undanskildir kolefnisskatti. Hér er því ekki um stefnubreytingu í skattheimtu að ræða eins og ráðherrann vill telja fólki trú um, nema að því leyti að verið er að færa skattstofn í meira mæli yfir á almenning og láta undan þrýstingi frá sérhagsmunahópum undir yfirskini umhverfisstefnu.
    Auknir skattar á heimilin eru erfið viðbót við þær hremmingar sem þegar hafa dunið á þeim og að sama skapi er tryggingagjaldið í raun gjald fyrir að hafa fólk í vinnu sem getur takmarkað enn frekar vilja fyrirtækja til mannaráðninga. Því telur 3. minni hluti brýnt að leita annarra leiða til að rétta við hag ríkissjóðs en þeirra sem fyrirhugaðar eru í fyrirliggjandi frumvarpi. 3. minni hluti leggur því til að í stað þeirra skattahækkana og niðurskurðar útgjalda til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og frumvörpum um tekjuöflun ríkisins skuli leitast við að afla ríkissjóði tekna sem hér segir:
    

Í fyrsta lagi er lagt til að tekið verði upp auðlindagjald af raforkusölu til stóriðju í stað sérstaks skatts af allri seldri raforku. Gjald þetta verði 1 kr. á kílóvattstund af seldri raforku. Miðað við tölur Orkustofnunar um raforkusölu til stóriðju gæti þetta gjald skilað tekjum upp á u.þ.b. 12,4 milljarða kr. á ári. Þar sem raforkusala til Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga er meitluð í stein hvað verðbreytingar varðar verði leitast við útfæra auðlindagjaldið sem hlutfall af útflutningsverðmæti verksmiðjunnar þannig að það nemi samsvarandi upphæð og 1 kr. á selda kílóvattstund. Lagt er til að dregið verði úr fyrirhuguðum niðurskurði í útgjöldum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála til samræmis við þetta.
    Í öðru lagi er lagt til að tekið verði upp auðlindagjald á úthlutaðar aflaheimildir til fiskveiða. Gjald þetta verði að meðaltali 50 kr. á úthlutað kíló. Miðað við úthlutaðar aflaheimildir ársins 2009/2010 (366.627 tonn) gæti gjaldið skilað tekjum upp á u.þ.b. 18,3 milljarða kr. á ári. Lagt er til á móti að fyrirhugaður niðurskurður í útgjöldum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála verði minnkaður til samræmis við þetta og að það sem út af stendur verði notað til lækkunar tryggingagjalds.
    Slík skattheimta sem að framan greinir er hlutlaus fyrir heimilin og leggst á þær greinar atvinnulífsins sem standa best allra í dag vegna lækkunar á gengi krónunnar. Hér er einnig um að ræða réttláta skattlagningu í þeim skilningi að þessar atvinnugreinar nota auðlindir landsins án endurgjalds, auðlindir sem eru sameign allrar þjóðarinnar. Auk þess er miklu auðveldara að innheimta auðlindagjald með þessum hætti heldur en með einhverjum hugmyndum um tekjuskatt eða veiðileyfagjald sem hlutfall af hagnaði.
Hvað varðar útgjaldahlið frumvarpsins er augljóst að alvarlegir meinbugir eru á starfsemi Alþingis þegar kemur að útgjaldahlið fjárlaga. Nefndarmenn eru vikum saman með viðtöl við fólk frá alls konar félögum og stofnunum og jafnvel við einstaklinga sem koma á fund nefndarinnar til að biðja um peninga. Þetta virðist nefndarmönnum eðlileg framvinda mála og mátti oft heyra á máli þeirra, og þá sérstaklega nefndarmanna stjórnarmeirihlutans, að þeir yrðu að snúa bökum saman fyrir sitt kjördæmi. Við gerð síðustu fjárlaga þegar gestir komu á fund nefndarinnar og sögðust vera spákonur og skrímslasérfræðingar og mývetnskir jólasveinaáhugamenn, þá gerði 3. minni hluti sér ekki grein fyrir því að alvara fylgdi máli en reiknaði með að hér væri bara enn eitt dæmið um hina alræmdu íslensku ofurkurteisi að ræða og að hefð væri fyrir því að hlusta á alla. Fulltrúar meiri hlutans ákváðu hins vegar að taka þetta fólk alvarlega og afhenda því milljónir af skattfé landsmanna og deila því með sem jafnastri dreifingu hver í sitt kjördæmi. Þetta fyrirkomulag með samsvarandi afgreiðslu hefur haldið áfram við fjárlagagerðina í ár og nú eru gæluverkefnin til kjördæmanna sem nefndarmenn sjálfir úthluta að minnsta kosti 120 ef ekki fleiri og upphæðirnar skipta hundruðum milljóna.
 

Meira að segja vernd íslenskra fornleifa er orðin háð geðþóttaákvörðunum fjárlaganefndar sem telur sig hafa sérfræðiþekkingu á því hvernig á að forgangsraða verkefnum á sviði fornleifaverndar. Þetta er furðulegt þegar haft er í huga að enginn nefndarmanna er menntaður á sviði fornleifafræði og greinilegt af umræðum í nefndinni að aðferðafræði fornleifafræðinnar er nefndarmönnum framandi hugsun. Á meðan ómetanlegar fornleifar skolast burt af ágangi sjávar, rennandi vatns eða veðrunar sökum fjárskorts fá sérstök verkefni á áhugasviði og áhugasvæði nefndarmanna meiri hlutans sérstaka úthlutun.
    Það er með þetta eins og fjölmarga aðra útgjaldaliði í tillögum meiri hlutans að hér er ekki endilega verið að fara skynsamlega með almannafé og í raun er þetta á mörkum hins siðlega. Tillögur fjárlaganefndar um framlög til húsafriðunar eru enn eitt dæmið um kjördæmapot þingmanna sem í stað þess að láta faglega nefnd sem þegar er til, húsafriðunarnefnd, sjá um að forgangsraða í því brýna verkefni sem friðun og endurbygging gamalla húsa er, þá kjósa þeir að veita fé í fjölmörg gæluverkefni í eigin kjördæmum, eða alls 26, undir formerkjum húsafriðunar. Meiri hlutinn hreinlega mokar fjármunum í hvers kyns gæluverkefni heima í héraði í stað þess að láta fagstofnanir og fagaðila um úthlutanir og tilheyrandi eftirlit. Þetta er gert á einhverri mestu ögurstund íslenskra ríkisfjármála þegar á sama tíma er verið að skera niður fé til heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála.
Úthlutun hundraða milljóna króna til stjórnmálaflokka er svo enn eitt dæmið um hvernig sitjandi þingmenn reyna að tryggja sér áframhaldandi völd en í fjárlögum næsta árs úthlutar fjór-flokkurinn sjálfum sér án umræðu 304 millj. kr.
    Það er mat 3. minni hluta að flestöllum svokölluðum safnliðum beri að fresta. Flestir rúmast nú þegar innan starfssviða ýmissa sjóða og hinum ætti tafarlaust að koma fyrir annaðhvort innan ráðuneytanna eða nýrra, t.d. svæðisbundinna, sjóða sem gætu lagt faglegt mat á um-sóknirnar og fylgt því eftir að fjármununum væri varið í þau verkefni sem ætlast er til.
Þriðji minni hluti vekur athygli á því að á grundvelli laga nr. 97/2010 verða stofnuð tvö hlutafélög um fyrirhugaðar vegaframkvæmdir. Annað þeirra mun reka Suðurlands- og Vesturlandsveg og verða alfarið í eigu ríkissjóðs. Hitt mun reka Vaðlaheiðargöng og vera að hálfu í eigu ríkissjóðs og hálfu í eigu heimamanna. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður taki lán á markaði og endurláni hlutafélögunum til að þau geti fjármagnað vegaframkvæmdirnar. Er hér um mikla breytingu að ræða frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir því nú er framkvæmdin komin í hendur ríkisins en átti áður að vera utan þess. 3. minni hluti telur að svo miklar breytingar hafi orðið á málinu öllu að ekki séu forsendur til að samþykkja það án þess að vinna það betur innan þingsins. Viðskiptaáætlanir verkefnisins hafa ekki verið lagðar fram í fjárlaganefnd. Væntanlegur fjármögnunarkostnaður hefur ekki verið kynntur, ekki umferðarspár né annað sem máli skiptir við mat á framkvæmdinni. 3. minni hluti telur ámælisvert að reynt sé að keyra jafn stórt mál og hér um ræðir í gegn um fjárlaganefnd á tveimur stuttum kynningarfundum en gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar kosti a.m.k. 40 milljarða kr. Fjárlaganefnd hefur, að mati 3. minni hluta, ekki haft möguleika á að kynna sér málið nægilega vel til að geta afgreitt það núna. Með því að afgreiða málið nú er ekki brugðist við gagnrýni sem Alþingi hefur sætt vegna vinnubragða sem mættu vera faglegri.
Þriðji minni hluti gagnrýnir einnig þá óvissu sem enn ríkir um fjárhagsáætlanir Íbúðalánasjóðs en í fjáraukalögum fyrir árið 2010 var ríkissjóði heimilað að veita sjóðnum allt að 33 milljarða kr. framlag til að styrkja eiginfjárstöðu hans og gera honum kleift að mæta afskrift útlána. Ekki hefur verið útfært með hvaða hætti fjárhagsstuðningi ríkissjóðs við sjóðinn verður háttað. Málefni sjóðsins eru enn í skoðun og því liggur ekki fyrir hvort þörf er á að breyta fjárhagsáætlunum hans frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Því er ljóst að komi til þess að grípa þurfi til frekari aðgerða í málefnum sjóðsins eða breyta lánsfjáráætlunum hans kann að þurfa að leita eftir heimildum til þess í fjáraukalögum fyrir árið 2011. 3. minni hluti gagnrýnir þessa óvissu og telur að nægilegur tími hafi ekki gefist til að skýra þessi mál.

Þriðji minni hluti vill að lokum lýsa undrun sinni á þeim vinnubrögðum sem viðgengist hafa við gerð fjárlaga, hvort sem um er að ræða efnahags- og skattanefnd eða fjárlaganefnd. Viðamiklar breytingar á viðkvæmum tímum eru mjög varasamar og ber ekki að afgreiða með þeim hætti sem gert er í þessum fjárlögum. Sú tilraun sem verið er að gera með að endurskipuleggja heilbrigðiskerfi alls landsins gegnum fjárlögin en ekki á faglegum forsendum er beinlínis forkastanleg. Einnig er kollvarpað öllum venjum og hefðum í vegagerð á landinu og almenning margskattlagður í þágu sömu framkvæmda með því að taka upp vegatolla.
Ekki hafa verið gefnar fullnægjandi skýringar á ríkisábyrgðum sem fjármálaráðuneytið hefur gefið Arion banka og Íslandsbanka og hvergi er getið um í ríkisreikningi, á

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.12.2010 - 09:19 - FB ummæli ()

Pólitísk arfleifð Sjálfstæðisflokksins

Eins og fram kemur í bók Guðna Th. Jóhannessonar um ævi Gunnars Thoroddsen er pólitísk arfleifð Sjálfstæðisflokksins hroðaleg þegar kemur að persónunjósnum og virðist flokkurinn hafa gengið ótrúlega langt í að reyna að koma hér á einhvers konar ógnarstjórn þar sem atvinna og lífsafkoma fólks átti að byggjast á þjónkun þeirra til viðhorfa Sjálfstæðisflokksins.  Málið var tekið upp á Alþinig í gær undir liðnum Störf þingsins þar sem Þráinn Bertelsson hóf umræðuna. Sjálfur tók ég undir með Þráni með nokkuð afgerandi hætti.

Álit mitt má sjá hér og álit Þráins má sjá hér  og svo hér.  Hjáróma viðbárur nokkurra sjálfstæðismanna má svo hlusta á hér og þar í dagsrárliðnum, en þær mótbárur voru eins og við var að búast.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.12.2010 - 09:04 - FB ummæli ()

Valtir bankar?

Undanfarnar vikur hafa verið að berast fréttir af stórfelldum ríkisábyrgðum (145 ma.kr.) til handa tveimur af þremur bönkum landsins, ábyrgðum sem ekki eru gerð skil í ríkisreikningi. Vegna þess hve viðkvæm slík umfjöllun getur orðið voru fregnirnar bornar óformlega undir efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir u.þ.b. þremur vikum síðan og þegar engin svör fengust, ítrekaðar fyrir um viku. Í viðskiptablaði Morgunblaðsins um helgina var umfjöllum um þessa stöðu sem upp er komin þar sem heimildir Morgunblaðsins telja að um sé að ræða ábyrgðir upp á um 141 milljarð. Í gær í þinginu bar ég upp formlega fyrirspurn til fjármálaráðherra enda heyra ríkisábyrgðir undir hann. Fyrispurnina má sjá hér:

Fyrirspurn til hæstvirts fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar varðandi verðbréfaskipti sem hafa fengið nafnið Ástarbréfin hin nýju.

 Samkvæmt heimildum hafa umtalsverð verðbréfaskipti átt sér stað milli Lánamála ríkisins annars vegar og Arion banka og Íslandsbanka hins vegar, verðbréfaskipti sem virðast með ábyrgð ríkissins en eru samt utan efnahagsreiknings ríkissjóðs og nema að upphæð vel yfir 100 ma.kr.

Morgunblaðið nefnir í helgarblaði viðskiptablaðs síns upphæðina 141 ma.kr. en mínar heimildir eru upp á 145 ma.kr. Viðskiptin eru með þeim hætti að Fjármálaráðuneytið í gegnum Lánamál ríkisins afhendir viðkomandi bönkum verðbréf, að mestu úr svo kölluðum hrunflokki þ.e. RIKH 18 en einnig úr RIKS 15, gegn tryggingu í þrotabúum SPRON annars vegar og Straums/Burðaráss hins vegar. Bankarnir leggja svo bréfin inn í Seðlabankann og fá í staðin laust fé.

Seðlabankinn hafnaði hins vegar þessum tryggingum og fjármálaráðuneytið hefur því gengist í fulla ábyrgð fyrir því að bera alla fjárhagslega ábyrgð á verðbréfaskiptunum f.h. bankanna ef eitthvað vantar upp á settar tryggingar. Bankarnir hafa þegar nýtt sér þessar heimildir og ábyrgð ríkisins virðist vera orðin virk þó hennar sé hvergi getið í lögum. Því vil ég spyrja ráðherrann fjögurra spurninga:

 1)  Er þetta rétt og þá með hvaða heimild er þetta framkvæmt?

2)  Hvers vegna eru bankanrnir að nýta sér þessa heimild ef lausafjárstaða er eins góð og hún virðist vera samkvæmt 9 mánaða uppgjöri og er heimildin til þeirra algerlega opin?

3)  Er hér um að ræða nýja útgáfu af svo kölluðum ástarbréfa skiptum þar sem ríkið, þ.e. fjármálaráðuneytið og þar með skattgreiðendur, er nú í beinni ábyrgð á gjörningnum?

4)  Þar sem þetta ferli virðist nú vera komið af stað og vel það og býður heim mikilli áhættu. Hvaða tryggingu getur fjármálaráðherra gefið sparifjáreigendum, fjárfestum og skattgreiðendum að hér muni ekki ríða yfir annað stóráfall í fjármálageiranum með tilheyrandi kostnaði?

Svör ráðherrans og fyrirspurnin í heild sinni  eru hér:

Skemmst er frá því að segja að svör fjármálaráðherra voru það rýr að enn er óupplýst hvað er í gangi. Það er að vísu fremur algengt að ráðherrar svari ekki eða svari út í hött þegar þessar fyrirspurninr eru á dagskrá en þegar kemur að svo viðkvæmu máli sem stöðu bankanna og hugsanlegum skakkaföllum upp á gríðarlegar upphæðir er ekki við hæfi að fá ekki skýrari svör. Svona gerast kaupin á eyrinni stóru sem heitir Alþingi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.12.2010 - 01:19 - FB ummæli ()

Kosningar sem fyrst

Nú þegar komið hefur í ljós að forsætis- og fjármálaráðherra sem og öll ríkisstjórnin (nema Ögmundur) og flestir þingmenn í liði hennar höfðu algerlega rangt fyrir sér og beittu svívirðilegum blekkingum og áróðri til að reyna að skuldsetja landið upp í rjáfur, er rétt að að renna yfir þessa rúmlega kortérs upprifjun frá Stöð 2.  Ég held að það sé algerlega réttmæt krafa  að þetta fólk segi af sér og leyfi þjóðinni að velja sér nýtt fólk til að taka við stjórnartaumunum.  Hér var gengið fram með miklu offorsi og af miklum óheilindum og við sem stóðum í vegi fyrir þessu vorum hiklaust kölluð lýðskrumarar og margt annað verra. Forystulið ríkisstjórnarinnar kann hins vegar ekki að skammast og hefur ekki sómatilfinningu frekar en ljósastaur að sumri. Svo voga þau sér að ljúga upp á Ögmund um ríkisstjórnarslitin og forsætisráðherra vill að Lilja Móses. víki. Það var m.a. þessi sama Lilja Mósesdóttir sem talaði gegn Icesave allan tímann og sem ein af sjálfstætt þenkjandi VG liðum ásamt Guðfríði Lilju, Ögmundi, Ásmundi Einari, Atla og Jóni þorðu að standa í lappirnar gegn yfirgangi Steingríms og náhirðarinnar sem er í kringum hann.

Ég horfði á þessa upprifjun og það sem kom mér í hug að því loknu var þessi einfalda setning. „Hugsa sér að þetta fólk skuli stjórna landi“.

Það er eitthvað meira en lítið öfugsnúið þegar Jóhanna vogar sér að tala eins og hún gerir. Hún og Steingrímur eru svo langt komin með að klúðra rækilega því verkefni sem þeim var falið að það er komið nóg. Það er blasir við spilling, óheilindi og þjófræði hvert sem litið er og engin merki um að það sé einu sinni byrjað að hreinsa til eftir hrunið, enda sennilega aldrei ætlunin. Atkvæðagreiðslan í þinginu þriðjudaginn 28. september 2010, þegar 23 algerlega vanhæfir þingmenn þar á meðal sjálfur forseti Alþingis og forsætisráðherrann greiddu atkvæði um ráðherraábyrgðina og vernduðu sjálf sig og vini sína, gerði landslýð það rækilega ljóst að stjórnmálstéttin á Íslandi mun aldrei gefast upp nema almenningur grípi í taumana með róttækum hætti. Þessi dagur var sá svartasti í sögu lýðveldisins og sá svartasti í sögu lýðræðis á Íslandi.

Ríkisstjórnin og þingliðar hennar eru með landið á fullri ferð fram af hengiflugi, að vísu með bundið fyrir augun sem er einhvers konar afsökun, en það breytir þó engu um niðurstöðuna. Þjóðin hefur ekki efni á að bíða eftir kosningum árið 2013, ekki einu sinni fram yfir mitt næsta ár.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur