Þriðjudagur 24.04.2012 - 11:02 - 13 ummæli

Klám og skrattamálun í Reykjavík

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar gaf nýlega út bæklinginn „Klámvæðing er kynferðisleg áreitni“. Ég fjallaði um hann í þessum pistli, en þá vissi ég ekki að borgin bjó yfir upplýsingum um algengi kynferðislegrar áreitni á vinnustöðum hennar. Þær upplýsingar fékk ég eftir að hafa spurt, en fyrst fékk ég þó þetta svar frá starfsmanni skrifstofunnar: „Eftir að bæklingurinn kom út hafa fjölmargar konur starfandi hjá Reykjavíkurborg rætt atvik sem þær hafa orðið fyrir og tengjast klámvæddri orðræðu. Vonandi svarar það spurningu þinni um algengi.“

Þegar ég spurði nánar var mér sagt að borgin hefði gert viðhorfskönnun þar sem spurt var hvort starfsmenn borgarinnar hefðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu samstarfsfólks. Könnunin náði til 6.738 starfsmanna borgarinnar og svarshlutfalliið var 67%, þ.e.a.s. 4.848 svöruðu. Í könnuninni kom fram að um 0,2% svarenda segjast hafa orðið fyrir líkamlegri kynferðislegri áreitni, og um 0,3% fyrir kynferðislegri áreitni í orðum.

Sé gengið út frá að þessi könnun sé áreiðanleg er niðurstaðan sem sagt að kynferðisleg áreitni er nánast óþekkt fyrirbæri á vinnustöðum borgarinnar, og þessar upplýsingar lágu fyrir þegar Mannréttindaskrifstofan gaf út ofannefndan bækling.

Ég fjallaði svolítið um umrædda „rannsókn“ í áðurnefndum pistli en mun gera það nánar síðar, enda virðist hún lýsandi dæmi fyrir þá afstöðu til raunveruleikans sem einkennir hina svokölluðu kynjafræði við Háskóla Íslands. Hér er þó rétt að geta þess að rannsóknin byggist á viðtölum við fimm handvalda starfsmenn borgarinnar, sem höfundur var „svo lánsamur að vildu segja honum frá reynslu sinni.“ („I was fortunate enough to find five research participants, who were willing to share their experiences with me.“)

Í tveim tilfellum segja viðmælendurnir sögu sem bendir til að tilteknir yfirmenn hafi hagað sér með ósæmilegum hætti, sem þeir hefðu átt að fá tiltal fyrir. (Hafa ber þó í huga að við (og höfundurinn) fáum bara aðra hliðina á málinu, því ekki var rætt við þá sem voru bornir sökum.) Í einu tilfelli segist viðmælandi hafa séð mynd af naktri konu á tölvuskjá og dagatal með nöktum konum á vegg í herbergi sem hún kom inn í. Þetta eru sem sagt „gögnin“ sem rannsóknin byggir á, en gefið er í skyn að klám gegnsýri vinnustaði borgarinnar, með hræðilegum afleiðingum, enda var sem sagt ráðist í útgáfu bæklings um málið, sem ætlaður er starfsmönnum borgarinnar og Háskóla Íslands (þar sem fundust, samkvæmt greininni, þrjár auglýsingar á vegg með fáklæddum konum, tvær frá nemendafélagi, en ein frá óþekktum aðila og ótengd skólanum).

Það er jafn sérkennilegt að fá ráðskonu í Femínistafélaginu til að gera úttekt á þessum málum eins og það væri að fá biskup til að rannsaka þörfina á trúboði í skólum. En, það er einmitt algengt meðal þeirra femínista sem helst hafa sig í frammi á Íslandi að krefjast þess að hin sérkennilega pólitíska afstaða þeirra — um að samfélagið sé gegnsýrt af klámi sem gegni því hlutverki að kúga konur — sé viðurkennd sem fræðilegur sannleikur, rétt eins og trúarhópar þykjast hafa höndlað hinn eina sannleika um lífið og tilveruna.

Hver var þá tilgangurinn með þessari „rannsókn“? Ljóst er að fólkið sem hrinti henni af stað og gaf út bæklinginn vissi, áður en bæklingurinn kom út, að kynferðisleg áreitni er nánast óþekkt vandamál á vinnustöðum borgarinnar, a.m.k. miðað við þau gögn sem viðkomandi hafa í höndum. Getur verið að tilgangurinn sé eingöngu að skapa vinnu fyrir „kynjafræðinga“ (sem finnst ástæða til að taka fram í opinberum svörum um þessi mál að þeir séu þar að auki femínistar)?

Eða getur verið að tilgangurinn sé langmiðaðri og snúist um að skapa ótta og óvissu, til að tryggja áhrif þeirra sem reka þennan áróður? Það er ekki nýtt, heldur vel þekkt aðferð þeirra sem stunda ýmiss konar „verndunar“bisniss. Öðru nafni heitir þetta að mála skrattann á vegginn og er mikið stundað af þeim sem hafa atvinnu af að særa út djöflana sem þeir skópu sjálfir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

 • Er til of mikils mælst að fá núna hreinskilnisleg svör við þeirri spurningu hvers vegna Reykjavíkurborg lét gefa út bækling um kynferðislega áreitni á vinnustöðum borgarinnar þegar hún hafði gögn sem sýna að vandamálið er nánast óþekkt á þessum vinnustöðum? Reykjavíkurborg hefur orðið að skera víða niður og draga úr þjónustu. Hvers vegna er þá verið að eyða peningum í svona vitleysu? Þetta jaðrar við að vera hneyksli.

 • Ekki væri ég hissa ef þetta verkefni hafi verið samþykkt til að friða þennan sértrúarhóp (og gefa öðrum vinnufrið)

  Hér á landi hafa verið tilkynntar til lögreglu 1100-1500 líkamsárásir á ári síðustu tíu ár, en um 250 -350 nauðganir.

  Ef maður les fréttir og blogg mætti ætla að hlutföll slíkra glæpa væru öfug.

  Staðreyndin er sú að netmiðlar (í deyjandi fréttabransa) segja fréttir um þau topic sem fá flest klikk á netinu, og augljóst er að sameiginlega hefur íslendingum tekist að mála þennan skratta á vegginn með eins stórri (og marktækri) eigindalegri rannsókn og þær geta orðið .

  Og það er líka í takt við hugmyndafræði feminista að halda að huglægt net-klikk sé lýsing á raunveruleikanum svo lengi sem nógu margir like-a við knúz greinar

 • Ég sendi, fyrir rúmum tveim vikum, Mannréttindstjóra Reykjavíkurborgar nokkrar spurningar um þetta mál, m.a. hver tilgangurinn væri með útgáfunni. Mér var sagt að erindið hefði verið móttekið, og viku síðar, þegar ég spurði aftur, að erindum væri svarað eins fljótt og mögulegt er, og að gert væri ráð fyrir að svarið bærist í næstu viku (þessari).

  Ég geri ráð fyrir að birta svarið þegar það berst.

 • Einar

  Það verður æðislegt að heyra útskýringarnar.

  Ég bý mig undir munnræpu af loðnum svörum, upphrópunum og alarmisma sem Björn Bjarna yrði stoltur af (bara undir öðrum formerkjum)

 • Femínistar og kynjafræðingar eru hið nýja kenniafl í samfélagi nútímans líkt og klerkar og kirkunnar menn voru á miðöldum.

  Þessir hópar halda þjóðfélaginu í ákveðinni gíslingu pólitískrar rétthugsunar.

  Það er athyglisvert að mun fleiri líkamsárásir eiga sér stað heldur en nauðganir.

  Nauðganir fá samt sem áður harkalegir meðferð í dómskerfinu heldur en líkamsárás, þrátt fyrir að líkamsárís sé einskonar nauðgun á fórnarlambinu.

  Oftast eru dómar í líkamsárásarmálum ekki nema 2-3 mánuðir á skilorði, auk skaðabóta upp á 100-200 þús. kr. þrátt fyrir að fórnarlömbin hljóti slæma líkamlega og andlega skaða.

  Nauðgun, þar sem jafnvel engri líkamsmeiðingu er beitt, þýðir aldrei lægri dóm en 2 ár í óskilorðsbundið fangelsi, auk hárra skaðabóta upp nokkrar mio.kr.

  M.o.ö. það er ódýrara að lúberja og slasa fólk heldur en að nauðga því hér á landi.

  Hvert stefnir svona samfélag?

 • Bara svo það sé á hreinu þá vil ég alls ekki að það misskiljist sem svo að ég geri lítið úr nauðgunum miðað við barsmíðar – held að alvarleiki hvers brots fyrir sig fari bara algjörlega eftir hverjum atburði fyrir sig.

  Allir glæpir eru hinsvegar stigbundnir (meir að segja morð) , og ég geri athugasemd við hvernig feministar presentera tölfræði um nauðganir, þar sem þeir steypa í eitt mót annarsvegar t.d. málum þar sem kærasti stoppaði 20 sekúndum seinna en hann var beðin um það , og hinsvegar algjörlega hardcore sálarmorðs Irreversible nauðgunum – og feminstiar virðast stunda þetta í nafni alarmisma.

  Þegar byrt er frétt í fjölmiðlum um að maður sé dæmdur fyrir „skammvinna stroku“ (ekki að slíkt sé smekklegt) og fjöldinn allur af feministum linkar á slíka frétt og like-ar , líkt og þær séu búnar að finna enn annað púslið í samsæriskenningunni um að feðraveldið sé allstaðar að verki, þá er einfeldingskapurinn í nafni hópeflis komin á frekar sjúkt stig

  Álíka sjúkt og ef stór hópur í samfélaginu vildi að allir þeir sem lenda í slag á djamminu væru dæmdir sálarmorðingar og að eðlilegt væri að krefjast þess að þeir væru nafngreindir og byrt af þeim mynd í gapastokk nútímans: fjölmiðlum undir slíkum blammeringum

  Vissulega eru nauðganir, annars konar kynferðislegt ofbeldi og barsmíðar viðbjóðslegt fyrirbæri, en að snúa útúr slíkri ömurð í nafni pólitíkur og hugmyndfræði er líka viðbjóðslegt fyrirbæri, alveg óháð því hvort þeir sem stunda slíkan alarmisma eru Björn Bjarna, eða feministar

 • „hafa atvinnu af að særa út djöflana sem þeir skópu sjálfir“

  Skemmtilega orðað. Ég vissi hreinlega ekki af þessari viðhorfskönnun fyrr en Eva minntist á þetta í Silfrinu. Mér finnst þetta mál vera af allt öðrum toga í ljósi þess hve tíðnin er lág. Það er altént ekki hægt að sjá að fyrir hendi hafi verið einhverskonar faraldur kynferðislegrar áreitni hjá borginni. Ég hallast að því að annaðhvort hafi vegið þyngra, þörf þessara femínista til að hafa eitthvað að gera eða hitt, að karlfyrirlitning sé undirliggjandi drifkraftur sem er í sjálfu sér ekki erfitt að ímynda sér, sérstaklega í ljósi viðtals við rannsakanda í Fréttatímanum.

  Það verður áhugavert að sjá svar Mannréttindastofu Reykjavíkur til þín. Ég held að besta móteitrið á svona fáránleika sé að draga hann fram í dagsljósið.

 • Bjarni Tryggvason

  Svona „rannsóknir“ hafa það sem aðalmarkmið að réttlæta tilveru og áframhaldandi fjármögnun viðkomandi apparats.

  Haltu áfram að benda á að keisarinn sé ekki í neinum fötum.

 • Gott hjá þér, Einar!

  Meira af þessu.
  Þú ert eini maðurinn sem þorir að synda opinberlega á móti straumnun.

 • Núna verður Reykjavíkurborg að drífa sig í að gefa út bæklinga um önnur stór vandamál í borginni sem þarf að taka á.

  Geislavirkni á leikskólum, hvernig er best að verja sig.
  Hvernig á að koma í veg fyrir ofþornun í eyðimerkursandi.
  Hvernig er best að verjast árásum ísbjarna.

  Eflaust mörg önnur áríðandi málefni sem þarf að taka fyrir.

 • Ég er sem betur fer alls ekki einn um að gagnrýna ofstækisfemínisma, og reyndar eru aðrir mun virkari í því en ég, ekki síst þessir:

  http://forrettindafeminismi.com/

  http://www.pistillinn.is/

  http://www.andmenning.com/

  Hitt er rétt að það eru fáir sem leyfa sér að gera slíkt opinskátt, og nánast engin manneskja í áhrifastöðu. Það er slæmt, því áhrif dólgafemínista eru orðin talsverð í stjórnsýsluni. Hér eru tveir pistlar sem fjalla einmitt um það hvernig femínistar reyna að sölsa undir sig umræðuna:

  http://forrettindafeminismi.com/2012/04/22/af-yfirtoku-ordraedunnar/

  http://www.pistillinn.is/?p=1948

 • Þakka þér fyrir þessi frábæru skrif, Einar.

  Ánægjulegt væri ef fleiri hefðu hugrekki til að ganga gegn öfgunum sem eitra þetta samfélag.

 • Svavar R.

  Þessi „klám-busters“ iðnaður er orðin hlægilegur og líkist æ meira leikhúsi fáránleikans.

  Alveg er ég viss um að nú munu femínistar og þessir klámvæðingaspesíalistar bannfæra Einar fyrir þessi skrif sem þetta lið lítur á sem örgustu helgispjöll.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur